Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 14. 2012 | 12:15

Vörður styrkir útgáfu og dreifingu nýrrar reglubókar GSÍ

Vörður styrkir útgáfu og dreifingu nýrrar reglubókar GSÍ Vörður tryggingar og Golfsamband Íslands hafa gert með sér samstarfssamning til næstu fjögurra ára. Samstarfið byggist meðal annars á því að Vörður styrkir Golfsambandið við útgáfu á nýrri alþjóðlegri reglubók sem tók gildi um allan heim frá 1. janúar 2012. Vörður sendir bókina heim til allra félagsmanna GSÍ í maí. „Golfsamband Íslands fagnar þeim stuðningi sem Vörður sýnir kylfingum á Íslandi með þessum samningi. Golfreglurnar eru órjúfanlegur partur af íþróttinni og mikilvægt að þær séu aðgengilegar öllum kylfingum. Allir þeir sem hafa áhuga á golfi ættu að kynna sér vel hvað kann að hafa breyst í reglunum frá þeim sem giltu á árunum 2008-2011. Þó að golfreglurnar séu ekki lesnar spjaldanna á milli eru reglubókin ómissandi á golfvellinum ef upp koma vandamál varðandi reglurnar sem þarf að leysa,“ segir Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri GSÍ. Að sögn Harðar er ein þeirra reglna sem breytingar hafa verið gerðar á frá fyrri útgáfu reglubókarinnar regla 18-2b, sem gæti komið sér vel hér á landi þar sem oft blæs hressilega. Þar er nýrri undantekningu bætt við regluna sem forðar leikmanni frá víti ef bolti hans hreyfist eftir að hann hefur miðað, þegar það er vitað eða nánast öruggt að hann olli ekki hreyfingu boltans, eins og t.d. getur gerst á flöt. Ef vindhviða hreyfir boltann eftir að leikmaðurinn hefur miðað er það vítalaust og boltanum er leikið þar sem hann stöðvast. „Við hjá Verði tryggingum erum ánægð með samstarfið við Golfsamband Íslands, sem hefur um 17.000 manns innan sinna vébanda. Golfið er í sókn og við viljum taka þátt í þeirri sveiflu,“ segir Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar trygginga.

Heimild: golf.is