Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 1. 2012 | 07:00

Vilja íslenskir karlmenn spila golf með konum?

Hér á Golf1.is birtist fyrir mánuði síðan tilraun W-7 módelsins Kim Hall og Golf Digest hvernig karlmenn í Chicago tækju í það að spila með 5 ólíkum kvengerðum, sem þó var öll ein og sama konan, Kim Hall. Niðurstaðan birtist í mars hefti Golf Digest. Í öllum tilvikum var Kim betri kylfingur en þeir sem hún spilaði við, enda spilar Kim á sterkustu kvenmótaröð heims LPGA og er búin að æfa golf frá 5 ára aldri, eða í 25 ár.

Í hlutverkunum sem Kim lék var hún í fyrsta lagi gerð eins óásjáleg og mögulegt var og lék kylfing sem varla „breakaði 120″.  Í annan stað var hún gerð að stelpustrák, sem spilaði eins og atvinnumaður;  síðan var hún eins og „stelpan við hliðina” bara venjuleg í útliti, miðlungskylfingur sem spilaði kringum 90, síðan eins og atvinnumaðurinn, sem Kim er og loks var hún stríluð upp sem algjör skutla, sem spilaði samt ekkert sérstaklega vel, var reyndar alltaf í vandræðum (það sem enskir kalla „damsel in distress.“)  Sjá má grein Golf1 með því að smella HÉR:

Með henni í holli var höfundur greinar Golf Digest, hinn miðaldra, (að eiginn sögn) miðlungs kylfingur (með 11 í forgjöf), Pete Finch. Hann kannaði viðbrögð karlanna sem kaddýmaster golfvalla í Chicago úthlutaði þeim til að spila við þau Kim í hvert sinn. (Sjá má hvernig Kim var tekið í skemmtilegri grein Pete Finch í marshefti Golf Digest HÉR: (horfið endilega á myndskeiðið sem búið er að bæta á síðuna, en þar segja Kim og Pete frá helstu lexíunum sem þau lærðu af tilrauninni).

Ein helsta niðurstaðan virðist vera sú að innbyggt sé í karla að konur spili hægar en þeir… og vilji þ.a.l. ekki  eða forðist að spila við konur. Eins byggðist viðmót karlanna gagnvart Kim á útliti hennar – væri hún lekker og sæt komst hún upp með allt en óásjáleg og spilaði illa, síður (engin ný vísindi hér!)

En nú er spurningin: Er þetta viðmót karlanna bara bundið við Chicago? Eru íslenskir karlmenn skömminni skárri þegar kemur að golfleik þeirra við konur? Vilja þeir yfirleitt spila við konur? Langflestir íslenskir karlmenn spila við konur, þó ekki sé nema fyrir þær sakir að þeir eiga mæður, systur eða dætur í golfinu….En síðan eru alltaf skemmdu eplin sem skemma fyrir…

Hér mætti nefna eina alíslenska sögu af golfvellinum:

„Íslensk, ónefnd kona, sem búin var að eiga ansi erfitt í lífinu leiddist í golfið til þess að slappa af frá öngþveiti lífs síns. Á golfvellinum kynntist hún 2 mönnum, sem eins og hún virtust njóta þess að spila golf öllum stundum. Hún naut þess að eiga loks golffélaga, sem þótti, að því er virtist, jafnvænt um íþróttina og henni sjálfri. Annar þeirra lofaði m.a. að hann myndi ávallt verða spilafélagi hennar. Hún leit upp til félaga sinna og þeir voru uppáhaldskylfingar hennar. Annar hafði byrjað um svipað leyti og hún í golfinu og var búinn að ná þeim glæsilega árangri að ná litlu niður fyrir 12 í forgjöf en hún var enn í 24. Hinn var með 14 í forgjöf.

„Við viljum ekki spila golf með þér“ sagði sá sem lofaði að vera ávallt spilafélagi hennar. „Sjáðu ég er miklu betri kylfingur en þú, ég er helmingi betri, með 12 í forgjöf – af hverju hengirðu þig alltaf á mig? Þetta er svona svipað því og ég myndi hengja mig á Örn Ævar!“   „Svo erum við tveir miklu fljótari að spila en þú“ „Við getum tveir keyrt til Hellu og spilað þar og verið fljótari… heldur en að spila hring með þér í Hveragerði.“  „Við strákarnir viljum spila saman – við viljum ekkert spila með konum.“

Skilaboðin hér: Þú ert léleg, hæg og ekki félagi okkar. Er furða að konur beinlínis flykkist ekki í golf þótt þær vonandi hafi ekki fengið skilaboðin með jafn skýrum hætti og kynsystir þeirra hér að ofan?  Sama Cigarillotóbakið hér og í Chicago…

Eða eins og Pete Finch sagði í greininni sinni góðu: „ More than once, Kim and I encountered men who deliberately sped away from a woman to avoid playing golf with her. This is their right, I suppose. But it’s also rude. And shameful. Can we really wonder why golf is struggling to attract women when they get this kind of treatment?“

(Þarf að þýða þetta?… kannski hér í mjög lauslegri: „Oftar en einu sinni rákumst við Kim á karlmenn, sem viljandi hröðuðu sér í burt frá konu til þess að forðast að spila golf með henni. Það er réttur þeirra, geri ég ráð fyrir. En það er líka dónalegt. Og skammarlegt. Þurfum við að brjóta heilann um af hverju það er svona mikið stríð að laða konur að golfinu þegar þær hljóta þessa meðferð?