Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 9. 2011 | 17:00

Viðtalið: Unnar Geir Einarsson, GS.

Unnar Geir Einarsson starfaði tímabundið í golfskála GS í sumar og tók Golf 1 eftirfarandi viðtal við hann, sem fer hér á eftir:

Fullt nafn: Unnar Geir Einarsson.

Klúbbur: GS.

Hvar og hvenær fæddistu? Ég fæddist í Keflavík, 27. desember 1994.

Hvar ertu alinn upp? Í Keflavík.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?  Ég bý heima hjá pabba og mömmu og á 2 tvo bræður. Pabbi og litli bróðir minn eru í golfi og mamma er að reyna.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Það eru svona 5-6 ár síðan. Ég byrjaði á því að halda á kylfum og labba með pabba, en hef verið á fullu að æfa síðustu 4 árin.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Pabbi spilaði golf og hann kynnti mig fyrir íþróttinni.

Hvað starfar þú? Ég er í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, en fer stundum út á sjó og vinn á netaverkstæði. Svo vinn ég á æfingasvæði GS við að tína bolta og er bara hérna á skrifstofunni í stuttan tíma í sumarafleysingum.

Hvort líka þér betur við skógar- eða strandvelli?   Strandvelli af því ég er vanastur þeim.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur? Holukeppni er miklu skemmtilegri.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?  Leiran.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Ventura Country Club, Orlandó, Flórída.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju? Svarfhólsvöllur á Selfossi – af því að þar er par-3 hola, sem er ansi stutt 60 m eða eitthvað.

Hvað ertu með í forgjöf?  9,9

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?  76 í Leirunni.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu? Einu sinni chippaði ég úr brautarbönker fyrir erni.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?  Ég er oftast með eina samloku og blátt eða gult poweraide og svo vatn

Hefur þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Já, körfubolta með Keflavík.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn; uppáhaldsdrykkur; uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhaldsmaturinn minn er hamborgari eða pizzahumar er líka mjög góður; uppáhaldsdrykkur: kók; uppáhaldstónlist: Ég er alæta, rokk, bara allt; uppáhaldskvikmynd: Geri ekki upp á milli Dark Knight og Shawshank Redemtion og uppáhaldsbókin er sú sem ég les hverju sinni í augnablikinu er það Harry Potter II.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kven- og 1 karlkylfing? Kk:   Guðni Friðrik Oddsson. Kvk.:  Erla Þorsteinsdóttir.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Í pokanum mínum er PING G15 dræver,  Taylormade R11 3-tré, PING G10 5-tré, járnasett frá 3-PW TaylorMade Rac, Titleist Vokey wedgar 2, Scotty Cameron pútter og uppáhaldskylfan mín er  7-járnið.

Ertu hjátrúarfullur?  Nei, en ég er nokkuð lengi búinn að vera með (heilla)armband.

Hvert er meginmarkmiðið í lífinu? Að verða góður golfari og verða hamingjusamur í framtíðinni.

Hvað finnst þér best við golfið?  Það er bara svo skemmtilegt að spila golf með vinum sínum.

Að síðustu:

Spurning frá síðasta kylfingi (Guðmundi Einarssyni, framkvæmdastjóra GSG),  sem var í viðtali hjá Golf 1:

Hefur þú spilað á Kirkjubólsvelli og ef þú hefur spilað hann hvernig líkar þér hann? Svar Unnars Geir:  Já,ég hef spilað Kirkjubólsvöll en það er orðið mjög langt síðan. Mér er sagt að mörgum líki betur við völlinn eins og hann var fyrir breytingarnar.

Getur þú komið með spurningu fyrir næsta kylfing sem Golf 1 tekur viðtal við?   

Spurning Unnar Geirs:  Hvað er hæsta skor sem þú hefir fengið á 1 holu?