Ragnheiður Jónsdóttir | október. 15. 2013 | 10:00

Wayne Rooney í golftíma hjá Rory

Heyrst hefir að ein fótboltastjarnan í Manchester United,  Wayne Rooney sé á laun (sem ekkert er svo mikið leyndarmál lengur – fyrst farið er að skrifa um það hér á Íslandi) að fara í golftíma til vinar síns Rory McIlroy.

Skv. Daily Star, hefir Rooney verið að taka tímana hjá Rory vegna þess að hann er orðinn þreyttur á að tapa í golfi fyrir félögum sínum í ManU.

Reyndar sagði heimildarmaður að í hvert sinn sem Rooney spilaði golf við liðsfélaga sína eða aðra enska knattspyrnumenn, þá tapaði hann alltaf og þess vegna hefði hann sett sig í samband við Rory til að sá gæti tekið hann í einkatíma, svo hann gæti bætt leik sinn.

Spurning hvort Rooney hafi valið sér réttan golfkennara, þar sem Rory gengur sjálfum ekkert svo vel um þessar mundir – hvorki á golfvellinum, né í einkalífi þar sem hann m.a. stendur í málaferlum við fyrrum umboðsskrifstofu sína og þarf auk þess að fást við sögusagnir um að samband hans og kærestu hans, Caroline Wozniacki sé liðið undir lok.