Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 1. 2015 | 07:45

531 kylfingur keppir í 5 mótum 1. maí 2015!

Það er kominn 1. maí og árið flýgur í burtu á eldingshraða – bara 1/2 ár til jóla! …. og síðustu jól nýbúin, að því er virðist.

1. maí fagnar landsmönnum hér fyrir sunnan í sól og kulda og við þannig aðstæður munu langflestir hér sunnanlands spila í dag.

Það er 531 kylfingur sem mun munda kylfuna í 5 mótum í dag. Þetta er fækkun um 119 kylfinga í golfmótum frá því 1. maí í fyrra en þá tóku þátt 650 kylfingar en golfmót haldin 1. maí voru líka fleiri eða 7.

Af þessum 531 kylfingi sem keppa 1. maí í ár eru 48 kvenkylfingar og eru þær einungis 9%þátttakenda af þessum heildarfjölda kylfinga.  Kannski stafar þetta af því að á sunnudaginn n.k. fer fram hið árvissa, frábæra Lancôme kvennamót á Hellu, en þar eru 94 kvenkylfingar skráðar til leiks!

Hjá mörgum hefst golfvertíðin á Hellu.  Þar eru skráðir 213 kylfingar í „1. maí mót GHR og Grillbúðarinnar“, þar af 18 kven-kylfingar.

Hjá GM í Mosfellsbæ keppa 196 kylfingar í „Opna 1. maí móti GM og ECCO“, þar af 23 kvenkylfingar.

Í Sandgerði fer fram „Opna Bláa Lóns Texas Scramble“ og taka 46 kylfingar þátt þ.e. 23 lið, þar af 2 kvenkylfingar.

Hjá GG er haldið „Opna Veiðafæraþjónustan – Texas Scramble Shotgun“ og eru þátttakendur 70 þ.á.m. 5 kvenkylfingar.

Loks er haldið 1. maí punktamót á Silfurnesvelli í Höfn í Hornafirði og taka 6 þátt, en því miður enginn kvenkylfingur.

Hvar sem þið eruð; í kröfugöngu, að semja eða í golfi – eigið góðan 1. maí!!!