Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 29. 2011 | 15:00

Viðtalið: Unnur Halldórsdóttir, GB.

Það er Unnur Halldórsdóttir, sem er viðmælandi Golf 1 að þessu sinni. Unnur er í kvennanefnd GB og um hana sögðu fleiri en ein kona á kvennamótinu Gullhamrinum, sem haldið var að Hamarsvelli í Borgarnesi, 25. júní s.l. sumar að Unnur væri „alger gersemi“, „gæðakona“ og að „ein Unnur þyrfti að vera til í öllum golfklúbbum landsins.“ Það er augljóst að Unnur er í miklum metum. Unnur rekur ásamt eiginmanni sínum Hótel Hamar í Borgarnesi.

Hér fyrr í dag voru á Golf 1 taldar upp nokkrar jólagjafahugmyndir. Hér er ein enn: Helgardekur á Hótel Hamri!  Hægt er að gefa gjafabréf á Hótel Hamar og hlakka svo til það sem eftir er veturs að gista í góðu yfirlæti á Hótel Hamri hjá Unni og Hirti og spila frábæran Hamarsvöllinn í vor eða sumar 2012. En hér fara loks spurningar Golf 1 og svör Unnar:

Fullt nafn: Unnur Halldórsdóttir.

Klúbbur: GB.

Hvar fæddistu og hvar ertu alin upp? Ég fæddist í Reykjavík og er alin upp á Seltjarnarnesinu.

Fjölskylduaðstæður?  Er einhver í fjölskyldunni sem spilar golf? Ég er gift Hirti Árnasyni og við eigum 4 börn og 4 barnabörn. Tvö börn eru í golfi, aðallega einn sonur okkar.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Við hjónin byrjuðum ekki sjálf fyrr en börnin voru farin að heiman. Það var eitthvað í kringum 1995 að ég eignast fyrsta settið mitt… er því búin að vera 16 ár í golfi. Ég spila sjálf mjög lítið, aðallega í útlöndum og á mótum.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Við hjónin fengum boð um að mæta í skemmtimót í litlu fyrirtæki og svo tók eitt við af öðru en við fórum í golfið líka vegna eins sonar okkar, sem mikið er í golfi.

Hvað starfar þú? Ég rek Icelandair Hótel Hamar – eina hótelið, sem er inni á miðjum golfvelli á Íslandi.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?   Strandvellir eru mjög skemmtilegir.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur? Holukeppni.

Hver er/(hverjir eru) uppáhaldsgolfvöllur/(vellir) á Íslandi (fyrir utan Hamarsvöll)? Vellirnir í Hveragerði og á Grundarfirði.

Hver er/(hverjir eru) uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Uppáhaldsgolfvöllurinn er El Dorado í Flórída – Hann er mjög skemmtilegur, hann er sko fjölbreyttur, kemur óvart og er krefjandi.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju? Það er völlur sem ég spilaði s.l. vetur  og heitir Intramuros og er í Manilla á Filippseyjum. Völlurinn liggur í kringum gömlu kastalaveggina /borgarmúrana í Manilla. Tvisvar sinnum fer maður yfir umferðargötu og við hana eru lögreglumenn í fullu starfi við að stoppa umferðina til þess að kylfingar geti komist leiðar sinnar.

Hvað ertu með í forgjöf?  34

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?  Á Hlíðarvelli í Mosó 2009 – held ég hafi verið með 36 punkta.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Afrek dagsins var að skrifa 16 högg á par 3 og setja síðan niður 15 metra pútt – það var ótrúlegt.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?  Vatn, tyggjó og banana.

Hefur þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Ég hef aðeins gert af því að skokka.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldsbók og uppáhaldskvikmynd?  Uppáhaldsmaturinn minn eru  kótelettur í raspi, uppáhaldsdrykkur er hvítvín, uppáhaldstónlist: íslensk dægurlög, uppáhaldsbók: Tengdadóttirin eftir Guðrúnu frá Lundi. Loks er uppáhaldskvikmynding mín „Pay it forward“ með Kevin Spacey, en hún er um kennara, sem biður nemendur sína um hugmyndir til að bæta heiminn og það er 11 ára strákur sem kemur með þá hugmynd að gera öðrum góðverk og ef 3 aðrir geri það sama, þá breiðist góðvildin út um allt. Ég hugsa oft þannig að ef ég er almennileg við krakka þá eru einhverjir kannski einhverjir almennilegir við krakkana mína. Eða fyrir puttalinginn á Borgarfjarðarbrúnni, þá skiptir máli að taka hann með.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?  Kvk.: Ragnhildur Sigurðardóttir. Kk.: Birgir Leifur Hafþórsson (ég orti m.a. um hann þegar hann kvænti sig).

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Ég er með  Nancy Lopez sett og uppáhaldskylfan er  7-tréð.

Ertu hjátrúarfull? Nei, ég get ekki sagt það.

Hvert er meginmarkmið í lífinu?  Að verða gömul með manninum mínum og láta gott af mér leiða.

Hvað finnst þér best við golfið? Útiveran, að vera úti í 4 tíma og svo félagsskapurinn.

Spurning frá síðasta kylfing (Finnboga Hauk Axelssyni, GOB) sem var í viðtali hjá Golf 1:

Hvaða högg áttu erfiðast með að slá?  Svar Unnar: Stuttu höggin inn á.

Getur þú komið með spurningu fyrir næsta kylfing sem Golf 1 tekur viðtal við? 

Spurning Unnar:

Hvaða kylfu finnst þér best að nota á 70 metra par-3 braut?