Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 27. 2013 | 20:00

Viðtalið: Siggi Sveins, GKJ.

Flestir kannast við Sigga Sveins fyrrum landsliðsmann í handbolta, sem m.a. tók þátt fyrir Íslands hönd í Ólympíuleikunum 1984 og 1988.  Færri vita að hann er frábær kylfingur sem m.a. sigraði nú s.l. helgi, þ.e. 23. mars 2013, í punktahluta Opna Vormóts GKJ I og Golf Outlet.  Viðtal Golf1 í kvöld er við eina bestu skyttu í handboltanum, sem Ísland hefir átt, sem nú dúndrar golfboltum ofan í holu af miklum móð – hefir m.a. næstum farið „holu í hendingu“ þ.e. „hent ofan í holu í einu kasti,  en nánar um það hér í viðtalinu:  

Siggi Sveins hier beim golfen in den Westmänner Inseln. Foto: Gehört Siggi

Siggi Sveins hier beim golfen in den Westmänner Inseln. Foto: Gehört Siggi

Fullt nafn: Sigurður Valur Sveinsson.

Klúbbur:  Golfklúbburinn Kjölur í Mosfellsbæ (GKJ).

Af hverju ertu í GKJ? Það þróaðist þannig að við gömlu Þróttararnir fórum þangað en við erum með lítinn golfklúbb sjálfir sem heitir ÞÞÞ: Þrettán Þreyttir Þróttarar 🙂

Hvar og hvenær fæddistu? Í Reykjavík,  5. mars 1959.

Hvar ertu alinn upp?   Í Vogunum í Reykjavík.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Ég byrjaði af einhverju viti 2001 þegar ég kom heim  frá Þýskalandi.

Siggi Sveins. Mynd: Golf 1

Siggi Sveins. Mynd: Golf 1

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Það var vegna þess að þegar ég hætti í boltanum voru félagarnir byrjaðir að dúttla í þessu. Svo var þetta líka  skemmtilegt þannig að veiðidellan sem ég var með snerist upp í golfdellu.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?   Ég á konu og 2 börn. Ég er nýbúinn að fá konuna til að kíkja á eina kylfu.  ÞÞÞ eru líka duglegir að fara út. Einn félaginn á hús í Flórída og s.l. 3 skipti höfum við farið þangað og spila þ.e. á  Boyton Beach í Miami.

Í hvaða starfi ertu? Ég er að vinna í fyrirtækjadeildinni hjá TM og hef verið tengdur tryggingageiranum í 20 ár.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?   Ég er meira hrifinn af strandvöllum – boltinn minn hefir alltaf  leitað í þessi tré – þannig mér finnst strandvellir skemmtilegri.  Annars eru báðir jafnskemmtilegir. Maður spilar líka marga skógarvelli, en einhvern veginn heilla links vellirnir meira.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Bæði er jafnskemmtilegt  og þó holukeppnin kannski aðeins skemmtilegri.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?   Katlavöllur á Húsavík er skemmtilegasti 9 holu golfvöllurinn. Brautarholtið á Kjalarnesinu er flott.  Okkar völlur (Hlíðavöllur hjá GKJ) er krefjandi – Hvaleyrin hjá Keili er frábær og svo er Oddurinn fallegur.

Borgarvík - braut nr. 1 - á nýja vellinum í landi Brautarholts á Kjalarnesi.

Borgarvík – braut nr. 1 – á nýja vellinum í landi Brautarholts á Kjalarnesi.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  K-Club á Írlandi. Það var upplífun að spila hann.

Frá K-Club á Írlandi

Frá K-Club á Írlandi

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?   Það er Katlavöllur á Húsavík. Hann kom á óvart – sérstaklega par-5 4. brautin, sem er í dogleg og endar á upphækkuðu gríni.

