Maurizio Veloccia receiving a prize at the Cadiz Cup at Arcos Gardens in Andalucia, Spain, May 5th 2011. Photo: Golf1.
Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 27. 2011 | 20:00

Viðtalið: Maurizio Veloccia frá Ítalíu – Spilar golf við Dino Zoff, fyrrum landsliðsmarkvörð Ítala í fótbolta

Maurizio Veloccia, golfkennari og flugmaður frá Róm á Ítalíu var einn þeirra sem vann til verðlauna á Cadiz Cup 2011 golfmótinu, sem fram fór 5. maí 2011, í Arcos Gardens, á Spáni. Hann m.a. þrætti fyrir að besta lasagne í heimi væri búið til af þeirri, sem viðtalið tók og væri aðeins fáanlegt á Íslandi – mama hans í Róm byggi til besta lasagne-ið… en fannst hins vegar spennandi að uppskriftin ætti rætur að rekja til Rómar… Hugsanlega að um sömu uppskrift sé að ræða?  Hér fer viðtalið við Mauricio:

Nafn: Maurizio Veloccia.

Fæðingardagur: Ég kom í heiminn 4 dögum á eftir þér, í Róm, Valentínusardaginn 14. febrúar 1968.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður?  Ég á kærestu, hef aldrei verið kvæntur og er barnlaus.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?   Fyrir 15 árum, árið 1996.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Caso (ít.: tilviljun). Ég hitti vin minn, sem hélt á þessum skrítna hlut (golfpoka) og fór að spila golf vegna þess að ég var forvitinn.

Hvort líkar þér betur skógar- eða strandvellir? Skógarvellir.

Hvað eru margir golfvellir á Ítalíu? Þeir eru um 250.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Ítalíu? Olgiata GC, í norðurhluta Rómar. Þetta er mjög ríkur klúbbur og maður verður að hringja og fá leyfi til þess að mega spila á golfvelli þeirra. Svo er  Le Querce, (þýðir eikartré á ítölsku) í Sutri úthverfi Rómar líka í uppáhaldi.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir  þínir hvar sem er í heiminum? Augusta í Georgia, Bandaríkjunum.

Hver er sérstæðasti golfvöllur, sem þú hefir spilað á og af hverju?  La Querce vegna þess að þar eru svo margar krefjandi holur og vegna þess að þar stóðst ég prófið til þess að hljóta kennararéttindin mín.

Maurizio Veloccia (t.v.) ásamt starfsmanni San Roque golfvallarins í Cadiz (f.m) og fararstjóra (t.h.) Mynd: Golf 1.

Hvað ertu með í forgjöf?  0

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því? Lægsta skorið eru 65 högg á Eucalyptus GC, 60 km suður af Róm.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum? Já, 5-þraut.

Þetta er kannski steríótýpísk spurning – en sem Ítali hefir þú áhuga á fótbolta og ef svo er hvert er uppáhaldsliðið þitt í ítalska boltanum? AC Roma

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhaldsmaturinn minn er Spaghetti alla Carbonara vegna sögu réttarins, sem á uppruna sinn í Rieti, Róm. Hann var búinn til úr  guanchale, sem er öðruvísi en panacetta,  pipar og griicha bætt við. Þetta er réttur sem upprunninn er í fjöllunum. Einhver bætti við eggjum og pasta og pasta carbonara varð til; uppáhaldsdrykkurinn minn er Prosecco Valdodiadene; uppáhaldstónlistinn Fusion Icognito; uppáhaldskvikmyndin er Pulp Fiction og uppáhaldsbókin Odyssea.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn, nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing? Kk: Rocca  Manasetroo. Kvk: Stefani Croce á Ítalíu og alþjóðlegir kylfingar sem eru í uppáhaldi eru kk.: Ben Hogan  og kvk.: Michelle Wie.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín? Í pokanum hjá mér er dræver, pútter, járn 3-PW og wedgar 52° og  56°. Uppáhaldskylfan mín er 7-járnið.

Hvert er meginmarkmiðið í lífinu? Að hafa heilt og heiðarlegt fólk í kringum mig.

