Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 3. 2012 | 18:00

Saga Golfklúbbs Hellu í 60 ár – GHR í 60 ár (5. hluti af 12) – tekið saman af Ólafi Stolzenwald

Hér verður fram haldið með ágrip af sögu Golfklúbbs Hellu í samantekt Ólafs Stolzenwald, en klúbburinn fagnar 60 ára afmæli á árinu:

Samstarf GHR og GSÍ

  Golfklúbbur Hellu gekk formlega í GSÍ árið 1977.  Samstarf GSÍ hefur ætið verið gott við Golfklúbbinn og stjórnarmenn hans og má geta þess að bræðurnir Gunnar og Þórir Bragasynir meðlimir GHR hafa verði þar fremstir meðal jafningja og unnið ýmis trúnaðarstörf fyrir GSÍ.  Gunnar var forseti GSÍ frá 1999-2001 og Þórir hefur unnið við dómarastörf til margra ára og er með landsdómararéttindi. Hann var m.a. dómari í Landsmótinu 1995 og  Íslandsmótinu í höggleik 2002 á Strandarvelli.  Einnig var Gunnar kosinn í mótanefnd EGA (European Golf Association).  Gunnar er fyrsti Íslendingurinn sem tekur sæti í mótanefndinni og sat í nefndinni í fjögur ár. Hann hlaut einróma stuðning allra fulltrúa á EGA-þinginu, en Norðurlandaþjóðirnar tilnefndu Gunnar sem sinn fulltrúa í nefndina. Guðmundur Magnússon, fyrrverandi formaður GHR, hefur einnig setið í vallarmatsnefnd GSÍ til fjölda ára.

Uppbygging heldur áfram

Það er síðan árið 1999 sem klúbburinn fær tækifæri að kaupa húsið að Strönd sem var gert og samið við erfingja ábúands.   Þar var komið frekara tækifæri til að bæta aðstöðuna til muna með betri húskosti, æfingasvæði af bestu gerð. Tjald – og bílastæðavandamál voru úr sögunni.   Reist var viðbygging við skálann og  húsið tekið í gegn.  Enn og aftur þrotlaus sjálfboðavinna sem hefur verið lykillinn í okkar starfi og voru Óskar Pálsson og Katrín Aðalbjörnsdóttir þau sem þar drifu endurbyggingu skálans áfram.  Einnig komu Arngrímur Benjamínson og Brynjólfur Jónsson mikið að þeim breytingum og smíðavinnu.

Stór, góð æfingapúttflöt var byggð fyrir neðan skálann og nýr, stór fyrsti teigur.  Æfingasvæði var stækkað til muna og síðar hefur verið ráðist í að helluleggja bílaplan við skálann og lagning á bundu slitlagi við heimreið að klúbbhúsi ásamt byggingu Golfbílaskýlis fór fram árið 2011.   Æfingavöllur fyrir unglinga og byrjendur er í vinnslu vestan við vallarstæðið og ætti fara í notkun í sumar.

 Á afmælisári klúbbsins árið 2002 var vellinum snúið þannig  ellefta hola gamla vallarins varð að fyrstu holu frá skála og gamla sjöunda holan að þeirri átjándu.  Sama ár var núverandi golfskáli tekinn formlega í notkun og vígður af séra Sigurði Jónssyni presti í Odda.

Rekstrarfélag stofnað sem Strandarvöllur ehf og bygging þriggja sumarbústaða

Til að auðvelda þessa fjármögnun á kaupum á húsinu fyrir golfskála, búningaaðstöðu og veitingasal var rætt við sveitarstjórnarmenn í sýslunni um að sveitarfélögin myndu styðja við verkefnið.  Niðurstaðan var að stofna hlutafélag um rekstur Strandarvallar og varð það að veruleika í janúar 2001.  GHR kom með golfvöllinn, golfskálann og tæki inn í félagið og nánast öll sveitarfélögin í sýslunni komu með peningaframlag í formi hlutafjár.  Þessi stuðningur gerði það mögulegt að ráðast í kaup á gamla skólahúsinu og framkvæma nauðsynlegar breytingar og viðbætur.  Vissulega þurfti einnig að taka lán til framkvæmdanna, þannig að rekstur félagsins var erfiður fyrstu árin.  Það tókst  nokkuð hratt að greiða lánin niður og um 2007 var rekstrarfélagið nánast skuldlaust.

