Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 4. 2013 | 18:45

Viðtalið: Sigurvegari í punktakeppni Marsmóts nr. 1 í Sandgerði – Ellert Arnbjörnsson, GK – Komst undir 80 í fyrsta sinn á ferlinum!

Viðtalið í kvöld er við Ellert Arnbjörnsson, sigurvegara í punktakeppnishluta Marsmóts nr. 1 á Kirkjubólsvelli þeirra Sandgerðinga s.l. laugardag, 2. mars 2013. Það voru upphaflega 3 sem voru efstir og jafnir í 1. sæti og var besta skor á seinni 9 notað til að ákvarða sigurvegara í punktakeppninni.  Ellert var með 20 punkta á seinni 9, en samt var talið í fyrstu að annar kylfingur, Andri Ágústsson, GKJ, hefði hreppt 1. sætið með 21 punkt og greindi Golf 1 m.a. frá þessum röngu úrslitum.  Þau voru síðan leiðrétt á sunnudag og Ellert réttnefndur sigurvegari punktakeppnishlutans á golf.is, en þá var Golf1 löngu búið að birta úrslitafrétt og biður hlutaðeigandi afsökunar á birtingu rangra úrslita.

Haft var samband við Guðmund Einarsson, framkvæmdastjóra GSG vegna úrslitanna og sagði hann m.a. eftirfarandi: „Þetta var bara innsláttarvilla við færslu skors. Sá sem skráði skor Andra Ágústssonar, GKJ (þess sem upphaflega var talinn hafa sigrað punktakeppnishlutann) hafði skráð 7 högg á par-5 16. brautina á skorkortinu, en við lásum 7-una sem 2 (albatross).  Þegar ég fór að skoða þetta nánar þá sá ég að hann var á 7 höggum – það var leiðrétt og hann var á 32 punktum og færðist niður í 14. sætið.  Það var Ellert Arnbjörnsson, GK, sem vann punktakeppnina, með 37 punkta og 20 punkta á seinni 9.“

Í viðtali Golf 1 við sigurvegarann í punktakeppninni, Ellert Arnbjörnsson, í dag, kom m.a. fram að honum finndist algjör snilld að spila golf á þessum árstíma. Hann spilaði stundum lítið – stundum mikið, en hefði aðallega rosalega gaman af þessu. Aðspurður hvort aðstæður hefðu ekki verið erfiðar á Kirkjubólsvelli á laugardaginn sagði hann að það hefði verið smá gola, en það hefði ekki farið að rigna fyrr en hollið hans fór af 18. flöt.  Það hefði bara allt gengið upp eða með orðum Ellerts: „drævin voru í lagi og púttin, maður var ekki að þrípútta. Svo var mikill áfangi að komast undir 80 á þessum árstíma og í fyrsta skipti á ferlinum!“

Hvert markmiðið er í lífinu? Mynd: Golf 1

Hvert markmiðið er í lífinu? Mynd: Golf 1

Hér fer þetta hefðbundna viðtal við sigurvegarann:

Fullt nafn:  Ellert Arnbjörnsson.

Klúbbur:  GK.

Hvar og hvenær fæddistu?  Í Keflavík, 28. febrúar 1967.

Hvar ertu alinn upp?   Í Keflavík.

Í hvaða starfi ertu?  Ég er sölumaður hjá Parka.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Það er langt síðan – ætli það séu ekki 25 ár síðan, ég hef byrjað í kringum 1988-89.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?   Ég byrjaði að spila á Fidji-eyjum því það fylgdi hótelinu 9 holu völlur og maður dreif sig á sandölunum í golf.  Þegar ég kom heim var ekki aftur snúið  –  ég var þá að vinna á Höfn í Hornafirði og spilaði Silfunesvöll á hverju kvöldi.  Ég byrjaði með eina kylfu og svo kom settið. Svo byrjaði ég í golfklúbb,  var fyrst í GS og svo skipti ég yfir í  Keili í Hafnarfirði.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?  Þeir eru báðir jafn skemmtilegir – ég vil bara að spila golf sama hvernig völlurinn er.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Höggleikur.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?   Hvaleyrin hjá Keili.

Hvaleyrin er uppáhaldsgolfvölllur Ellerts. Hér frá 9. flöt.  Mynd: Golf 1

Hvaleyrin er uppáhaldsgolfvölllur Ellerts. Hér frá 9. flöt. Mynd: Golf 1

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Á mér engan.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Það er Syðridalsvöllur á Bolungarvík vegna útsýnisins og þess að það sé hægt að gera golfvöll í miðjum sandhólum er alger snilld.

Frá Syðridalsvelli í Bolungarvík. Mynd: vikari.is

Frá Syðridalsvelli í Bolungarvík. Mynd: vikari.is

Hvað ertu með í forgjöf?  11,4.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?  Það er 79 í Sandgerði s.l. laugardag, þetta er í fyrsta sinn sem ég hef komist undir 80 – Ég hef spilað upp á 80 högg nokkrum sinnum á Hvaleyrinni í Keili, en aldrei náð 79 höggum áður.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Að breika 80.

Hefir þú farið holu í höggi?   Nei, ekki enn.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Banana og vatn.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?   Já, handbolta, körfu og fótbolta.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?    Uppáhaldsmaturinn minn er pörusteik; uppáhaldsdrykkurinn er vatn; uppáhaldstónlistin er flest með Simple Minds; uppáhaldskvikmyndin er Shawshank Redemption og ég á mér enga uppáhaldsbók.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?  Kk: Seve og kvk: Annika Sörenstam.

Seve er uppáhaldskylfingur Ellerts

Seve er uppáhaldskylfingur Ellerts

Hvert er draumahollið?   Ég og….   Seve, Jack Nicklaus og Lee Trevino.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Nike dræver, Benross 5-tré og 26° blendingur, Benross 5-PW; Wedgar 52°, 56° og 60° og Benross pútter Bethpage Pure Red.

Hefir þú verið hjá golfkennara?  Ég var hjá Phill Hunter þegar ég var í GS. Svo var ég síðast hjá Björgvini Sigurbergssyni.

Ertu hjátrúarfullur?   Nei.

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu?  Að hafa gaman í golfinu og í lífinu; að gera bara vel það sem maður er að gera hverju sinni.

Hvað finnst þér best við golfið?   Útiveran og félagsskapurinn.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?   50‰.

Að lokum: Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?   Að hafa gaman af golfinu.