Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 13. 2012 | 13:45

Tom Watson er fyrirliði Ryder Cup liðs Bandaríkjamanna 2014

Ted Bishop forseti Professional Golfers’ Association of America tilkynnti nú fyrir skemmstu hver hefði orðið fyrir valinu sem  fyrirliði bandaríska Ryder Cup liðsins en það er Tom Watson.  Það var gert kl. 8:30 á Austurstrandartíma í NY (kl. 13:30 að íslenskum tíma) í morgunþættinum vinsæla „Today Show“, sem mikill meirihluti Bandaríkjamanna horfir á. Tveimur tímum síðar verður blaðamannafundur PGA of America í Empire State háhýsinu heimsfræga.

Tom Watson er 63 ára; fæddur 4. september 1949.  Watson verður 65 ára þegar Ryder Cup keppnin fer fram á Gleneagles 2014 og verður þar með elsti fyrirliði í sögu Bandaríkjanna. Sam Snead var 57 ára þegar hann var fyrirliði árið 1969. Watson hefir ekki spilað á PGA Tour í 14 ár, en hann getur þó enn kennt ungu krökkunum í golfinu eitt og annað. Munið að hann var aðeins 3 metra frá því fyrir 3 árum að sigra á Opna breska í Turnberry, þá 59 ára!

Tom Watson sýndi hlutverkinu mikinn áhuga, en margir voru á því að Larry Nelson eða David Toms hefðu átt skilið að prófa fyrirliðastöðuna, þar sem Watson hefir áður gegnt henni, þ.e. þegar lið Bandaríkjanna vann sigur á The Belfry, 1993.

Tom, fyrirliði síðasta bandaríska Ryder Cup liðsins sem vann útisigur þ.e. á The Belfry 1993

„Það væri mikill heiður ef það væri hnippt í öxlina á mér,“ sagði Watson í Ástralíu s.l. helgi.

„Ég myndi gjarnan vilja verða aftur fyrirliði. Það myndi vera svalt.“

„Þetta er einn mesti heiður í golfinu. Ég vona að ég fái tækifæri til að stýra liðinu.”

„Þetta er besta keppnin í golfi og vonandi fæ ég tækifæri til að leiða bandaríska liðið til sigurs á mótinu. Það yrði þá einn af hápunktunum á ferli mínum – ef ekki hápunkturinn.”