Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 22. 2011 | 15:00

Viðtalið: Magnús Lárusson, GKJ

Annað af 2 viðtölum á Golf 1 í dag er við einn högglengsta kylfing landsins: Magnús Lárusson, sem alla tíð hefir verið félagi í Golfklúbbnum Kili í Mosfellsbæ. Hér fara spurningar Golf 1 og svör Magnúsar.

Fullt nafn: Magnús Lárusson.

Klúbbur: GKJ.

Hvar og hvenær fæddistu?   Ég er Mosfellingur í húð í og hár, þó spítalinn sé í Reykjavík, en þar fæddist ég 2. október 1985.

Hvar ertu alinn upp? Á Leirutanganum í Mosfellsbænum.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður – er einhver í fjölskyldunni sem spilar golf?  Ég er í sambúð með Hörpu Ómarsdótur, sem er að byrja að stíga sín fyrstu skref í golfinu – eini golfhringurinn hennar til þessa er spænskur, en hún var með mér núna í vor, þar sem ég var fararstjóri hjá Vita Golf á Vaja del Este.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Ég gekk í klúbbinn 12 ára, árið 1997. Ég var þá aðeins búinn að fara með afa og ömmu í GOB.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi? Bara nálægðin við golfvöllinn – Ef ég labbaði niður götuna þá var ég kominn á völlinn. Þetta var mjög hentugt þegar golfbakterían var orðin alvarleg, þ.e. hversu nálægt og þægilegt allt var.

Hvað starfar þú?  Ég starfa hjá GKJ sem markaðsstjóri og svo sem fararstjóri hjá Vita Golf.

Hvort kanntu betur við skógar- eða strandvelli?   Strandvelli,  það er bara golf eins og það á að vera leikið – mér finnst það æðislega gaman og gaman að leika í vindi.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Holukeppni – þar sem ég hef náð betri árangri í því fyrirkomulagi.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi? Hlíðarvöllur – Verður maður ekki að segja heimavöllinn? – Ég er nú einu sinni alinn upp hérna.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Það er gamli völlurinn á St. Andrews, það er ekkert sem toppar hann – hann er eitthvað sem maður gleymir aldrei!

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Eg hef spilað Mosa Trajectum í Murcia á Spáni og hann er skelfilega leiðinlegur -Í stað þess að vera með röff eða karga er bara grjót/ malarhnullungar og hæðir allt í kring- Ef þú ert í röffi ertu lost að leika þann völl. (Innskot: Sjá má heimasíðu Mosa Trajectum og fallegar myndir af vellinum með því að smella HÉR: )

Frá Mosa Trajectum golfvellinum í Murcia.

Hvað ertu með í forgjöf?  0.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því? Ég á nokkuð marga -7 hringi (undir pari) t.d. í Grafarholti og á gamla Leirdalsvellinum.

Hver eru helstu afrekin þín til dagsins í dag í golfinu?  2 Íslandsmeistaratitlar unglinga – 2 Íslandsmeistaratitlar í sveitakeppni, 2005 2006; Nokkrir sigrar á Eimskipsmótaröðinni.

Hvaða nesti ertu með í pokanum? Harðfisk, mini-gulrætur  Aquarius orkudrykki. Það er mikilvægt að vera með gott nesti þá hlakkar maður til á milli högga.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum? Ég sóttist eftir að vera í öllum íþróttum sem voru í boði nema sund – Annars hef ég gaman af öllum íþróttum.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhaldsmaturinn minn er góð nautasteik; uppáhaldsdrykkurinn íslensk mjólk; ég er alæta á tónlist; uppáhaldskvikmyndin er Caddyshack og ég á enga sérstaka uppáhaldsbók.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?  Kvk: Nína Björk Geirsdóttir    Kk:  Stefán Már Stefánsson.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Í pokanum hjá mér eru 13 kylfur og nokkrar kúlur og tí. Uppáhaldskylfan er lob-wedge-inn.

Hvert er lengsta drævið þitt?  Það var 400 metrar á einhverjum góðum links-velli í meðvindi.

Hefur þú verið hjá golfkennara? Já, ég hef verið hjá þeim sem þjálfa landsliðið og svo hef ég verið hjá ÁrnaJónssyni og Inga Rúnari Gíslasyni.

Ertu hjátrúarfullur?  Já, frekar. Ég er alltaf með 4 tí í vasanum og hef ekki hugmynd af hverju.

Hver eru meginmarkmiðin í golfinu og í lífinu? Markmiðin í golfinu eru frekar óljós þessa stundina. Ég er í pásu. Það má vel vera að ég verði aftur kominn á fullt í vetur. Meginmarkmiðið í lífinu er bara að hafa eins gaman af því og ég mögulega kemst upp með.

Hvað finnst þér best við golfið?  Það er bara það að getustigið og aldursskiptingin er allt einn grautur . Svo er þetta fjölskylduvæn og góð íþrótt varðandi bara marga hluti . Golf kennir manni margt gott í lífinu – Ég þakka golfíþróttinni margt í lífi mínu – það er gott að vera alinn upp með golfreglum, þær gefa mönnum mikið.

Ert þú með eitthvað gott ráð sem þú getur gefið kylfingum? „Vertu fljótur að gleyma lélegu höggunum – næsta högg verður gott“

Að síðustu:

Spurning frá síðasta kylfingi (Birgi Leif Hafþórssyni, GKG),  sem var í viðtali hjá Golf 1:

Finnst þér að eigi að banna GPS og lengdarmæla fyrir 18 ára og yngri? Svar Magnúsar:  Já, það er ekki spurning að það á að banna GPS og lengdarmæla fyrir 18 ára og yngri í mótum.  Með því að leyfa þá, þá er verið að taka visst element úr golfleiknum sem mér finnst að sérstaklega yngri krakkar eigi að vera með – það er ákveðin tilfinning sem krakkarnir missa.

Getur þú komið með spurningu fyrir næsta kylfing sem Golf 1 tekur viðtal við?   

Spurning Magnúsar Lárussonar fyrir næsta kylfing:

Ef þú mættir ráða hvort myndir þú frekar vilja fá Albatross eða fara holu í höggi?