Ingvar Hreinsson formaður GKS, á fyrsta móti Siglfirðinga á höfuðborgarsvæðinu, á Hlíðarvelli, í Mosfellsbæ, í september 2011. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | október. 30. 2012 | 12:00

GKS: Farið yfir golfsumarið hjá Golfklúbbi Siglufjarðar e. Ingvar Hreinsson formann GKS

Í eftirfarandi grein fer Ingvar Kr. Hreinsson, formaður Golfklúbbs Siglufjarðar, yfir það helsta í starfsemi klúbbsins á s.l. golfsumri:

Tunnumótið var leikið þann 1. júlí í sól og brakandi blíðu. 16 kylfingar tóku þátt í mótinu, fyrir komulag var punktakeppni í einum opnum flokki. Úrslit voru þessi:

1. sæti Jóhann Már Sigurbjörnsson með 38 punkta.

2. sæti Ólafur Þór Ólafsson með 36 punkta.

3. sæti Ingvar Kr. Hreinsson með 35 punkta.

Einnig voru veitt nándarverðlaun á par-3 holum en þau hlutu: Jóhanna Þorleifsdóttir, Ólafur H. Kárason og Jóhann Már Sigurbjörnsson. Nándarverðlaun eru veitt þeim sem næstur er holu eftir upphafshögg á par-3 holum.

Tunnan prentþjónusta er stuðningsaðili mótsins og kann Golfklúbburinn þeim bestu þakkir fyrir. Golfsumarið 2012 hefur leikið við golfara hér á Siglufirði. Einmuna veðurblíða hefur einkennt sumarið þannig að golfvöllurinn hefur skartað sínu fegursta.  GKS hélt samtals 24 mót bæði opin- og innanfélagsmót. Fjölmennasta mót sumarsins var Opna bakarísmótið, sem haldið var um Verslunarmannahelgina, en þar mættu um 60 kylfingar til leiks. Sjá má myndaseríu Golf1 frá þessu skemmtilega móti með því að SMELLA HÉR: 

Meistaramót GKS var spilað dagana 14. og 15. júlí og voru úrslit eftirfarandi:

1. flokkur karla:

1. sæti Jóhann Már Sigurbjörnsson á 227 höggum.

2. sæti Ingvar Kr. Hreinsson á 251 höggi (eftir æsispennandi bráðabana)

3. sæti Þorsteinn Jóhannsson á 251 höggi.

2. flokkur karla:

1. sæti Grétar Bragi Hallgrímsson á 269 höggum.

2. sæti Kári Arnar Kárason á 286 höggum.

3. sæti Arnar Freyr Þrastarson á 304 höggum.

1. flokkur kvenna:

1. sæti Hulda Magnúsdóttir á 282 höggum.

2. sæti Ólína Þórey Guðjónsdóttir á 285 höggum.

Rauðkumótaröðin var spiluð á miðvikudagskvöldum; um er að ræða 10 mót þar sem 5 bestu mótin telja til stiga, stigakerfið er með svipuðu sniði og í „júróvision“ þ.e. fyrir sigur í móti fást 12 stig, fyrir annað sætið fást 10, síðan 8 og svo koll af kolli. Sigurvegari Rauðkumótaraðarinnar með 50 stig varð Jóhann Már Sigurbjörnsson, í öðru sæti varð Markús Rómeó Björnsson með 47 stig og þriðji Grétar Bragi Hallgrímsson með 41 stig.

Mikil gróska hefur verið í starfi klúbbsins í vor og sumar. Í vor fékk GKS afnot af öllum gamla golfskálanum, þar sem áður var m.a. fyrir knattspyrnudómara. Húsnæðið var allt tekið í gegn og er nú hið vistlegasta og gjörbreytir aðstöðu bæði klúbbfélaga og gesta. Í hinn endurbættu aðstöðu er boðið upp á létta veitingasölu, kaffi og meðlæti.

Sérstök konukvöld voru á fimmtudögum í sumar. Voru þau hugsuð fyrir byrjendur til að taka sín fyrstu skref undir handleiðslu annarra kvenna. Mikil aðsókn varð í þessi kvöld og þau þróuðust út í það að golfkonur í Ólafsfirði, Dalvík og Siglufirði komu saman til skiptis á golfvöllunum þremur og var víst oft glatt á hjalla.

Í sumar hélt klúbburinn námskeið fyrir börn og unglinga, auk þess sem fólk gat fengið leiðbeiningar, bæði byrjendur og lengra komnir. Umsjónarmaður og leiðbeinandi var Jóhann Már Sigurbjörnsson og fórst honum það vel úr hendi.

Eftir þrotlausa baráttu GKS, sem hófst árið 2009, var fyrsta skóflustungan tekin þann 14. júní s.l. að útvistarsvæði og nýjum golfvelli í Hólsdal. Það er Leyningsás sjálfseignarstofnun, sem fjármagnar og sér um þær framkvæmdir. Fjallabyggð leggur til 16 milljónir til uppgræðslu og frágangs á svæðinu.  Nýi völlurinn er staðsettur vestamegin í Hólsdal og fléttast meðfram skógræktinni og yfir gömlu malarnámuna í dalnum. Uppgræðsla á þessari námu hefur verið á dagskrá bæjarstjórnar síðustu 30 ár og verður henni nú loksins lokið fyrir fullt og allt. Hólsdalurinn fær langþráða andlitslyftingu þar sem golfvöllurinn, reið- og göngustígar mynda útivistarparadís, sem vart á sér líka á Íslandi.

Golfklúbbur Siglufjarðar bindur miklar vonir við hinn nýja völl sem hannaður er af frábærum ungum golfvallahönnuði: Edwin Roald Rögnvaldssyni. Edwin leggur mikið upp úr viðringu fyrir náttúrunni og miðast öll hans hönnun við það.  Framkvæmdir við völlinn ganga skv. áætlun og er stefnt að sáningu næsta vor og völlurinn verði tilbúinn seinnihluta sumars 2014 eða fyrrihluta 2015.