Rekstrarfélagið Strandarvöllur ehf. hefur frá stofnun séð um rekstur Strandarvallar og haft umsjón með starfsmönnum, bæði á vellinum og í golfskálanum.  Golfklúbburinn (GHR) hefur umsjón með félagsstarfinu og er tengiliður við íþróttahreyfinguna í landinu.  Mikilvægur hluti af starfsemi GHR er umsjón með unglingastarfi og afreksstarfi.

Í tengslum við færslu golfskálans í gamla skólahúsið var samið við Rangárvallahrepp um að fá byggingarleyfi fyrir nokkur sumarhús fyrir vestan 1. braut.  Þar er nú heimilt að reisa tíu sumarhús, þar af hafa þrjú þegar verið reist.  Þær lóðir sem eftir eru er ætlunin að selja til orlofssjóða launþegasamtaka eða stærri fyrirtækja til að reisa þar sumarhús.  Útleiga á þeim sumarhúsum sem þegar hafa verið byggð hefur gengið mjög vel allt árið.  Það er ekki á mörgum golfvöllum sem þessi möguleiki býðst, þ.e. að hafa gistiaðstöðu í sumarhúsi rétt við völlinn.  Golfið á Íslandi hefur vaxið mikið sem almenningssport og  Strandarvöllur hefur fundið vel þá jákvæðu þróun.

Um svipað leiti var gerður fyrsti vinavallasamningurinn og hann var við Golfklúbb Reykjavíkur um afnot klúbbmeðlima þeirra af vellinum,  í stað greiðslu og sértækrar aðstoðar við umhirðu Strandarvallar.  Þetta hefur gefist vel og hafa fleiri vinavallavellir bæst við, segja að GHR hafi verið brautryðjandi golfklúbba í þessum málum.

Unglingastarf í gegnum áratugina og Andri Már Óskarsson afrekskylfingur GHR

Það má segja að fyrsti vísir af unglingastarfi hafi byrjað eftir 1980, enda fór allt púður í uppbyggingu vallanna og að fá félaga í klúbbinn.  Unglingastarf klúbbsins hefur gengið misjafnlega og má segja að það komi í bylgjum.   Það var oft líflegt og gaman að sjá krakka á vellinum. Æfingarsvæði og félagar GHR tóku að sér að leiðbeina í fyrstu, einnig héldu nokkrir drengir úti þriggja holu velli nokkur sumur í kringum 1975 á Hellu og margir þeirra spila eða fikta við golf enn þann dag í dag.  Undanfarinn áratug hefur unglingastarfið gengið hægar og kannski er staðsetning vallarins  þar einhver áhrifavaldur og það að fleira er um að vera hjá börnum,  ólíkt hjá þeim klúbbum sem eru með golfvöllinn staðsettan nær bæjum.   Í uppbyggingu er æfingarvöllur fyrir unglingastarfið og byrjendur vestan við æfingasvæðið.

Klúbburinn er með ungan afreksmann í golfíþróttinni,  Andra Má Óskarsson, sem var mjög sigursæll í gegnum öll unglingamót GSÍ og er núverandi klúbbmeistari  2011. Hann er í fremstu röð kylfinga á Íslandi, hann átti gott ár á stigmótum og var annar á Íslandsmóti í holukeppni árið 2011.  Andri Már hefur verið í sveit landsbyggðarinnar undanfarin ár og spilaði sig inn í afrekshóp GSÍ. Hann keppti einnig á The Duke of York meistaramótinu árið 2007  og Faldo Series.  Einnig tekið þátt í nokkrum keppnum á erlendri grundu.

 Andri Már hefur orðið klúbbmeistari GHR þrisvar sinnum og tekið við keflinu frá föður sínum Óskari Pálssyni sem oftast hefur orðið klúbbmeistari eða tuttugu og einu sinni.  Hjá konunum hefur Sigríður Hannesdóttir oftast orðið klúbbmeistari eða átta sinnum.