Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 24. 2013 | 11:15

Westy: „Ég er ekki eins og Monty!“

Lee Westwood (oft nefndur Westy) hefir vísað á bug samanburði milli sín og Colin Montgomerie (Monty)

Westwood, sem nú hefir 16 sinnum verið meðal efstu 10 í risamóti í samanburði við 10 skipti Monty, heldur því staðfastlega fram að hann sé betri kylfingur en Monty var.

„Ég veit af samanburðinum, en hann varð aldrei nr. 1 á heimslistanum, hann varð nr. 2 og ég varð nr. 1,“ sagði Westwood og vísaði ítrekað á burt samanburðinum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Westy vísar á bug þeirri tilgátu að örlög hans í risamótum verði þau sömu og Monty, þ.e. að hann muni aldrei sigra í neinu risamóti né er þetta í fyrsta sinn sem hann svarar fyrir sig

Þegar Monty sagði t.d. í apríl s.l. að Westwood væri að falla á tíma með að sigra í risamóti, svaraði Westwood fyrir sig: „Það er gríðarlegur munur milli mín 39 ára og Colin (Montgomerie) 39  ára – svona u.þ.b. 8 stone (þ.e. u.þ.b. 50 kíló!!!)

Westwood, sem nú er 40 ára trúir því að reynslan á Muirfield hafi verið góð, þó hann hafi klúðrað lokahringnum.

„Næsta risamót er aðeins eftir 2 vikur og það er alltaf svo spennandi að fá annað tækifæri. Og ef ég vinn það mót ekki, þá hef ég enn 8 mánuði til að undirbúa mig fyrir næsta Masters mót í Augusta.“

„Ég hef tilhneigingu til að vera ekkert að dvelja við neikvæðu atriðin – eða hvað öðrum finnst – ég geng ekkert fram af mér að greina allt sem gerðist á sunnudeginum, ég var líklega að nota 1-2 rangar kylfur allan daginn.“

„Fólk kann að segja: „Þú veist ekkert hvernig á að vinna risamót.“ Nei ég veit ekki hvernig maður fer að því, því ég hef ekki unnið slíkt mót enn. Hverjir eru þessir sérfræðingar? Það á að vera erfitt að vinna risamót!

„Ég stóð á fyrsta teig á sunnudeginum og var sá síðasti til að tía upp. Það er staðan sem allir atvinnumenn í golfi vilja vera í. Að leiða á Opna breska, að vera sá síðasti til að tía upp; það voru þúsundir áhorfenda – það var frábær stemmning.“

„Fyrstu 3 dagarnir voru góðir. Ég varð í 3. sæti á risamóti. Það verður bara að vera jákvæður yfir því.“

Hvað sem öðru líður í snerrum Westy og Monty þá ætlar Westwood þó að feta í fótspor Monty að einu leyti.

„Ég myndi elska það að fá að vera fyrirliði í Ryder Cup. Það myndi vera gríðarlegur heiður,“ sagði Westwood.

„Það hafa verið nokktrir frábærir fyrirliðar í Ryder Cup og það væri yndislegt að feta í fótspor þeirra. En ég ætla mér fyrst að spila í nokkrum mótum í viðbót áður en ég fer í þetta (þ.e. að bera sig eftir að verða fyrirliði)!“