Óðinn Þór Ríkharðsson, 8. janúar 2013. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 11. 2013 | 20:00

Viðtalið: Óðinn Þór Ríkharðsson, GKG.

Viðtalið í kvöld er við Óðinn Þór Ríkharðsson, afrekskylfing í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar (GKG).  Hann spilaði með góðum árangri á Unglingamótaröð Arion banka og Eimskipsmótaröðinni í sumar; aðeins 14 ára og oft yngstur manna í mótum þeirra bestu.

Í fyrsta mótinu á Unglingamótaröðinni upp á Skaga, varð Óðinn Þór í 25. sæti, en hann keppti í drengjaflokki (15-16 ára drengja); í 2. mótinu á Þverárvelli varð Óðinn Þór í 2. sæti; á 3. mótinu í Korpunni varð Óðinn Þór í 3. sæti; á 4. mótinu Íslandsmótinu í höggleik varð Óðinn Þór í 7. sæti; á 5. mótinu Íslandsmótinu í holukeppni varð Óðinn Þór í 3. sæti og á síðasta móti Unglingamótaraðarinnar á Urriðavelli sigraði Óðinn Þór glæsilega!

Óðinn Þór varð í 29. sæti á 1. móti Eimskipsmótararðarinnar af 106 í karlaflokkií Leirunni og í 21. sæti af 66 í síðasta móti mótaraðarinnar, Símamótinu, sem er stórglæsilegt í ljósi þess að hann var yngstur þátttakenda í Leirunni og næstyngstur í Grafarholti  Óðinn Þór var þrátt fyrir ungan aldur í efri þriðjungi þeirra bestu, í bæði skiptin.

Þess mætti geta að samhliða vali á íþróttakarli og konu Garðabæjar nú fyrr á árinu  voru valdir þeir efnilegustu og þótti Óðinn Þór efnilegastur.

Hópur afrekskylfinga sem keppti í Lalandia í  Danmörku haustið 2012. Óðinn Þór er 3. frá vinstri. Mynd: GKG

Hópur afrekskylfinga sem keppti í Lalandia í Danmörku haustið 2012. Óðinn Þór er 3. frá vinstri. Mynd: GKG

Eins keppti Óðinn Þór nokkuð erlendis 2012, en hann var í hópi unglinga úr GKG, sem kepptu á Lalandia mótinu í Danmörku og náði þeim ágæta árangri að landa 5. sætinu.  Óðinn Þór er í afrekshóp GSÍ völdum af Úlfari Jónssyni, landsliðsþjálfara.  Hér fer viðtalið við Óðinn Þór:

Fullt nafn: Óðinn Þór Ríkharðsson.

Klúbbur: GKG.

Hvar og hvenær fæddistu?   Í Reykjavík, 23. október 1997.

Hvar ertu alinn upp?   Ég er alinn upp í Kópavoginum.

Óðinn Þór Ríkharðsson, GKG. Mynd: Golf 1

Óðinn Þór Ríkharðsson, GKG. Mynd: Golf 1

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?    Fjölskylduaðstæðurnar eru mjög fínar – pabbi, Ríkharður Brynjólfsson spilar golf og eins bróðir pabba og afi. Mamma hefir ekkert verið í golfi því hún er heima hjá systrum mínum 1 og 3 ára.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Það er ekki langt síðan. Ég fór á völlinn með pabba 6 ára, en svo hætti ég og spilaði fótbolta með Breiðabliki. Ætli ég hafi ekki byrjað að stunda golfið á fullu 12 ára.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Það var pabbi, sem varð til þess að ég byrjaði í golfi. Ég fór á völlinn með honum.

Í hvaða starfi/námi ertu?  Í Smáraskóla, 10. bekk.

Óðinn Þór Ríkharðsson, GKG, á 18. flöt Urriðavallar eftir glæsilegan hring upp á 67 högg síðasta daginn á síðasta móti Unglingamótaraðar Arion banka 2012. Mynd: Golf 1

Óðinn Þór Ríkharðsson, GKG, á 18. flöt Urriðavallar eftir glæsilegan hring upp á 67 högg síðasta daginn á síðasta móti Unglingamótaraðar Arion banka 2012. Mynd: Golf 1

Þegar þú lítur yfir liðið ár 2012, hvað stendur upp hjá þér í golfinu? Lokamótið á Unglingamóti Arion banka, á Urriðavellinum.  (Innskot: Á því móti sigraði Óðinn Þór glæsilega!)  Eins var ég með 2 brotna hryggjarliði á síðasta ári og byrjaði  tímabilið því ekki vel.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?    Skógarvelli, vegna þess að spil á þeim krefst betra leikplans.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Höggleikur – út af því að mér finnst það bara vera golf, þá þarf maður að passa sig miklu meir.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?   Oddurinn.

Par-3 13. brautin á Urriðavelli, uppáhaldsgolfvelli Óðins Þórs á Íslandii. Mynd: Golf 1

Par-3 13. brautin á Urriðavelli, uppáhaldsgolfvelli Óðins Þórs á Íslandi. Mynd: Golf 1

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?     Grænanesvöllur á Neskaupsstað af því að hann er svo flatur – hann er samt í miklu uppáhaldi.

Frá Grænanesvelli á Neskaupsstað - einum sérstakasta vellinum að mati Óðins Þórs

Frá Grænanesvelli á Neskaupsstað – einum sérstakasta vellinum að mati Óðins Þórs

Hvað ertu með í forgjöf?  3,5

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   67 högg á Oddinum.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?   Framfarirnar, sem ég hef tekið.

Hefir þú farið holu í höggi?  Nei.

Óðinn Þór Ríkharðsson (lengst til hægri) á Íslandsmótinu í höggleik 6. ágúst 2011, á Grafarholtsvelli. Mynd: Golf 1

Óðinn Þór Ríkharðsson (lengst til hægri) á Íslandsmótinu í höggleik 6. ágúst 2011, á Grafarholtsvelli. Óðinn Þór hefir tekið miklum framförum í golfinu síðan þá Mynd: Golf 1

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Skyr, samlokur að heiman og golfbar er í miklu uppáhaldi.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?   Já, handbolta (Óðinn Þór spilar með HK) og fótbolta.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?    Uppáhaldsmaturinn er nautasteik; uppáhaldsdrykkur er: malt & appelsín; uppáhaldstónslist: ég hlusta á allt; uppáhaldskvikmynd: allar Harry Potter myndirnar; uppáhaldsbók: ég á mér ekki uppáhaldsbók.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?  Kk: Tiger. Kvk:  Natalie Gulbis.

Óðinn Þór Ríkharðsson, GKG. Mynd: Helga Björnsdóttir

Óðinn Þór Ríkharðsson, GKG. Mynd: Helga Björnsdóttir

Hvert er draumahollið?   Ég og ….   Stuart Downing, Tiger Woods og Brendan Rodgers.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?   2 járn-PW Tour Edge Exotic; ég er að fara að skipta. Dræver: Callaway; 3-tré Mizuno; Callaway 56° og Odyssey Tour pútter.

Hefir þú verið hjá golfkennara?   Já, Derrick Moore, Úlfari Jónssyni og Tómas Sigurðsson og örugglega einhverjum fleirum.

Ertu hjátrúarfullur?   Nei.

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu? Í golfinu er það bara að spila á þessum stóru mótaröðum og í lífinu að vera hamingjusamur.

Hvað finnst þér best við golfið?   Það besta við golfið er útiveran og félagsskapurinn.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?    50%

Að lokum: Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?   Hafa gaman að þessu.