Ólafur Stolzenwald, GHR.
Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 9. 2012 | 20:00

Viðtalið: Ólafur Stolzenwald, GHR.

Viðtalið í kvöld er við varaformann Golfklúbbsins á Hellu.  Hann er prentsmiðjustjóri sem m.a. hefir gefið út sögu GHR, en klúbburinn átti 60 ára afmæli s.l. sumar. Hér fer viðtalið:

Fullt nafn: Ólafur Stolzenwald.

Klúbbur: GHR – Golfklúburinn Hellu Rangárvöllum.

Hvar og hvenær fæddistu?  Á Hellu, 8. október 1961.

Hvar ertu alinn upp?  Ég er fæddur og uppalinn í þorpinu á Hellu, Leikskálum 2.  Það hús er reyndar hrunið, fór í jarðskjálftanum 2000.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?   Systir mín spilar golf og sonur minn, Egill Elfar, er að byrja – og svo er það bara ég, sem er með þessa dellu.  Það gengur ekki alltof vel að fá son minn með mér – hann er mikill fótboltakarl – en ég er að reyna að fá hann með mér.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Það var í kringum 1973 með kylfunum hans afa.

Ólafur geymir kylfur afa síns enn – drævershausinn á bakvið settið geymir hins vegar gott whiskey!

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Sennilega var það um þetta leyti 1973 að  þeir eru að starta golfinu upp aftur á Strönd á Hellu og pabbi, heitinn, tekur mig með sér út á völl.

Hvað starfar þú??    Ég er prentsmiðjustjóri í vistvænu prentsmiðjunni, Guðjóni Ó.

Nú átti Golfklúbburinn á Hellu 60 ára stórafmæli á þessu ári – hvað var gert til að halda upp á afmælið?   Það var nú frekar rólegt yfir því, en ég tók saman söguna – svo héldum við upp á það með Jónsmessumótinu okkar. Klúbburinn var stofnaður þá 22. júní 1952 – við klúbbmeðlimirnir gerðum okkur glaðan dag og borðuðum saman utandyra.

Nú hefir þú tekið saman sögu Golfklúbbsins á Hellu – hversu lengi varstu að skrifa verkið?    Það tók lungað úr vetrinum – ég notaði til þess allar heimildir sem ég gat fundið og hefði átt að byrja fyrr, því margir sem kunnu söguna betur eru fallnir frá.

Ólafur Stolzenwald tók saman Sögu GHR í 60 ár og kom ritið út í 100 eintökum. Mynd: Golf1

Hversu stór bók er þetta?   Þetta er nú eiginlega ekki bók;  þetta er bæklingur gefinn út í 100 eintökum.

Hvað finnst þér best við golfvöllinn á Hellu?  Það er kyrrðin á vellinum, fuglalífið og nándin við fjöllin + að þetta er fínn golfvöllur. Það er hans sérstaða að manni finnst maður vera oft einn úti í náttúrunni.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?  Ég hugsa að ég myndi velja strandvöll – en það er líka mikill sjarmur yfir skógarvöllunum sérstaklega þessum gömlu, ensku, hefðbundnu dogleg völlum.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Höggleikur – sennilega af því ég ólst upp við það að spila frekar höggleikinn – en holukeppnin er ….. ég hef spilað heilmikla holukeppni líka.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?   Hef spilað Hellu langmest þannig að ég verð að segja að það sé minn uppáhaldsgolfvöllur, geri samt mikið af því að prufa nýja velli og margir góðir komnir.  Sem dæmi Kjalarnes völlurinn nýji.

Strandarvöllur á Hellu að vori, uppáhaldsgolfvöllur Ólafs Stolzenwald Mynd: Golf1

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Muirfield í Skotlandi, það voru forettindi að fá að spila hann og þegar ég og Jóhann vinur mættum á staðinn, fengu aðeins 12 gestir að spila þann daginn.

Muirfield í Skotlandi – uppáhaldsgolfvöllur Ólafs Stolzenwald erlendis.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Ég held að það séu þessir litlu 9 holu golfvellir á Íslandi, sérstaklega fyrir norðan og vestan þar sem layoutið er svolítið spes t.d. getur par-4 hola verið 201 m.  Hönnunin er oft af Guðs náð, hef séð teig, sem er  1 fm. Það er mjög sérstakt  og gaman að spila þessa velli.  Þarna eru eldhugar á ferð og kannski ekki ósvipað okkar fyrstu sporum á Gaddstaðaflötum og fyrsta 9 holu golfvellinum á Strönd.

