Ingunn Gunnarsdóttir
Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 14. 2012 | 18:00

Viðtalið: Ingunn Gunnarsdóttir, GKG.

Viðtalið í kvöld er við Ingunni Gunnarsdóttur, en hún var nú nýverið tilnefnd til titilsins Íþróttamaður Garðabæjar. Hún hlaut titilinn ekki að þessu sinni, en er búin að standa sig vel í golfinu s.l. sumar – varð m.a. klúbbmeistari kvenna í GKG 3. árið í röð. Ingunn skipti nú í haust um háskóla, stundar nám við Furman háskólann í Suður-Karólínu, en var áður í McLennan háskóla í Texas. Hér fer viðtalið við Ingunni:

Fullt nafn: Ingunn Gunnarsdóttir.

Klúbbur: GKG.

Hvar og hvenær fæddistu?   Ég fæddist í Cleveland, Ohio, 11. maí 1990.

Hvar ertu alin upp? Ég var fyrstu 3 árin í Bandaríkjunum og svo bara í Kópavoginum.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og er einhver af fjölskyldunni í golfi?  Ég bý hjá pabba og mömmu og á 3 bræður – 2 eldri, sem eru 23 og 25 ára og einn yngri, Jón Gunnarsson, 10 ára. Allir í fjölskyldunni eru í golfi og sérstaklega yngsti bróðir minn er mjög góður, hann er  kominn með undir 20 í forgjöf. Pabbi hefir aðallega verið í kaddýstörfum.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Ég byrjaði að keppa 13 ára.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?   Ég byrjaði bara af því að fjölskyldan er í þessu… var dregin út á völl grátandi og komst ekki hjá því (hlær) nei, nei…. Síðan byrjaði ég á barnanámskeiðunum og smám saman jókst áhuginn.

Ingunn Gunnarsdóttir, GKG og Furman. Mynd: Golf 1.

Hvað starfar þú?  Ég er námsmaður í Bandaríkjunum og yfir barnanámskeiðunum í GKG og  þjálfa stelpurnar í GKG á sumrin.

Voru mikil viðbrigði að koma til Bandaríkjanna frá Íslandi? Já, það voru viðbrigði að koma til Texas, það er mjög sérstakur staður.

Er mikill munur á völlunum í Bandaríkjunum og hér á Íslandi?  Já, grasið er öðruvísi og það þarf að pæla í öðrum hlutum á greenunum  – Svo er miklu meira af skógarvöllum.

Hvort líka þér betur skógar- eða strandvellir?  Strandvelli, af því ég er villt í drævunum. Annars finnst mér bæði skemmtilegt.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?   Holukeppni er alltaf mjög skemmtileg, en höggleikur getur refsað meira.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?  Vestmannaeyjavöllur og síðan er Leiran skemmtileg.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?   Ég spilaði á vellinum, þar sem Ryder verður eftir 2 ár, á Jack Nicklaus hannaða Centenary vellinum á Gleneagles – hann er uppáhaldsvöllurinn.

Uppáhaldsgolfvöllur Ingunnar erlendis: Gleneagles, Jack Nicklaus hannaði Centenary völlurinn.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Þorláksvöllur af því að hann er svolítið öðruvísi og Vestmannaeyjavöllur af því hann er svo fallegur.

Hvað ertu með í forgjöf?   1,9.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?  68 á Urriðavelli.

Hvert er lengsta drævið þitt?   Ég náði lengsta drævinu s.l. vetur – það var 350 yarda (320 metra) í bullandi meðvindi og niðurhalla.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?   Ég vann mót á Hellu á Eimskipsmótaröðinni. Svo varð ég unglingameistari í holukeppni og nokkrum sinnum Íslandsmeistari í sveitakeppni.

Hefir þú farið holu í höggi?  Nei.

Klúbbmeistarar GKG 2011 – Ingunn og Alfreð Brynjar. Mynd: GKG

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Kirsuberjatómata, þegar ég fæ birdie verðlauna ég mig með þeim. Svo er ég með hnetur og samloku með osti, tómötum og eggjum og vatn.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?   Já ég æfði allt þegar ég var lítil nema frjálsar. Ég var í ballet, tennis, jazz ballet og fleira; prófaði allt.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?  Uppáhaldsmaðurinn minn er allt sem pabbi gerir sérstaklega humarpasta; uppáhaldsdrykkurinn er íslenskt vatn; uppáhaldstónlistin mín er með Sigurrós; uppáhaldskvikmyndin er Juno og uppáhaldsbókin? Harry Potter er alltaf klassískur.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn, nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?   Kvk.: Michelle Wie  Kk:  Tiger Woods á golfvellinum ekki fyrir utan.

Hvað er í pokanum og hver er uppáhaldskylfan þín?  Það er allt Ping í pokanum – enda er ég kölluð Pingunn! Nánar tiltekið er eftirfarandi í pokanum:   Dræver: PING K15 1o,5° regular skaft; PING S57 járn með regular stálsköftum, 3 tré G10 PING, 5-Tré G5, wedgar PING Tour series regular stál sköft 60° 56° 52° 48°. Uppáhaldskylfan mín er pútterinn, sem er orðinn sæmilega gamall:  PG2 Anzer, en hann fékk ég þegar ég var 13 ára.

Ingunn Gunnarsdóttir, GKG og Furman. Mynd: Golf 1.

Hefir þú verið hjá golfkennara?   Ég hef farið tvisvar/þrisvar til golfkennara Derrick Moore – svo hef ég farið til svo margra í gegnum landsliðið.

Ertu hjátrúarfull?  Nei.

Hver er meginmarkmiðið í golfinu og hvert er meginmarkmiðið í lífinu?  Í golfinu er það að verða betri – í lífinu að ná langt.

Hvað finnst þér best við golfið?  Það að maður geti stundað það með öllum, fjölskyldu og vinum,  á öllum getustigum og maður  getur alltaf orðið betri, sama hversu góður maður er.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?   80% – Andlegi þátturinn er einmitt algjörlega það sem ég þarf að vinna í.

Gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?   Bara æfa sig og æfa sig síðan meira. Halda áfram þrátt fyrir slæmt gengi kannski. Maður uppsker eins og maður sáir.

Spurning frá fyrri kylfingi, sem var í viðtali hjá Golf1 (Eygló Myrru Óskarsdóttur, GO):  Myndir þú frekar vilja hafa kylfusvein eða ekki?   

Svar Ingunnar: Bara pabba, svo framarlega sem hann skiptir sér ekkert af!

„Pabbi má vera á pokanum svo framarlega sem hann skiptir sér ekki af!“ – Gunnar og Ingunn á Íslandsmótinu í höggleik í Leirunni 24. júlí 2011. Mynd: Golf 1.

Geturðu komið með spurningu fyrir næsta kylfing?   

Spurning Ingunnar: Hver er besta/fyndnasta golfsagan þín af golfvellinum?