Ragnheiður Jónsdóttir | október. 28. 2015 | 12:00

Viðtalið: Hörður Davíðsson – „Golfvöllurinn í Efri-Vík fer undir álfastíga og öskubirgi“

Frá árinu 1991 eða í 23 ár var starfræktur golfvöllur að Efri-Vík í Landbroti, sem er um 4 km frá Kirkjubæjarklaustri.

Það voru ábúendur Efri-Víkur, sem jafnframt eru eigendur Hótel Laka,  Hörður Davíðsson og eiginkona hans Salóme Ragnarsdóttir og dóttir þeirra hjóna og fjölskylda hennar, Eva Björk Harðardóttir,  sem ráku völlinn í tengslum við golfklúbbinn Laka, GLK.

Í Efri-Vík er auk Hótel Laka boðið upp á gistingu í sumarhúsum, alhliða veitingarekstur og veiðileyfi, auk annars spennandi tengdu ferðaþjónustu.

Hótel Laki í Efri-Vík hjá Kirkjubæjarklaustri

Hótel Laki í Efri-Vík hjá Kirkjubæjarklaustri

Efri-Víkurvöllur var hannaður af Hannesi Þorsteinssyni og var 9 holu, par 35/35 (par-70). Á gulum teigum var völlurinn 2399 m 66,2/106 en 1930 m 65,6/102 á rauðum.

Vegna veðursældar í Skaftárhreppi var hægt að spila á vellinum mikinn hluta ársins þó aðal starfsemin hafi þau 23 ár sem klúbburinn starfaði farið fram á tímabilinu maí – október.

Vallargjöld voru greidd á Hótel Laka   þar var einnig hægt að leigja golfsett og kúlur.

Golfklúbburinn Laki stóð ávallt fyrir einu móti á ári:  Hótel-Lakamótinu í byrjun september. Nú hefir klúbburinn hætt starfsemi og vellinum verið lokað, sem er miður.

Sumarhúsið við Hótel Laka

Sumarhúsin við Hótel Laka og túnin þar sem áður var Efri-Víkur golfvöllurinn

Golf 1 tók stutt viðtal við eiganda Hótel Laka og golfvallarins, Hörð Davíðsson,  um ástæðurnar fyrir lokun vallarins.

Golf 1: Eru einhverjar líkur á að þið opnið Efri-Víkur golfvöllinn aftur?

Hörður: Nei, við erum hætt með völlinn, við gáfumst upp.

Golf 1: Hverjar eru ástæðurnar fyrir því að völlurinn var lokaður?

Hörður: Völlurinn bar sig ekki –  það þurfti að greiða of mikið með honum á hverju ári. Við fengum heldur engan stuðning neins staðar.

Golf 1: Það er eftirsjá af Hótel Laka mótinu ykkar – hvernig taka félagsmenn Golfklúbbsins Laka þessu?

Hörður:  Málið var að  fólk var ekki að koma langt að á mótið. Það var aðallega áhugafólk sem var hér, sem lagði hönd á plóginn með að halda félagsstarfi uppi, en það fluttist burt og það var ekki endurnýjun á því.  – Þetta hefur bara æxlast þannig. Hingað hafa ekki fluttst golfáhugamenn. Við vorum orðin eyland.

Það er fagurt í kringum Hótel Laka í Landbroti. Mynd: Golf 1

Það er fagurt í kringum Hótel Laka í Landbroti. Mynd: Golf 1

Golf 1: Hvað gerist núna með Efri-Vikur golfvöllinn ykkar?

Hörður: Hann fer undir ferðatengda starfsemi fyrir hótelið.

Golf 1: Hvaða starfsemi þá?

Hörður:  Við erum að útbúa svona gamlan 3 bursta torfbæ, sem verður á golfvellinum, með ýmsu sem honum fylgir og erum að skipuleggja fræðslustíg sem lendir inn á golfvellinum ásamt álfakirkju og álfasögum og fuglaskoðunarhúsi og gömlum mannvistarleifum ásamt öskubirgi.

Golf 1: Öskubirgi?

Hörður: Öskubirgið gróf ég inn í lítinn hól byggði yfir hann birgi. Þar er hægt að lesa gossöguna í 1000 ár – Það er gaman. Þetta er eldfjallasagan – goslögin svo skýr um allt land og hér er nóg af öskulögum.

Það er spennandi valkostur að heimsækja Efri-Vík og álfastíginn með álfakirkjunni og álfasögum og eins öskubirgið, sem er stórmerkilegt framtak eins manns, Harðar Davíðssonar. Þess mætti í blálokin geta að við Kirkjubæjarklaustur sjást oft dásamlega falleg norðurljós og vel þess virði að gista á Hótel Laka líka á veturnar vegna þess eins – og síðast en ekki síst vegna höfðinglegs hlaðréttarborðs, þar sem boðið var upp á ýmislegt nammilegt.

Norðurljós við Hótel Laka í Efri-Vík

Norðurljós við Hótel Laka í Efri-Vík