Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 3. 2012 | 21:30

W-7 módelið og LPGA kylfingurinn Kim Hall að spæja um karlkylfingana

Mér er sem ég heyri suma segja, jafnvel áður en ég skrifa þessa grein að hér sé á ferð algjör „kvenrembugolfgrein“, sem eigi ekkert erindi við kylfinga. En hvað sem því líður hér kemur það …

Á tyllidögum er oft hamrað á því hversu fáar stelpur og konur spili golf og gullin fyrirheit gefin að gert verði átak til þess að gera íþróttina meira heillandi fyrir kvenþjóðina.

En hvað er það sem fælir sumar konur frá því að spila golf?

Það skyldi þó ekki vera að það sé viðmótið, sem mætir þeim úti á golfvöllum um allan heim? Sumir karlkylfingar virðast nefnilega ekkert hlýna í viðmóti fyrr en þeir sjá að viðkomandi kona, sem á að leika með þeim tefur ekki fyrir þeim úti á velli.

Kannski það séu sumir golffréttamiðlar, sem ýta undir það viðhorf að konur séu 2. flokks kylfingar þegar þá sjaldan sem golffrétt birtist um kvenkylfing á þeim miðlum, þá eru það fréttir af „skemmtilegum“ mistökum þeirra úti á velli.

Eitt virtasta golftímarit heims Golf Digest gerði W-7 módelið og LPGA kylfinginn Kim Hall út af örkinni í 5 mismunandi golfdressum, þar sem hún átti að leika 5 algjörlega mismunandi kventýpur til að sjá hvaða viðtökur hún fengi hjá karlmönnum, sem henni var úthlutað af kaddýmasternum að spila við. Í öllum tilvikum var hún eina konan í hollinu. Eins var miðaldra fréttamaðurinn Pete Finch (með 11 í forgjöf) með í för, sem fylgdist með hvað körlunum í hollinu fannst um Kim í hvert sinn.

Týpurnar voru þessar: Kim var gerð eins óásjáleg og mögulegt var og lék kylfing sem varla „breakaði 120″.  Í annan stað var hún gerð að stelpustrák, sem spilaði eins og atvinnumaður;  síðan var hún eins og „stelpan við hliðina“ bara venjuleg í útliti, miðlungskylfingur sem spilaði kringum 90, síðan eins og atvinnumaðurinn, sem Kim er og loks var hún stríluð upp sem algjör skutla, sem spilaði samt ekkert sérstaklega vel. (Þess skal getið hér að Kim er 30 ára og búin að spila golf í 25 ár og er atvinnumaður í golfi með lægri forgjöf en allir sem hún spilaði við).

Sumir karlar vildu helst ekki vera með konu í hollinu, tóku á sig sveig til þess að þurfa ekki að spila við hana. Í öllum tilvikum, sama hvernig Kim leit út eða hvernig hún spilaði var aðaláhyggjuefni karlpeningsins að hún léki „hægt“ … og tefði fyrir hollinu. Það virðist vera innbyggt í karla að konur séu almennt hægir kylfingar.

Síðan var nokkuð misjafnt hvað þeir létu sér lynda „hægan“ leik eftir því hvernig Kim leit út – „surprise, surprise“ … skutlan komst upp með allt… það hefði verið sama þó hún hefði eytt 20 mínútum á klósettinu eftir fyrri 9 sagði Kim, þeir hefðu ekki sagt orð… annað þegar hún leit ekki vel út og spilaði aukinheldur ekki vel. Góður leikur gaf af sér nokkuð í átt að virðingu karlanna í hollinu.

Sumir vildu helst ekki hafa konur í hollinu, svo virtist sem þeim liði illa að blóta, ropa, prumpa, klæmast eða bara vera þeir sjálfir þegar kona var nálægt. Í golfinu vildu þeir bara vera með strákunum og eiga „strákadag.“

Til þess að sjá frábæra grein Pete Finch um tilraun Golf Digest þar sem Kim Hall spæjar um karlkylfingana í Chicago smellið HÉR: