Sigurpáll Geir Sveinsson, að fylgjast með Keiliskrökkunum á Íslandsmótinu í höggleik. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | september. 22. 2013 | 20:00

Viðtalið: Sigurpáll Geir Sveinsson, GK

Sigurpáll Geir Sveinsson var í golffréttum nú í s.l. viku þar sem hann hefir sagt upp störfum sem golfkennari hjá Keili, en þar hefir hann haft yfirumsjón með afreksstarfi og uppbyggingastarfi barna og unglinga klúbbsins og þar hefir hann náð árangri sem á sér vart líkan hér á landi.  Sigurpáll sem er m.a. formaður félags PGA golfkennari, hyggst halda áfram einkakennslu í golfi, en er að öðru leyti óráðinn hvað við tekur. Nú í vikunni birtist hér á Golf 1 viðtal við Sigurpál um viðskilnaðinn við Keili, sem sjá má með því að SMELLA HÉR:    Hér er sjónum meira beint persónulega að fyrrverandi þjálfara afreksstarfsins hjá Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði, en hann hefir m.a. sagst ætla sjálfur að fara að keppa aftur í golfi. Hér fer viðtalið:

Sigurpáll Geir Sveinsson, GK, á ráðstefnu SÍGÍ, 24. febrúar 2012. Mynd: Golf 1.

Sigurpáll Geir Sveinsson, GK, á ráðstefnu SÍGÍ, 24. febrúar 2012. Mynd: Golf 1.

Fullt nafn:   Sigurpáll Geir Sveinsson.

Klúbbur:  GK.

Hvar og hvenær fæddistu?   Á Sauðárkróki, 12. júní 1975.

Hvar ertu alinn upp?   Á Sauðárkróki og Akureyri.

Í hvaða starfi ertu?  Í dag er ég golfkennari.

Sigurgeir Páll kjörinn golfkennari ársins

Sigurpáll Geirl kjörinn golfkennari ársins 2012. Mynd: keilir.is

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?    Ég á tvo stráka 8 og 10 ára – Svein Andra og Ásgrím, sem báðir eru byrjaðir í golfi.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?   ´88-´89 – Ég var 13 ára þegar ég sló fyrsta golfhöggið.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?   Það var vegna systur mömmu, sem býr á Skagaströnd og hefir alltaf átt golfsett og tekur 1-2 hringi í viku. Einn daginn tók hún mig með upp á golfvöll og strax eftir 1. dag var hún farin að skutla mig uppeftir á Háagerðisvöll (þ.e. golfvöllinn á Skagaströnd) og sækja mig á kvöldin Það tók ekki nema 1 mínútu eða eitt högg að kveikja áhugann.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?   Strandvelli – af því það reynir miklu meira á getu kylfings til að stjórna golfbolta. Þú labbar ekki í gegnum strandvöll með því að kunna 1 högg en það getur þú gert á skógarvelli.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?   Holukeppnin er skemmtilegri – Það er skemmtilegra golf  – að taka sjénsa – einn á móti einum sálfræði er nokkuð sem mér líkar. Það þyrftu bara að vera fleiri golfmót sem snúast um þetta.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?    Jaðarinn – það er ekki til skemmtilegra layout. Hver einasta braut er með gífurlegan karakter.

18. flöt Jaðarsvallar

18. flöt Jaðarsvallar

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Old Course á St. Andrews, ég hef spilað og maður finnur söguna þegar maður stígur þar á 1. teig.

Old Course á St. Andrews er uppáhaldsgolfvöllur Sigurpáls erlendis

Old Course á St. Andrews er uppáhaldsgolfvöllur Sigurpáls erlendis

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?     Það er Pines Shadows í Lake Charles í Louisiana.  Hann er sérstakur vegnaþess að  allar flatirnar eru eins og kóktappar, pínulítil og ef maður hittir ekki á mitt green-ið kastast boltinn í burtu.

Frá Pines Lake golfvellinum í Louisiana Bandaríkjunum, sérstæðasta  golfvellinum að mati Sigurpáls Geirs.