Hvað starfar þú? Ég er flugmaður með golfkennararéttindi. Ég kenni golf í Róm.

Maurizio Veloccia á æfingasvæðinu á San Roque golfvellinum 3. maí 2011. Mynd: Golf 1

Eru launin góð hjá golfkennurum í Róm?  Já, þau geta verið góð – allt að € 9000  á mánuði (allt í svörtu).

Hvaða golfkennara dáist þú mest að?  Hank Haney.

Hefir þú ákveðið concept í golfkennslu þinni? Það skiptir máli  hvernig maður droppar handleggina, það verður að skapa sveifluna en aðalatriðið er að hitta boltann vel.

Hvert er besta ráð sem þú getur gefið kylfingum? Það fer eftir því hvar viðkomandi er staddur. Byrjendur og þeir sem eru með 36-10 í forgjöf ættu að leggja aðaláherslu á að æfa sig vel og sérstaklega stutta spilið kemur til með að bjarga miklu á vellinum; þeir sem eru með undir 10 í forgjöf þar fer maður meira í hvernig eigi að bjarga sér úr glompum og röffi, eins að hvetja þessa kylfinga til þess að vera frumlegir í höggum, vera t.d. með æfingar þar sem boltinn er stilltur upp nálægt bönkersbrúnum og hvernig eigi að slá þessi erfiðu högg. Mér finnst mest gaman að kenna þeim sem eru með 4 í forgjöf og þar undir – það er golf. Þá er farið að miða og vitundin er orðin það þroskuð að vitað er hvert boltinn fer og lendir.

Hvað finnst þér best við golfið?  Maður fær svo djúpan skilning á fólki – það hvernig það hegðar sér á golfvellinum, þannig er það líklegast líka í daglegu lífi. T.d. ef viðkomandi svindlar úti á velli er líklega um svindlara daglig dags að ræða. Svo er golfið bara svo frábært tæknilega séð. Þetta er undraverð hreyfing full af orku og dýnamík.

Tekurðu eftir auknum áhuga á golfi á Ítalíu? Það er mítan sem er í gangi – þeir segja það en í raun er ekki raunveruleg aukning áhuga á golfi á Ítalíu. – 70% golfvalla eru í norðurhluta Ítalíu en aðeins 30% á Suður-Ítalíu, sem endurspeglar þjóðfélagsgerðina. Í Norðrinu er t.d. góður verðbréfamarkaður. Í Róm einni eru 11 frábærir golfvellir, sérlega fallegur er einn frá árinu 1903 Roma Aqua Santa, byggður innan um rómverskar rústir. Þetta er einkavöllur og allir klúbbfélagar eru eldri herramenn. Ætli u.þ.b. 70% félaga séu ekki karlmenn og aðeins 30% konur.  Á Ítalíu þykir golf flott og oft meira lagt upp úr ytri hlutum eins og að vera í tískugolffötum.

Með allri golfkennslunni, kemst þú eitthvað sjálfur til að spila golf?  Já, ég næ að spila svona 4 hringi á mánuði.

Dino Zoff, fyrrum landsliðsmarkvörður Ítala er farinn að spila golf.

Nú er einn af spilafélögum þínum, landsliðsmarkvörðurinn fv. í fótbolta, Dino Zoff – hvernig kylfingur er hann? Hann er hinn fullkomni herramaður. Hann æfir mikið u.þ.b. 1/2 -1 klst á degi og er búinn að vera 4-5 ár í golfi. Hann er kominn niður í 18 í forgjöf og er með fallega sveiflu og góða tímasetningu.

Eru fleiri þekktar ítalskar stjörnur sem hafa áhuga á golfi? Já, t.d.  Zebina, Claudio Amendola, fv. borgarstjóri (Róm) Rutelli, CoNi o.fl.

Er golf almenningssport á Ítalíu eða er það frekar eitthvað sem er frátekið fyrir elítuna, er það heldrimannaíþrótt? Það er íþrótt hinna ríku og vel stæðu, því miður.