Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 20. 2016 | 20:45

Wayne Gretzky lofar Spieth

Hokkígoðsögnin og tengdapabbi DJ,  Wayne Gretzky spilaði á s.l. ári hring með tengdasyni sínum DJ (þ.e. Dustin Johnson) og nr. 1 á heimslistanum í golfi þ.e. Jordan Spieth.

Og The Great One eins og Gretzky er kallaður var ákaflega hrifinn af Spieth og heillaður af framkomu hans.

Í viðtali við golf.com (sjá viðtalið með því að SMELLA HÉR:) sagði Gretzky eftir að hafa spilað við DJ og Spieth að sá sem hann gæti borið Spieth við væri Roger Federer (í tennisnum).

Ég er ekki það góður í golfi að ég geti séð mun á kylfingum sem eru með 2 eða 3 í forgjöf. En ég veit hvað skilur að 10 bestu kylfinga heims … það er þroskinn,“ segir Gretzky m.a. í viðtalinu.

„… Spieth hefir verið í kastljósi fjölmiðla um skeið, en mér fannst þroski hans sérstakur.“ segir Gretzky. „Hann er hreinn og beinn. Það er ekkert gervi við hann. Hann er virkilega góðhjartaður ungur maður sem er gríðarlega hæfileikaríkur í golfi og elskar að spila golf.

Hann á skilið allt það hrós sem hann fær. Þegar maður er í atvinnumennskunni í íþróttum þá er yndislegt að geta dáðst að leikmanni sem er fyrsta flokks. Golfið er heppið því það á einn slíkan kylfing. Hann minnir mikið á Roger Federer í tennisnum. Ég get ekki sagt nógu mikið gott um hann.“