Margrét Óskarsdóttir, GKJ og starfsmaður Vita Golf. Hér: í TaylorMade Adidas mótinu í Korpunni 22. maí 2011. Mynd: Golf 1.
Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 13. 2011 | 15:00

Viðtalið: Margrét Óskarsdóttir, GKJ: „Golfið læknaði heimþrá eftir Noregi.”

Í vor tók Golf 1 viðtal við skemmtilegan kylfing, Margréti Óskarsdóttur, GKJ, sem starfar við sölu golfferða hjá VITA Golf og er því mörgum kylfingnum, sem pantar sér golfferð að góðu kunn. Skrifstofan hennar er draumskrifstofa sérhvers kylfings, en veggina prýða m.a. fallegar myndir af brautum Fancourt golfvallarins í Suður-Afríku. Fyrir hrun var að sögn Margrétar algengara en nú að fólk ferðaðist í golf þangað. Lagðar voru nokkrar spurningar fyrir Margréti sem hún veitti góðfúslega svör við:

Fullt nafn:  Margrét Óskarsdóttir.

Margrét Óskarsdóttir, GKJ – hjá VITA Golf

Klúbbur: GKJ, þ.e. Golfklúbburinn Kjölur í Mosfellsbæ.

Hvenær og hvar fæddistu? Í Reykjavík 16.10.1951.

Hvar ertu alin upp? Í Reykjavík.

Fjölskylduaðstæður?  Spilar einhver í fjölskyldunni golf?  Ég er gift Steinari Þór Guðlaugssyni og við eigum tvö börn: Hrafn (f. 1967) og Ásu (f. 1990). Við erum öll í golfi.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Ég byrjaði 1998-1999.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Þannig var að við bjuggum í Noregi en fluttum heim 97 frekar en 98. Það skiptir kannski ekki máli. En ég var með heimþrá til Noregs. Ég fékk vinnu hjá Úrval Útsýn og var í vinnuferð í Skotlandi og þurfti m.a. að fara í  lest milli Glasgow og Edinborgar . Þá sá ég fólk að sveifla kylfum og hugsaði með sér að þetta gæti verið spennandi. Þegar heim var komið voru keypt 4 7járn og plast kúlur og við fjölskyldan fórum með plastkúlur og 7-járnin okkar að æfa okkur á túni.  Ég  fann að þetta var eitthvað fyrir mig og síðan hófst bara leitin að klúbbi. Við fórum í GR en þegar við komum upp í GKJ þá voru einhverjar svo hlýlegar mótttökur að við ákváðum að ganga í klúbbinn og við höfum verið þar síðan.  Það má segja að golfið hafi líka læknaði mig af heimþránni til Noregs.

Nú ert þú mjög virk í félagsstarfi tengdu golfi, segðu lesendum aðeins frá því? Ég er formaður öldungarnefndar GKJ. Ég veit ekki af hverju ég tók þetta að mér, hef  nefnilega ekki sinnt félagsstörfum, en golfið tók hug minn allan. Ég var heppin þegar ég byrja í golfi því þá eru aðstæður þannig upp í Mosó að ég fæ mörg tækifæri. Ég komst m.a. í sveitakeppni öldunga tiltölulega nýbyrjuð  í golfi. Síðan fór ég að hugsa um hvernig við gætum staðið að keppnismálum fyrir öldungana í klúbbnum, þannig fór ég að skipta mér af málum.

Hvað eru margir félagar í GKJ og hversu stór er öldungahópurinn? Ætli við séum ekki svona 6-700  og þar af er öldungahópurinn um 290

Hvað starfar þú?   Ég starfa hjá Vita Golf við að selja golfferðir. Við erum 3 hér.  Ég  set efni á netið og sé um samskipti við birgja erlendis. Golfferðirnar okkar eru fyrst og fremst ferðir til Spánar og á heita staði. Íslenskir kylfingar  vilja lengja golftímabilið í báða enda. Við fljúgum til Sevilla og erum á Praia de Luz í Andaluciu á mjög rótgrónum stöðum:  Rompido Matalascanas og Islantilla. Þetta er staðir sem hafa fest sig í sessi. En við erum líka á Alicante svæðnu: Val del Este og Mar Menor. Svo reynum alltaf að búa til ferðir eitthvað annað. Fyrir hrun var Peter sterkur í ferðum til Thaílands og einu sinni á ári er farið í sérgolfferð, en oft er farið í febrúar til einhverra eftirfarandi staða: Indlands, Kína, S-Afríku eða Belek í Tyrklandi.

