Ragnheiður Jónsdóttir | september. 24. 2013 | 17:30

Watson á móti vali fyrirliða í Ryder Cup

Þó Ryder Cup sé ekki haldinn fyrr en næsta haust þá má segja að andleg hlið keppninnar sé hafin.

Á blaðamannafundi gat t.a.m. fyrirliði Bandaríkjanna, Tom Watson ekki setið á sér að koma andstæðingi sínum Paul McGinley í smá bobba.

Watson lagði m.a. til að fyrirliðar ættu ekki að hafa rétt til þess að velja leikmenn í liðin.

„Í fyrstu þremur Ryder Cup keppnunum, sem ég tók þátt í, urðu allir að hafa áunnið sér sitt sæti í liðinu,“ sagði áttfaldur risamótsmeistari Watson. „Kannski ætti að hverfa aftur að því. Ég valdi bara 3 af 4 sem ég hefði getað valið í liðið. Ég var að hugsa um að hafa þá aðeins tvo.“

„Kannski ættum við að hafa það aftur svo að fyrirliðar geti ekki valið menn í liðið, hvað finnst þér?“ spurði Watson, McGinley fyrir framan tylft blaðamanna. Þetta var kvikyndisleg spurning því slíkt kerfi myndi koma Bandaríkjamönnum betur.

„Það myndi vera erfitt fyrir okkur,“ sagði McGinley, „vegna þess að svo margir í liði okkar spila í Bandaríkjunum. Ekkert meir að segja um það.

Orðaskiptin áttu sér stað með breiðum brosum á báðum aðilium, en þannig vilja fyrirliðarnir að keppnin fari fram.

„Við vitum að þetta er hlutdrægt, við erum á útivelli og evrópska liðið þykir sigurstranglegra, en það er eitt sem við Paul erum sammála um en það er hvernig mótið á að vera leikið.  Það verður hvöss keppni, en hvernig hún fer fram er mikilvæg.“

„Grundvallaratriðið er virðing. Þegar lið tapar virðir það liðið sem vinnur, liðið sem vinnur virðir liðið sem tapar.“