Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 20. 2011 | 20:00

Viðtalið: Sigurjón Harðarson, GÁS

Viðtalið í dag er við Sigurjón Harðarson, formann Golfklúbbs Ásatúns og eiganda bifreiðaverkstæðisins Topps í Kópavogi. Hér fara spurningar Golf 1 og svör Sigurjóns:

Fullt nafn: Sigurjón Harðarson.

Klúbbur: GÁS.

Hvar og hvenær fæddistu?    Í Reykjavík 28. september 1952.

Hvar ertu alinn upp? Ég er alinn upp í  Hraunteig í Lauganeshverfinu milli þess að ég var í sveit í Vattanesi í Reyðarfirði . Þegar ég var 9 ára var ég í Kalmanstungu í Borgarnesi. Þar var ég í sveit í mörg ár. Ég er sveitamaður – byrjaði snemma að vinna 12 ára var ég í frystihúsi – síðan var ég að  sendast fyrir Reykjavíkurapótek 10-13 ára – en ég hef alla tíð unnið mikið. Það hefir tekið mikið út á bakið; hvað golfið snertir þá sleppa fyrri 9 en seinni 9 geta orðið erfiðar. Ég réttlætti þannig fyrir mér að kaupa mér golfbíl!

Hverjar eru fjölskylduaðstæður – er einhver í fjölskyldunni sem spilar golf?  Ég er kvæntur  Valgerði Jönu Jensdóttur  og á 2 stráka. Konan mín er betri en ég í golfi  – annar sonur minn lamaður eftir mænuslys – hinn er í golfi.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  2005.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Ég fékk lóð fyrir sumarbústað í Ásatúni, síðan var búinn til golfvöllur þarna. Í framhaldi af því ákváðum við að stofna golfklúbb og með minni einstöku frekju gat ég troðið mér að sem formann klúbbsins. Hann er stofnaður 2005.

Hvað eru margir félagar í Golfklúbbi Ásatúns? 264  síðast þegar ég kíkti á tölvuna. Það eru þeir félagar, sem eru búnir að borga, félagatalan í heild er hærri. GKB er stærsti klúbburinn á Suðurlandi, en við stefnum ótrauð að því að slá því við.

Hvað starfar þú? Ég er eigandi Topps,  bifvélavirki að mennt búinn að starfa við það síðan 1971.  Fyrirtækið er 31 árs – Við erum enn með sömu kennitölu frá því að við byrjuðum, 26. október 1971.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?   Skógarvelli,  kannski af því maður spilar sjaldan strandvelli.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleik? Holukeppni, því það er alltaf nýtt mót við hverja holu… en dæmið er búið ef illa gengur í höggleik. Ég spila oft holukeppni við ritarann í klúbbnum Eirík Stefánsson… og er mjög ánægður ef ég vinn hann.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi? Oddurinn er skemmtilegastur.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Celebration í Kisseemee,  Flórída. Ég hef spilað hann oft. Ástæðan fyrir því að hann er í uppáhaldi er að umgjörðin í kringum völlinn er vinaleg, starfsfólkið er gott og hann er passlegur erfiður. Á 6. viku ársins förum við Sæmundur Steinar bróðir minn í 1/2 mánaða golffrí. Það er eiginlega sumarfríið okkar. Það  er verið að reyna að vinna meðan eitthvað er að gera á sumrin og því förum við á veturna í golf.  Aðrir vellir sem eru í uppáhaldi eru við Orange Lake (þar eru 3 vellir sem eru skemmtilegir Legend, Reserve, Crane Bend …. ) Við höfum spilað dálítið mikið þar – Svo eru fleiri og fleiri t.d. Mystic Dunes, hann er flottur en það kostar 130 dollara að spila hring

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju er hann sá sérstakasti? Það er Legend Walk – Hann er inni á Orange  – maður spilar í myrkri, þetta er ekki af því að völlurinn sé flottur heldur mómentið að spila í flóðsljósum – það er mjög spes. Svo er völlurinn okkar í Ásatúni sérstakur því hann er svo mishæðóttur.  Þegar þú slærð  af 1. teig eru 30 metra niður og eins er 8. brautin sérstök og erfið. Reyndar er Ásatúnið allt of lágt rate-að.  Kiðjabergið er líka skemmtilegt því það er svo mikið landslag í vellinum.

Hvað ertu með í forgjöf?  22.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?  89 í Grafarholtinu.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Að stofna Golfklúbbinn Ásatún. Völlurinn er alltaf að verða þekktari og félögum hefur fjölgað hratt. Fólk þekkir völlinn og það segir nú kannski eitthvað.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?  Snickers eða eitthvað og ef konan nennir að smyrja þá hef ég flatkökur – yfirleitt eitthvað súkkulaðidót prins póló eða snickers.

