Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 19. 2012 | 21:30

Viðtalið: Sunna Víðisdóttir, GR, efnilegasti kylfingur Íslands 2011.

Viðtalið í kvöld er við Sunnu Víðisdóttur, GR, en hún ásamt  Bjarka Péturssyni, GB, eru efnilegustu kylfingar Íslands 2011. Sunna var ein 4 kylfinga (áamt Bjarka, GB, Ragnari Má, GKG og Guðrúnu Brá, GK) til að taka þátt í European Young Masters, sem haldið var  í Royal Balaton Golf Club, Balatonudvari, Ungverjalandi dagana 22.-24. júlí 2010. Sunna varð m.a. Íslandsmeistari með kvennasveit GR í sveitakeppni GSÍ og tók í kjölfarið þátt í Evrópumóti klúbba (European Ladies Club Trophy) í Grikklandi s.l. haust. Eins sigraði Sunna á síðasta móti Eimskipsmótaraðarinnar á Urriðavelli 2011, Chevrolet mótinu á samtals 217 höggum (74 70 73). Nú í haust hlaut Sunna háttvísibikar GR og nú nýverið var Sunna valin í afreksmannahóp GSÍ 2012 af landsliðsþjálfaranum, Úlfari Jónssyni.

Sunna er í afrekshóp GSÍ 2012.

Fullt nafn:  Sunna Víðsidóttir.

Klúbbur: GR.

Hvar og hvenær fæddistu?  Ég fæddist í Reykjavík, 4. október 1994.

Hvar ertu alin upp?  Ég hef búið allla ævi í Grafarvoginum.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður? Er einhver í fjölskyldunni, sem spilar golf?  Ég bý hjá mömmu og pabba og á 8 ára bróður. Það eru allir í golfi.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Ég fór á sumarnámskeiði 2006, þ.e. á leikjanámskeiði 11 ára gömul og fékk síðan kort  á litla völlinn hjá GR. Árið eftir var ég farin að æfa.

Sunna Víðisdóttir hlaut háttvísibikar GR, haustið 2011. Mynd: grgolf.is

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Pabbi  er búinn að spila síðan hann var unglingur og mamma er búin að vera að í nokkur ár. Þau ætluðu til Spánar um haustið og sögðu að ég mætti koma með ef ég  byrjaði að æfa.

Hvað starfar þú? Ég er námsmaður í Versló, en eftir útskrift ætla ég í viðskipta- og markaðsfræði í Elon háskóla í Norður-Karólínu.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?   Skógarvelli vegna þess að maður er vanari því að hafa tré en að hafa víðáttu.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur? Höggleikur er skemmtilegri, því þá fer það eftir því hvað þú gerir, en í holukeppni getur maður sprengt en samt gengið vel.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?  Korpan.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  TPC Sawgrass í Flórída.

Hvernig gekk þér með 17. brautina? Ég lenti í sandglompu, en fékk samt par.

Guðrún Brá og Sunna tóku þátt í European Young Masters við Balatonvatn í Ungverjalandi 2010.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Sérstæðasti golfvöllur, sem ég hef spilað  á er Royal Balaton í Ungverjalandi vegna þess að það var vatn við hverja einustu holu. Maður varð heldur betur að slá beint, annars var maður í kringum 90 höggin.

Royal Balaton golfvöllurinn í Ungverjalandi er sá sérstæðasti sem Sunna hefir spilað.

Hvað ertu með í forgjöf?   1,3.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   70 á Oddi.

Hvert er lengsta drævið þitt? Ég slæ venjulega 215 metra, en það  lengsta  er 270 metrar í meðvindi niður í móti.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Það var albatrossinn, sem ég fékk á Íslandsmóti unglinga á 4. holu í Grafarholtinu, sumarið 2011.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?  Ég er yfirleitt með grófa samloku með kjúklingi eða skinku, káli og papríku; banana og Hámark próteindrykk.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Ég var rosamikið í íþróttum þegar ég var yngri þ.e. í  fótbolta og frjálsum , en meiddist á hné. Síðan kom að því að ég varð að velja og ég valdi golfið.

Hvort er skemmtilegra golf eða fótbolti?  Golf.

Sunna, GR og Stefán Már, GR, sigurvegarar á síðasta móti Eimskipsmótaraðarinnar 2011, Chevrolet-mótinu á Urriðavelli. Mynd: visir.is

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhaldsmaturinn minn er reykt bayonskinka sem amma býr til með sveppasósu; uppáhaldsdrykkirnir eru vatn eða Flórídana heilsusafihvað tónlistina varðar þá hlusta ég á allt; uppáhaldskvikmynd: pass og uppáhaldsbókin er sú sem ég er að lesa í það og það skiptið, en ég er að lesa  Zen Golf í augnablikinu.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn, nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?    Kk:  Adam Scott.  Kvk: Michelle Wie.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?    Í pokanum hjá mér er: Snake Eyes dræver; Tour edge trékylfur og hálfviti;  AB2 Titleist járn, PING wedge-ar og Scotty Cameron pútter … en ég er að fara að panta mér nýtt sett á næstunni. Uppáhaldskylfan mín er dræverinn.

Hefir þú verið hjá golfkennara?  Já, hjá Árna Páli Björnssyni.

Ertu hjátrúarfull?  Nei, alls ekki.

Hversu stór hluti er andlegi þátturinn í golfleik þínum í prósentum talið í keppnum?  50%.

Sunna skoðar púttlínuna í Egils Gull mótinu í Vestmannaeyjum á Eimskipsmótaröðinni, sumarið 2011. Mynd: gsimyndir.net

Hvert er meginmarkmiðið í golfinu og í lífinu?   Meginlangtímamarkmið mitt er að komast á LPGA; til skamms tíma er það að stunda nám í háskóla og  standa mig vel og meginmarkmiðið í lífinu er bara að njóta hvers dags og lifa lífinu.

Hvað finnst þér best við golfið?  Hvað þetta getur verið upp og niður og hvað þú þarft að hafa fyrir því að bæta þig.

Gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?   Að æfa stutta spilið vel og reyna að vera sem minnst stressaður yfir þessu. Svo verður líka að njóta þess að spila.

Ef þú mættir velja 3 kylfinga til að spila með, hverjir væru það – lífs eða liðnir? Michelle Wie,  Adam Scott, og Tiger Woods.

Spurning frá síðasta kylfing sem var í viðtali hjá Golf 1 (Auði Kjartansdóttur, Vesturlandsmeistara kvenna 2011):  Hefir þú spilað Víkurvöll í Stykkishólmi?

Svar Sunnu: Nei, ég hef spilað lítið af 9 holu völlum þeir hafa orðið svolítið útundan, en hef spilað flesta 18 holu velli.

Getur þú komið með spurningu fyrir næsta kylfing? 

Spurning Sunnu Víðisdóttur:  Hefir þú farið holu í höggi?