Ragnheiður Jónsdóttir | september. 26. 2012 | 18:30

Viðtalið: Jóhann Sævar Símonarson, GVS

Viðtalið í kvöld er við einn af stofnendum Golfklúbbs Vatnsleysustrandar (GVS), mann,s sem flestir sem spila Kálfatjarnarvöll þessa dagana kannast við, því hann er þar alltaf, a.m.k. fyrir hádegið. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar hjá GVS og aðrar eru komnar í skipulag og fyrirhugaðar. Meðal þess sem unnið hefir verið að, að undanförnu er að búa til stórt og fínt æfingasvæði og síðan er fyrirhugað að stækka Kálfatjarnarvöll úr 9 holum í 18 holu völl og er m.a. gert ráð  fyrir nýju klúbbhúsi og glæsilegu hóteli á staðnum.

Þess mætti geta að GVS hefir nú nýverið hlotið umhverfisviðurkenningu sveitarfélagsins Voga 2012 fyrir snyrtilegt umhverfi og má það til sanns vegar færa.

Umhverfisviðurkenningin sem GVS hlotnaðist

En það er ekki bara að umhverfið sé snyrtilegt, sem GVS hefir nú verðskuldað fengið viðurkenningu fyrir; Það hefir alltaf verið gott að koma á Kálfatjarnarvöll, sem er einkanlega vinalegur völlur og vel tekið á móti manni og einn þeirra sem þar er fremstur í fararbroddi er Sævar….

Fullt nafn: Jóhann Sævar Símonarson.

Klúbbur:  GVS.

Hvar og hvenær fæddistu?    Á Neðri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd, þann 21. júlí 1943.

Hvar ertu alinn upp?  Ég er alinn upp hérna á Ströndinni og bý í Vogunum.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?   Ég á konu og 5 börn, en engin af þeim spilar golf. Bróðursynir mínir tveir og bróðir spila.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?   Það var svona í kringum 1992-1993, sem ég byrjaði að fikta.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?   Félagar mínir sem stofnuðu Golfklúbb Vatnsleysustrandar með mér gáfu mér sett. – Ég gat ekki látið það spyrjast að hafa ekki farið út á völl með settið. Fyrstu árin fór Jörundur Guðmundsson með mér út á völl og kenndi mér hvernig ég átti að halda á kylfunni.

Hvað starfarðu?  Ég er hættur störum núna, en ég vann hjá  Íslenskum Aðalverktökum í 50 ár.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?    Ég þekki ekkert nema Strandvelli  – ég hugsa að mér líki betur við þá.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?   Holukeppni. Ég spila ekki mikið, en ég fer út á völl í 1-2 skipti á ári með vinnufélögunum og þá spilum við holukeppni.

Kálfatjarnarkirkja séð frá göngustígnum frá teig og að 5. braut. Sævar hefir sungið í kirkjukór Kálfatjarnarkirkju í 50 ár. Mynd: Golf 1

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?  Kálfatjarnarvöllur. Ég hef ekki spilað nema tvo aðra – ég hef einu sinni spilað á Sauðárkróki vegna þess að systir mín býr þar og svo hef ég spilað Grænanesvelli á Norðfirði.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Medinah golfvöllurinn hjá Chicago, þar sem Ryder bikars keppnin fer fram núna.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?    Kálfatjarnarvöllur – vegna þess að það er svo mikið af sögu og fornminjum inni á vellinum – grjótgarðarnir halda sér enn, þ.e. þeir upphaflegu, sem voru á milli túnanna og húsatóftir eru enn á sínum stöðum.

Kálfatjarnavöllur er líka sérstæðasti golfvöllur sem Sævar hefir spilað vegna fornminjanna á vellinum og þess að húsatóftir og upprunalegir garðar hafa verið látnir halda sér. Á myndinni má yfir garðana sjá 7. flötina – tjörnina sem er til hægri þegar slegið er á hana með hafið í baksýn. Myndin er tekin af 8. teig. Mynd: Golf 1

Hvað ertu með í forgjöf?   36 – Ég hef ekkert spilað neitt í neinum mótum – En þegar ég var í golfinu þá var ég kominn niður í 28.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   Ég man það ekki. Ætli það sé ekki 50 á 9 holum, hér (á Kálfatjarnarvelli).

Hvert er lengsta drævið þitt?  Ég hef ekki hugmynd um það.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?   Að hafa verið einn af stofnendum Golfklúbbsins á Vatnsleysuströnd – Ég er mjög hreykinn af því.

Hefir þú farið holu í höggi?  Nei.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Vatnsflösku.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?   Já, ég var í fótbolta og handbolta í Ungmennafélaginu Þrótti hér á árunum áður.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?    Uppáhaldsmaturinn minn er: lambalæri, uppáhaldsdrykkur: íslenska vatnið (það er sko hættulegt að drekka það víða erlendis t.a.m. í Albaníu og Króatíu þar sem Sævar var á síðasta ári – hann segist aldrei drekka nema vatn í flösku erlendis og mættu þeir fjölmörgu sem nú eru að spila golf erlendis hafa þetta hugfast!!!), uppáhaldstónlist: karlakórslög og kvartettlög og svoleiðis – ég syng sjálfur í kirkjukór Kálfatjarnarkirkju og hef sungið þar í yfir 50 ár;  uppáhaldskvikmyndin er: Stella í Orlofi og uppáhaldsbókin: eru golfreglurnar.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?    Uppáhalds karlkylfingur: Birgir Leifur Hafþórsson; Uppáhalds kvenkylfingur: Signý Arnórsdóttir.

Hvert er draumahollið?    Ég …. og Jörundur Guðmundsson, Andrés Guðmundsson og Davíð Hreinsson.

Hvað er í pokanum hjá þér?  Kylfur, golfkúlur, tí, hanski og gafall til að laga flatirnar.

Á vinstri hönd á par-3 8. braut Kálfatjarnarvallar – uppáhaldsgolfvelli Sævars

Hefir þú verið hjá golfkennara?   Nei, aldrei.

Ertu hjátrúarfullur?  Nei

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu?    Í golfinu að fara út á völl og hreyfa mig, ganga og taka því létt og það sama í lífinu að vera léttlyndur og hafa gaman af hlutunum og halda góða skapinu.

Hvað finnst þér best við golfið?   Hreyfingin og félagsskapurinn – aðallega félagsskapurinn, því ég spila eiginlega ekkert.

Ertu með gott ráð handa kylfingum? Það er bara að vera jákvæður og hafa gaman af golfinu og ekki agnúast út í hina sem ekki gengur vel.

Að síðustu: Hvað finnst þér hafa breyst annars vegar á Kálfatjarnarvelli s.l. 21 ár frá því klúbburinn var stofnaður og síðan svona almennt í golfinu ?

Aðstaðan hjá okkur í í golfinu er gjörbreytt – Þegar við vorum að byrja áttum við ekki völl eða skála vorum bara á túni, sem pabbi lánað. Svona almennt þá er  mjög jákvætt að krakkar eru byrjaðir og það mjög ungir og konur spila líka golf. Þetta voru bara karlaklúbbar hér áður fyrr. Það er jákvætt að konur og börn séu komin inn í þetta.