Frá Pines Lake golfvellinum í Louisiana Bandaríkjunum, sérstæðasta golfvellinum að mati Sigurpáls Geirs.

Hvað ertu með í forgjöf?   -0.3. Ég náði að lækka mig í síðustu viku en það er langt síðan það hefir gerst. Það var á PGA golfkennaramóti.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?    Það er 8 undir pari, 64 högg  á Lake Charles CC,  þar sem ég var í háskóla.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?    Í golfinu er það að hafa þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari; á þjálfaraferlinum er það að við í Keili unnum 4 sveitakeppnistitla af 6 nú í ár.

Hefir þú farið holu í höggi?   Já, 5 sinnum. Einu sinni á Akureyri, einu sinni í Turku, Finnlandi og  3 sinnum á Þverárvelli að Hellishólum. Þar hef ég einu sinni farið holu í höggi á 14. braut og tvisvar sinnum á 17. braut.

Sigurpáll Geir Sveinsson, GK. Mynd: Golf 1

Sigurpáll Geir Sveinsson, GK. Mynd: Golf 1

Hvaða nesti ertu með í pokanum?    Mér finnst mjög gott að hafa með mér Kristall og Golf próteinstykki

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?    Já var í öllu í gamladaga fótbolta, körfubolta, handbolta, sundi, frjálsum. Þegar ég var 14 ára og yngri var ég aðallega í frjálsum hjá Gísla Sig. og Jóni Arnari en síðan  snerist ég meira a golfinu).

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?    Uppáhaldsmatur:  Hamborgarahryggur; Uppáhaldsdrykkur: Kristall með sítrónu; Uppáhaldstónslist: U2  og íslensk tónlist í eldri kantinum t.a.m. Sálin og Stuðmenn;  Uppáhaldskvikmynd: The Rock; Uppáhaldsbók: Það er golfbók:  „Every shot must have a purpose“

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?    Kvk:  Annika Sörenstam   Kk:  Greg Norman.

Hvert er draumahollið?   Ég og….   Greg Norman, Annika, og það væri gaman að valta yfir Tiger.

Sigurpáll Geir Sveinsson, að fylgjast með Keiliskrökkunum á Íslandsmótinu í höggleik. Mynd: Golf 1

Sigurpáll Geir Sveinsson, að fylgjast með Keiliskrökkunum á Íslandsmótinu í höggleik. Mynd: Golf 1

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?   Uppáhaldskylfan mín er Odyssey twoball pútter ég er búinn að vera með hann í 11 ár og myndi ekki selja hann fyrir milljon!  Annað í settinu eru:  Ping S56 járn 2-PW, Adams Pro Gold sandwedge-ar og ég skiptist á að vera með PiNG G13 dræver og 3tré – og TaylorMade Rocket Ballz sem dræver og 3 tré og get ekki gert upp á milli þeirra.

Hefir þú verið hjá golfkennara? Já, David Barnwell – hann ól mig upp.

Ertu hjátrúarfullur?   Já, mjög – það birtist í að þegar vel gengur þá geri ég sama hlutinn aftur og aftur og aftur.

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu?   Í golfinu: að verða samkeppnishæfur á Eimskipsmótaröðinni 2014 – Í lífinu: Að vera ég sjálfur, góður faðir og láta gott af mér leiða – að vera vinur vina minna – Ég vil að fólk komi fram við aðra eins og þeir vilja að komið sé fram við þá.

Hvað finnst þér best við golfið?    Það er svo krefjandi sport á svo margan hátt – Þetta er svo mikil hugaríþrótt og það reynir á sálina og innri styrk meira en nokkuð annað.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?     75%.  Þegar hugurinn er á réttum stað og maður er með hugann á réttum stað í einkalífinu þá gengur vel.

Að lokum: Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?      Já,  það er eitt sem margir flaska á, en það er að setja sér of há markmið en vilja ekki trúa því, átta sig ekki á því hvað þetta er mikil vinna.