Ragnheiður Jónsdóttir | september. 25. 2022 | 20:00

Golf 1 ellefu ára í dag!!

Golf 1 er ellefu ára í dag, þ.e. 11 ár eru frá því að fyrsta fréttin birtist á Golf 1 golffréttavefnum. Það var frétt í greinaflokknum „Frægir kylfingar“ og um John F. Kennedy 35. forseta Bandaríkjanna, sem enn í dag þykir fremstur í golfi af þeim sem setið hafa í forsetastóli í Bandaríkjunum.. Sjá fyrstu grein Golf 1 með því að SMELLA HÉR:

Frá því fyrir ellefu árum síðan hafa um 24.600 greinar birtst á Golf1, á íslensku, ensku og þýsku en Golf 1 er því eini golffréttavefurinn í heiminum sem skrifar golffréttir á íslensku, ensku og þýsku.

Fréttir á Golf1 hafa birtst nokkuð skrikkjótt 2022, þ.e. liðið hefir einhver tími milli birtinga, nú í ár, en þó aldrei meira en 2 mánuðir. Fyrir því eru nokkrar ástæður sem ekki verða tíundaðar hér. Alltaf hafa fréttir fyrir það tímabil sem engar fréttir birtust verið „unnar upp“ þ.e. greint frá því „retrospektívt“ hvað gerðist í golfheiminum – þannig  heldur Golf1 í stefnu sína að flytja fréttir frá öllum dögum ársins.

Það sem er mikilvægt að vita er að Golf 1 mun áfram flytja fréttir af 2. vinsælustu íþróttagrein á Íslandi ásamt því efni sem vefurinn er orðinn þekktur fyrir: úrslitafréttir af öllum helstu mótaröðum heims, afmælisgreinar, kynningar á og viðtöl við kylfinga, kynningar á golfvöllum, kynningar á golfbókum, sögur af golfi, golfútbúnaðargreinar, krakkana okkar á GSÍmótaröðunum, fremstu kylfingunum okkar á „Mótaröð þeirra bestu“, íslensku afrekskylfingunum á stóru mótaröðunum, frægum og ekki svo frægum kylfingum, krökkunum okkar í bandaríska háskólagolfinu; fréttir af meistaramótum klúbba, sveitakeppnum, almennum mótum, hefðbundnum sem óhefðbundnum, kvenkylfingum sem karlkylfingum, ungum sem öldnum, íslenskum sem útlenskum.

Við erum langt því frá hætt, eins og nokkrir voru orðnir hræddir um. Langt því frá. Eins og lagt var upp með í upphafi er ekkert viðkomandi golfi Golf 1 óviðkomandi!

Bestu þakkir fyrir góðar viðtökur fyrstu 11 starfsárin.

Ragnheiður Jónsdóttir, ritstjóri Golf 1.