Mörgum kylfingnum finnst Háagerðisvöllur á Skagaströnd afar sérstakur, m.a. vegna sérstaks layouts. Sérstaklega verður mörgum par-5 5. brautin eftirminnileg, sem liggur meðfram veginum og fáar brautir sem falla betur að landslaginu, ja… eða þá  par-3 4. brautin þar sem slegið er inn í klettaborg, en brautina og sérstaklega gerð flatarinnar barðist Karl Þ. Berndsen fyrir og er skjöldur til minningar um hann  við 4. flöt . Háagerðisvöllur er e.t.v. eitt best geymda leyndarmál meðal kylfinga á Íslandi og vel þess virði að spila næsta sumar!!!. Mynd: Skagaströnd.is

Golfvöllur GOG þ.e. Golfklúbbsins Gljúfra  í Ásbyrgi í Þingeyjarsýslu er einn af sérstæðum 9 holu golfvöllum Íslands – í ægifögru umhverfi og eldhugar, sem lögðu hann og halda honum við. Sannkölluð perla! Mynd: Golf 1

Hvað ertu með í forgjöf?  8,8 núna – ég hef hækkað verulega en var lægst kominn niður í 3,9.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?  Lægsta skorið mitt er á Hellu 71 og Hvaleyrinni 72 – bæði 1 yfir. Síðan hef ég spilað Vatnsleysuna á 71 .

Hvert er lengsta drævið þitt?  Ég hreinlega veit það ekki. Það fer eftir vindum og veðrum – 270 metrar ætli það sé ekki raunsæjast; annars er stutta spilið mín sterkasta hlið.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Að ég sé ennþá í golfinu fyrir það fyrsta og síðan er minnistæður 72 högga hringur á Hvaleyrinni  í 200 manna móti, sem skilaði mér í 2. sætið,  Seinni hringinn púttaði ég 11 pútt, það er pínu afrek að mínu mati.

Hefir þú farið holu í höggi?  Ég hef farið holu í höggi – 1988 á 11. holunni Hellu. Það fyndna við það er að ég fór með pabba sem strákur og þá fór hann holu í höggi á 11. – ég slæ draumahöggið 1 ári eftir að hann deyr – við höfum líklega verið saman í bæði skiptin.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Banana og sódavatn….Prins Póló ef það er til í skálanum….

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Mjög lítið – golfið hefur átt huga minn allan. Ég hef aðeins verið á gönguskíðum  mér til ánægju og öll útivist heillar mig.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?    Uppáhaldsmatur: saltfiskur og rjúpur. Uppáhaldsdrykkur: vatn. Uppáhaldstónlist: djass. Uppáhaldskvikmyndir: Being there með Peter Sellers og Gaukshreiðrið.  Uppáhaldsbók: Djassbiblían, bók sem fylgir mér alltaf í minni músík.

Djassbiblían er uppáhaldsbók Ólafs Stolzenwald

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?    Kk: Seve Ballesteros, var staddur í gollskála á Englandi þegar  hann dó og BBC gerði því svo góð skil í fréttum að manni vöknaði um augun og kvk.: Laura Davies allgjör jálkur sú kella og sigurvegari miklill og gaman að sjá hana vera að keppa með yngri konum í þeirra Ryder og hvetja þær áfram.

Hvert er draumahollið?  Ég og ……  Seve Ballesteros, Lee Trevino og Björgvin Sigurbergs.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?    Pútterinn Ping Anser er uppáhaldskylfan. Í pokanum er PING járnakylfur, TaylorMade dræver og Adams 3-tré. Hef alltaf slegið stutta spilið með venjulegum Wedge og það hefur ekki verið til vandræða.    Á það eftir að vera með fjóra wedga í pokanum og fjarlægðamæli… ??

Hefir þú verið hjá golfkennara, ef svo er hvaða?   Í gegnum tíðina hafa þeir verið ansi margir. Þorvaldur Ásgeirsson var fyrsti kennarinn minn. Spilaði líka með honum einn hring í mínu fyrsta meistarmóti, hann var gestur Hermans fyrrverandi formanns. Martyne Knipe kenndi mér mikið, var á Nesinu. Svo hef ég verið hjá Jóni Karlssyni, Björgvini Sigurbergs og pínulítið hjá Magga Birgis og fleirri góðum dáðadrengjum Íslandsgolfsins.

Ertu hjátrúarfullur?    Nei, en slæ ekki með bleikum tíum og er vanafastur í staðinn kannski ….

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu?  Reyna að hafa gaman af sportinu, þetta er ástríða – markmiðið að fá sem mest út úr því að fá að vera hér á jarðarkringlunni í nokkra áratugi.   Ef ég kem aftur ætla ég að spila golf.

Hvað finnst þér best við golfið?    Best við golfið finnst mér  þ.e. það sem gefur mér mest er félagsskapurinn og það hefir hjálpað mér í lífinu með einbeitingu – þetta er þjálfun hugans, þetta er hugarstjórnun  – Þetta þjálfar einbeitingu í daglegu lífi og er mikil hugarleikfimi.   Þolinmæði mina get ég þakkað golfinu að einhverju leyti !

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?  Hún er mikil – vel yfir miðju 50%.

Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?  Þolinmæði er dyggð.