Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 30. 2014 | 05:30

Enn 13 dagar til að bjóða í kylfur Ben Hogan frá 1953 – hæsta boð nú kr. 2.360.000,-

Golf 1 var nú fyrr í mánuðnum með frétt um uppboð Green Jacket Auctions á járnakylfum eins besta kylfings sögunnar, Ben Hogan frá 1953.  Sjá með því að SMELLA HÉR: 

Árið 1953 var ár mikillar velgengni Hogan, en hann vann m.a. 3 risamót á því ári (The Masters, Opna breska og Opna bandaríska); einungis leiðindatímasetning á PGA Championship, sem fór fram á sama tíma og Opna breska, á því ári, kom í veg fyrir að Hogan næði Grand Slam þ.e. tækist að sigra í öllum 4 risamótunum á sama ári.

„Green Jacket Auctions“ er með  kylfur Hogan á uppboði, og stendur uppboðið til kl. 8 ET í Bandaríkjunum (að staðartíma) 12. apríl 2014 og því enn rúmir 13 dagar til stefnu ætli menn sér að bjóða.

Járnasett Hogan (af gerðinni McGregor) er eitt af 3 sem Hogan notaði þeirrar tegundar og það eina í eigu einstaklings, hin tvö eru á söfnum bandaríska golfsambandisns. Eftir að Hogan stofnaði Ben Hogan Golf Company árið 1953 notaði hann einvörðungu kylfur, sem hann framleiddi sjálfur.

Fyrsta boð í Ben Hogan kylfurnar var $ 5.000,- eða um 565.000,- íslenskar krónur. Alls hafa 13 boð borist, flest í gær, 29. mars 2014.  Í augnablikinu (kl. 5:30 sunnudagsmorguninn 30/3) er hæsta boð í Ben Hogan kylfurnar $20.886 eða  2.360.000,- íslenskar krónur en fylgjast má með uppboðstilboðum með því að SMELLA HÉR: 

Ekki er búist við að fjör færist í tilboðsgjafir fyrr en á lokadegi uppboðsins, en fjársterkir aðilar nenna yfirleitt ekki að standa í að bjóða fyrr en á lokadögum uppboða og þá gerast hlutir oft býsna hratt.   Talið er að allt að 6 milljónir íslenskra króna eigi að geta fengist fyrir járnasettið, en spár um hátt verð byggjast m.a. á því hversu sjaldgæfir golfminjagripir frá Ben Hogan eru.

Telji seljandi kylfanna, Jimmy Powell (sem er fyrrum PGA kylfingur)  sig ekki fá nógu hátt verð fyrir þær getur hann tekið þær af uppboðsskrá.