Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 2. 2012 | 19:15

William McGirt var $11 frá því að komast á PGA Championship risamótið … enn er smá sjéns að hann komist inn!

William McGirt var nálægt því að vinna fyrsta sigur sinn á PGA mótaröðinni, þ.e.  RBC Canandian Open. McGirt var jafn Scott Piercy á síðustu holunum en fékk skolla á 18. og komst ekki í bráðabana.

Það var erfitt að kyngja þeirri pillu, en þar sem McGirt hafði lokið keppni meðal 5 efstu í síðastliðnum nokkrum mótum gerði hann ráð fyrir að fá að taka þátt í fyrsta risamótinu sínu, PGA Championship, sem hefst á Kiawah Island á Suður-Karólínu, í næstu viku.

Hann er næstum búinn að þéna $ 1 milljón (126 milljónir íslenskra króna) á þessu ári og náði niðurskurði 8 sinnum í röð er hann lauk keppnistímabilinu á PGA 2011 og það taldi McGirt að myndi nægja til að hann kæmist í 1. risamót sitt.

En þegar McGirt vaknaði í fyrradag, þriðjudagsmorgun komst hann að því að hann var 1. varamaður inn í mótið. Talandi um vonbrigði!!! Hann var aðeins 11 dollurum frá því að ávinna sér þátttöku í fyrsta risamóti sínu. Aðeins 11 déskotans dollurum!!!

PGA fór allt niður í nr. 78 á stigalistanum þegar leikmannalistinn var settur saman.  Stigalistinn er byggður upp þannig að gefin eru stig fyrir hvern unnin sigur og stöðu allt frá Bridgestone á síðasta ári til Canadian Open á þessu ári.

En McGirt á enn smá von að komast inn í mótið. Tvö laus sæti eru fyrir sigurvegara Bridgestone Invitational í þessari viku og Reno-Tahoe Open, sem þýðir að ef einhver af sigurvegurunum er þegar inni í mótinu kæmist McGirt inn þrátt fyrir allt.

En sem stendur verður hann bara að sjá hvað setur. Eins og það að missa af fyrsta sigri sínum á PGA hafi ekki verið nógu slæmt nú verður hann að horfast í augu við það að hann er að missa af þátttökurétti í fyrsta risamótinu vegna 11 dollara.  Talandi um að kylfingar eigi erfiðan dag!!!