Myndin af Fancourt í Suður-Afríku – sem hangir á skrifstofunni hjá Margréti. Ummm…. það er nú hægt að láta sig langa að spila á þessum æðislega golfvelli!

Hvort finnst þér skemmtilegra að spila skógar- eða strandvelli?   Ég hef ekki mikla reynslu af strandvöllum, en þeir heilla mjög.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Holukeppni.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?  Grafarholtið.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Rye Golf Course  Það er heimavöllur samstarfsmanns míns Peter Salomon, en ég fór í ferð með honum þangað. Þetta er linksari.   Sú ferð, upplifun og völlurinn er það skemmtilegasta sem ég hef upplifað í golfinu. Það var bara allt við það. En svo er ég svo ung í golfinu á svo margt eftir óreynt hvað golfvelli snertir.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju? Geysis-völlurinn. Hann kom skemmtilega á óvart . Hann er sérstakur af því hann hverfur inn í landslagið. Það er merkilegt að hægt sé að setja golfvöll inn í miðja náttúruna, hann er svotil falinn þarna.

Hvað ertu með í forgjöf?  11,9

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því? 82 á Grafarholtinu, haustið 2010. Þetta var á einu af 4 haustmótum, sem þar voru.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Það er bara afrek yfirleitt að vera í golfi. Ég byrja 49 ára. Það er helsta afrekið að hafa svona mikinn áhuga og finna á hverju ári að maður tekur framförum.

Hvaða nesti ertu með í pokanum? Ég er ekki með neinn matarpoka… en er ósköp fegin þegar aðrir draga upp döðlur eða eitthvað. En ég er alltaf með vatn. Maður missir einbeitinguna ef maður gengur á forðann. Það þarf  að borða 3. hverju holu – ég er bara svona áköf að fara hringinn minn að ég hugsa lítið um nesti.

Hefur þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Ég var í handbolta sem unglingur, eins og hver annar, tók þátt.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Ætli uppáhaldsmaðurinn minn séu ekki bara tapas-réttir; uppáhaldsdrykkurinn er Tinto Verano við vissar aðstæður, rauðvín með lime út í. Svo er mjólkin alltaf í miklu uppáhaldi. Uppáhaldstónlist: Allt með Eagles, svo er íslensk tónlist þrusugóð. Bubbi er í miklu uppáhaldi, Stebbi Hilmars o.fl. Sú kvikmynd sem kemur í hugann er August Rush en ég veit ekki hvort hún er uppáhalds og svo er uppáhaldsbókin mín „Þúsund bjartar sólir“ eftir Khaled Hosseini.

Hver er uppáhaldskylfingur nefna 1 kven- og 1 karlkylfing? Kvk: Suzann Pettersen. Kk: Á marga, en sá sem kallar alltaf fram bros er Jimenez. Það er alveg rosalega margt við hann.

Hvað er í pokanum hjá þér?  Dræver  Callaway FTi,  5 og 3 tré frá Nike, X16 Callaway járn, Adams hálviti og 3 járn og pútter: TaylorMade, 60° þarf stundum að taka hana út af því að hún er 15 kylfan. Svo er ég með fjarlægðarmæli frá Bushnell.

Hver er uppáhaldskylfan þín?  Dræver: Callaway FTi.

Hvað finnst þér best við golfið? Félagsskapurinn og útiveran. Golfið gerir manni auðveldara að búa á Íslandi vegna þess að það dregur mann út; þetta er aktívítet fyrir hverja árstíð, en veðráttan hér er hálfgert hálfkák.

Að lokum: Hvert er meginmarkmiðið í lífinu?  Að lifa lífinu lifandi, vera glöð og passlega kærulaus…  og góð við þá sem eru í kringum mann og passa upp á fjölskylduna.