Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 20. 2019 | 17:00

Glover með í 1. sinn í 10 ár

Fyrir ári síðan missti bandaríski kylfingurinn Lucas Glover kortið sitt á PGA Tour; var í 135. sæti á FedEx Cup listanum.

Glover hafði ekkert gengið sérlega vel á túrnum og fréttir af ömurlegum heimilisaðstæðum hans, þar sem hann varð að þola ofbeldi af hálfu drykkfelldrar konu sinnar, Kristu komust í hámæli. Sjá eldri grein Golf 1 með því að SMELLA HÉR: 

Hinn þá 38 ára Glover virtist óravegu frá hátindi ferils síns, sem var 10 árum áður, þegar hann stóð uppi sem sigurvegari á Opna bandaríska risamótinu (2009).

Glover tók þátt í Web.com Finals (nú Korn Ferry Finals); endurheimti PGA Tour kortið sitt og hefir gengið ágætlega á PGA Túrnum í ár (var 16 sinnum meðal efstu 20 í mótum sem hann tók þátt í).

Nú ári síðar tekur Glover í fyrsta sinn, í 10 ár, þátt í Tour Championship og er einn þeirra 30 kylfinga, sem keppa um 30 milljón dollara bónuspottinn!!!

Aðspurður hvernig sér liði að taka þátt í Tour Championship að nýju sagði Glover: „Vel, í hreinskilni sagt. Ég er spenntur, svolítið þreyttur, en hér erum við komin. Þetta er bara gott.“

Þetta setur slaufuna á árið. Maður hallar sér aftur og hugsar „allt í lagi, hér er ég kominn. Þetta hlýtur að hafa verið ansi gott ár“.