Hefur þú tekið þátt í öðrum íþróttum? Ég var í bílasporti –  rallý  og rallýcross og er  formaður bifreiðaklúbbs Reykjavíkur. Ég var í stjórn Keilusambandsins og formaður þar í þónokkur ár. Svo er ég í Keilufélagi Reykjavíkur . Ég er mikið í silungs- og laxveiði hef nóg svæði í það og svo er ég með einkaflugmannspróf í fluginu.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhaldsmaturinn minn er nautalund sem ég elda sjálfur; uppáhaldsdrykkur: einn kaldur af krana; uppáhaldstónlist: ég er mjög mikið fyrir kántrítónlist, t.d. þegar ég er úti í Ameríku er ég með kántrístöð á allan tímann: 95,7 á K95; uppáhaldskvikmyndin mín er Byssurnar frá Navarone og ég er ekki mikill bókaormur – kannski ég segi bara eitthvað í tengslum við veiði, já bara Árbókin í laxveiðinni.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?  Kvk.: Annika Sörenstam – mér hefir þótt hún vera skemmtileg og þegar hún hefir verið að keppa, þá held ég með henni og svo konan, hún hefir unnið fleiri mót en ég.    Kk.: Tiger Woods.

Hvað ertu með í pokanum og hver er uppáhaldskylfan þín?  Í pokanum hjá mér er Dræver- FT-Tour Callaway – allt annað er Callaway t.d. 3 og 5-trén x-series, ég er með hálfvita frá Callaway og  svo er 60° járnið frá Callaway og pútterinn er  Odyssey. Annað, sem ég er með í pokanum er: Veiðistöngin,  kúlur – hanskar – range finder fjarlægðamælir. Uppáhaldskylfan mín er sandwedgið. Það er bara skemmtilegast að spila með því, því þá sér maður hvar boltinn endar.

Hefir þú verið hjá golfkennara? Já, ég hef  farið til Brynjars tvisvar. Svo var ég á námskeiði í Ameríku og hef horft á DVD-diskinn hans Úlfars. Svo er ég líka  alltaf að horfa á PGA  og Evrópumótaröðina, ég er með þetta beint í æð í sveitinni, en þar er ég með disk.

Ertu hjátrúarfullur? Nei.

Hvert er meginmarkmiðið í golfinu?  Að ná niður fyrir 20. Ég vil vera þar, því ég sé fram á að annað verði erfitt og kosti of miklar fórnir.

Hvert er meginmarkmiðið í lífinu?  Ég hef reynt það að hlutirnir geta breyst á einni nóttu. Markmiðið er að lifa lífinu lifandi og geyma ekki til morguns það hægt er að gera í dag. Svo er markmið að halda heilsu og vera lifandi.

Hvað finnst þér best við golfið?  Það er gaman að fara út og hitta fólk og spila golf og sérstaklega af því að konan er nú líka með mér í þessu – það er bara það að geta verið saman í golfi.

Hefir þú eitthvað gott ráð sem þú getur gefið kylfingum? Að hafa gaman af því að vera í golfi og ekki flýta sér of mikið en flýta sér samt þ.e. vera ekki að tefja – en það að hafa gaman er nr. 1!

Að síðustu:

Spurning frá síðasta kylfingi (Agnesi Ingadóttur, GKJ),  sem var í viðtali hjá Golf 1:

Hvað er ca. lengsta púttið sem þú hefir sett niður? Svar Sigurjóns:  Það er örugglega 7-8 metrar í Ameríku.

Getur þú komið með spurningu fyrir næsta kylfing sem Golf 1 tekur viðtal við?   

Spurning Sigurjóns fyrir næsta kylfing:

Hefur þú prófað Ásatúnsvöllinn?

Næsti kylfingur sem Golf 1 tók viðtal við var Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, en viðtal við hann hefir nú þegar verið birt. (Birtist hér á Golf 1, 27. október 2011.)

Svar Birgis Leifs var : Ég er alltaf að spila sömu vellina – þannig að ég hef ekki haft tíma til að spila Ásatúnsvöll. En mér finnst góðir 9-holu golfvellir skemmtilegir og myndi langa til að prófa Ásatúnsvöll einhvern tímann.

Spurning Birgis Leifs fyrir næsta kylfing var: Finnst þér að eigi að banna GPS og lengdarmæla fyrir 18 ára og yngri?