Katlavöllur á Húsavík er einn sérstakasti völlur sem Siggi Sveins hefur spilað - sérstaklega Lautin par-5, 4. brautin

Katlavöllur á Húsavík er einn sérstakasti völlur sem Siggi Sveins hefur spilað – sérstaklega Lautin par-5, 4. brautin Mynd: GH

Hvað ertu með í forgjöf?  15,9.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   83 högg á Hlíðavelli.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?   Ég tímdi ekki að kaupa mér sett fyrir örvhenta, þau eru nefnilega 30% dýrari. Nei, nei þetta er smá grín, ég prófaði bæði gat ekki spilað með settinu fyrir örvhenta- ég spila því með setti fyrir rétthenta, sem er þó nokkuð afrek!

Hefir þú farið holu í höggi?   Nei, það er ekki gaman að klára það strax! …  en ég hef næstum því „hent holu í höggi“.  Ég og einn félagi minn fórum í keppni á par-3 braut um hvor okkar kæmi boltanum fyrr ofan í holu – hann með því að slá og ég með því að henda. Hann var á pari og ég birdie!

Hvaða nesti ertu með í pokanum?    Yfirleitt brauðsneiðar með osti og vatn.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?   Já, handbolta, fótbolta og körfubolta.

Já, Siggi Sveins hefir svo sannarlega verið í öðrum íþróttum!!!  Hér í handboltanum. Mynd: pedromyndir.is

Já, Siggi Sveins hefir svo sannarlega verið í öðrum íþróttum!!! Hér í handboltanum. Mynd: pedromyndir.is

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?   Uppáhaldsmaturinn minn er saltaður eða ósaltaður þorskhnakki… sem ég elda sjálfur – reyndar er eitt aðaláhugamála minna fyrir utan golfið, matreiðsla og konan fær ekki að koma í eldhúsið!; Uppáhaldsdrykkurinn er íslenska vatnið; Uppáhaldstónlistin: allt með America; Uppáhaldskvikmyndin; sem stendur er það Django Unchained; Uppáhaldsbókin: Þær eru allar saman matreiðslubækur – sú sem er í mestu uppáhaldi er e.t.v. um spænskt tapas

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?  Kk: Fyrir utan Tiger er það Bubba Watson.  Kvk: Annika Sörenstam.

Hvert er draumahollið?   Ég og ….  Tiger Woods, Bubba og John Daly.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?   Uppáhaldskylfurnar eru 8- og 4-járnin.   Það sem er í pokanum er: Dræver en ekki alltaf sá sami því ég hef brotið marga, hálfvitar 24° og 17°   PW-4 járn,   PW-ið mitt er 60° og gamall Odyssey pútter.

Hefir þú verið hjá golfkennara?  Já, David Barnwell og svo hjá Sigga Palla. Ég hef verið í vandræðum með drævin og það er enginn sem hefir getað hjálpað mér neitt. Ég missti sveifluna í drævernum og hef ekki fundið hana síðan, þrátt mikla viðleitni ýmissa kennara. (Innskot: Einhver golfkennari sem býðst til þess að hjálpa Sigga með drævin?)

Siggi Sveins að golfleik úti í eyjum. Mynd: Í eigu Sigga

Siggi Sveins að golfleik úti í Eyjum. Mynd: Í eigu Sigga

Ertu hjátrúarfullur?    Alls ekki. Ég vil helst spila föstudaginn 13. – 13 er mín happatala. Allt sem kemur upp á 13 er gott í mínum huga.

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu?   Í golfinu – ég er ekki neinn fantíker markmiðið þar er bara að koma forgjöfinni í 10. Í lífinu er það bara að manni  líði vel og hafi gaman af lífinu, enda þegar maður er kominn á þennan aldur er aldrei að vita hvenær maður fær boltann í hausinn.

Hvað finnst þér best við golfið?   Útiveran og félagsskapurinn -eru ekki flestir í þessu til að fá göngutúrinn og fá félagsskap? Svo er það líka það að hægt er að stunda golf  fram eftir öllum aldri.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?  0%. Ég er ekkert að einbeita mér, ég horfi bara í átt að flagginu og læt vaða. Ég  hef enga trú á neinu andlegu. Það er fátt sem hefur áhrif á mig úti á velli – þó einhver sé með hvell hljóð þar, elti ég hann ekki uppi með kylfu!

Að lokum: Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?    Já, láta ekki pirra sig þegar blæs á móti, því það gerir það alltaf á Íslandi – bæði andlega og veðurlega.