Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 21. 2023 | 23:59

Hver er kylfingurinn: Brian Harman?

Bandaríski kylfingurinn Brian Harman er í bílstjórasætinu á Opna breska risamótinu sem hófst í gær.

Hrein unun hefir verið að horfa á listagolfið sem Harman er að spila. Galdrakarl á ferð þar!

Harman á heil 5 högg á næsta mann, Tommy Fleetwood, nú í hálfleik.

Engu að síður er Harman ekki meðal þekktustu kylfinga PGA Tour og því ástæða til að birta að nýju kynningu, sem Golf 1 skrifaði um Harman fyrir 5 árum síðan (2017) –  lítillega uppfærða auðvitað.

Eins og staðan er í dag hefir hann sigrað 4 sinnum á atvinnumannsferli sínum, þar af tvívegis á PGA Tour.

En….hver er kylfingurinn: Brian Harman?

Sjá má enn eldri kynningu Golf 1 á Harman, frá árinu 2012, þegar Harman komst fyrst á PGA Tour, með því að SMELLA HÉR: en hér á eftir fer nýrri útgáfa, sem í grunninn byggist á grein Golf 1 frá 2017:

Brian Harman

Brian Harman fæddist 19. janúar 1987 og er því 36 ára.

Í háskóla var Harman þrefaldur 2nd Team All-American með golfliði University of Georgia. Hann sigraði NCAA Preview árið 2005 og Isleworth Invitational árið 2006. Harman var einnig frábær námsmaður og fékk þrívegis í háskóla viðurkenningu fyrir að vera með hæstu meðaleinkun.

Harman átti frábæran áhugamannaferil. Þannig sigraði hann t.d. 2003 í U.S. Junior Amateur. Hann sigraði í Players Amateur árið 2005 og the Porter Cup 2007, þar sem sigurskor hans var mótsmet þ.e. 22-undir-pari 258 högg.

Harman lék einnig í sigurliðum Bandaríkjanna í Walker Cup 2005 og 2009 og í Palmer Cup 2007.

Atvinnumannsferill

Harman gerðist atvinnumaður í golfi árið 2009.
Árið 2010 spilaði Harman aðallega EGolf Professional Tour og var með topp-10 árangra í 11 af þeim 14 mótum sem hann spilaði í. Fyrsti sigurinn sem atvinnumaður kom á Manor Classic þar sem hann vann með 3 högga mun á næsta mann. Harman spilaði líka í 3 mótum í 2. deildinni í Bandaríkjunum, Nationwide Tour árið 2010. Besti árangur hans var á Stadion Athens Classic í UGA þar sem hann varð T-18 á gamla háskólavellinum sínum.

Harman er þekktur fyrir uppákomu í Players Championship 2012. Hann var fyrsti varamaður þegar D.A. Points dró sig úr mótinu aðeins nokkrum mínútum fyrir rástíma sinn. Rásfélagar hans Carl Pettersson og Robert Garrigus voru þegar búnir að slá og eftir að hafa ráðfært sig við PGA, var Harmann leyft að slá teighöggið einn fyrsta hringinn. Hann fékk síðan sem ráshópsfélaga þá Ryan Moore og Bud Cauley á 2. hring eftir að Paul Casey dró sig úr mótinu. Harman komst í gegnum niðurskurð og varð T51 í mótinu.

Harman komst síðar í gegnum úrtökumót og á fyrsta risamótið sem var Opna bandaríska 2012. Besti árangur Harman í risamótum til þessa er T-2 árangur á Opna bandaríska 2017.

Fyrsti sigur Harman á PGA Tour kom árið 2014 á John Deere Classic. Árið 2015 var Harman í forystu fyrir lokahring Travelers Championship, en komst síðan ekki í bráðabana um efsta sætið, en Bubba Watson stóð uppi sem sigurvegari. Bubba átti 1 högg á Harman og Harman varð í 3. sæti.

Þann 30. ágúst 2015, á The Barclays í Plainfield Country Club í Edison, New Jersey varð Harman 3. kylfingurinn í sögu PGA Tour til þess að fá 2 ása á sama hring í móti.

Þann 7. maí 2017  sigraði Harman á Wells Fargo Championship, sem fram fór í Eagle Point golfklúbbnum í Wilmington, Norður-Karólínu, en þetta var 2. sigur hans á PGA Tour. Harman setti m.a. niður 28 feta (7 metra) pútt á 18. holu og átti 1 högg á þann sem þá var nr. 1 á Rolex-heimslistaum,  Dustin Johnson.

Harman varð einn í 2. sæti á  World Wide Technology Championship árið 2022 í Mayakoba, fjórum höggum á eftir sigurvegaranum Russell Henley. Þetta var besti árangur Harmans á PGA Tour í rúm fimm ár. Hann fylgdi þessu eftir með T-2 árangri í næsta móti sínu RSM Classic, þar sem hann var tveimur höggum á eftir sigurvegaranum Adam Svensson.

Verður árið í ár, 2023, það stærsta á golfferli Brian Harman til þessa? – Sigur í fyrsta risamótinu og það í því elsta og virðulegasta – 151. Opna breska?

Persónuhagir

Loks mætti lítillega geta persónulegra haga Harman, en hann býr á Sea Island í Georgíu með eiginkonu sinni, Kelly Van Slyke, sem hann kvæntist 13. desember 2014 og á 3 börn, en elst af þeim er dóttir þeirra Cooper Marie og síðan eiga þau hjónakorn synina Walter og Jack. 

Í aðalmyndaglugga: Brian Harman. Mynd: PGA Tour