John F. Kennedy, 35. forseti Bandaríkjanna í golfi
Ragnheiður Jónsdóttir | september. 25. 2011 | 13:21

Frægir kylfingar: John F. Kennedy

John Fitzgerald Kennedy, JFK, fæddist 29. maí 1917 í Brookline, Massachusetts. Hann var 35. forseti Bandaríkjanna og gegndi embætti frá árinu 1961 til 22. nóvember 1963, þegar hann var skotinn til bana af óþekktri leyniskyttu, þegar hann ók í opnum bíl í gegnum Dallas í Texas. Kona hans var Jacqueline Bouvier Kennedy og saman áttu þau 2 börn, Caroline og John John.

Ein glæsilegustu forsetahjón Bandaríkjanna fyrr og síðar – Demókratarnir Jackie og JFK á brúðkaupsdaginn

JFK hóf að spila golf sem táningur og þar sem hann var mikill íþróttamaður varð hann fljótt góður kylfingur. Hann var m.a. í golfliði Harvard þegar hann var við nám, sem busi í háskólanum fræga.  Þó Kennedy gæti oft ekki spilað golf langtímum saman vegna krónísks bakverks er hann þó álitinn besti kylfingurinn af forsetum Bandaríkjanna.

En JFK var þögull um ást sína á golfíþróttinni (ens.: Kennedy was secretive about his love of the links.) Eftir að Ike Eisenhower, 34. forseti Bandaríkjanna, sem hafði verið mjög opinskár um golfástríðu sína á forsetatíð sinni, hlaut mikla gagnrýni fyrir að verja of mikið af tíma sínum á golfvellinum við ástundun íþróttar, sem álitin var “ríkra manna íþrótt” – þá var Kennedy mjög áfram um að forðast það að vera myndaður við golfleik.  Það eru því til mjög fáar myndir af JFK við golfleik.

JFK sló oft af teig á sumarkvöldum með eins lítið af öryggisvörðum með sér og hægt var til að forðast athygli.  Hann hóf sjaldan spil sitt á 1. eða 10. teig og kláraði sjaldnast 18 holur.

Fyrir forsetavígsluathöfnina spilaði hann golf næstum daglega í Palm Beach Country Club, nærri  heimili föður síns í Flórída.

„Hann (John F. Kennedy) getur spilað 9 holur á 36 eða 39 höggum,” sagði golfkennari klúbbsins, Bert Nicholls í viðtali við Golf Digest, árið 1961.

„En hvað um það, ég get ekkert sagt hvernig hann spilar næstu 9 holurnar. Ég hugsa að hann eigi í erfiðleikum með að einbeita sér að golfleiknum. Hann spilar 2 eða 3 brautir vel og síðan byrjar hann að sveifla eins og hann ætti ekki að gera.”

JFK lét taka upp sveiflu sína í Hyannis Port í Massachusetts 1963 og var búinn að plana að bjóða Arnold Palmer í Hvíta húsið um veturinn til þess að fá hann til þess að gefa sér ráð.  Ekkert varð af fundinum. JFK var skotinn úr launsátri í nóvember 1963.

Heimild: Golf Digest (að hluta)