Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 10. 2013 | 20:00

Viðtalið: Gylfi Sigfússon GR og GV

Þann 14. júní 2012 var stofnaður Afrekssjóður kylfinga, Forskot, en stofnaðilar voru 5, þ.e. : GSÍ, Eimskip, Icelandair Group, Íslandsbanki og Valitor.  Markmið sjóðsins er að styðja íslenska kylfinga, sem stefna að því að komast í fremstu röð í heiminum í golfíþróttinni, með það að markmiði að við Íslendingar komum að okkar fulltrúum, þ.e. kylfingum, á Ólympíuleikana 2016, en til þess þurfa þeir að ná inn á atvinnumótaraðirnar Evrópumótaraðirnar (karla/kvenna), LPGA og PGA. Tveir til fimm kylfingar munu verða styrktir á hverju ári og í fyrra var úthlutað 15 milljónum. Það er fagteymi, með landsliðsþjálfara í broddi fylkingar, sem velur styrkþega hverju sinni.

Einn þeirra sem undirritaði stofnsamninginn er forstjóri Eimskip, en hann er sjálfur er mikill kylfingur.  Mótaröð bestu kylfinga á Íslandi ber jafnframt heiti fyrirtækis hans, enda er Eimskip einn helsti styrktaraðili hennar.  Viðtalið í kvöld er við forstjóra Eimskip.

Eftir undirritun stofnsamnings Forskots, Afrekssjóðs kylfinga, þann 14. júní 2012. Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips er 2. frá hægri.

Eftir undirritun stofnsamnings Forskots, Afrekssjóðs kylfinga, þann 14. júní 2012. Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips er 2. frá hægri. Mynd: gsimyndir.net

Fullt nafn: Gylfi Sigfússon.

Klúbbur:  GR og GV.

Hvar og hvenær fæddistu?  Í Vestmannaeyjum, 23. febrúar 1961.

Hvar ertu alinn upp?   Í Vestmannaeyjum til 8 ára aldurs og svo var ég í Eyjum af og til, til 18 ára aldurs.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?   Ég er kvæntur og á 2 stráka: Gylfa Aron (f. 1986) og Alexander Aron (f. 1990).  Strákarnir mínir spila golf og konan mín kann á því tökin, en er alltaf að tala um að fara í golf á fullt. Hún hefir mikið verið  að fylgja yngri stráknum okkar erlendis í golfi.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Ég byrjaði 1982 í golfi; keypti mér rauðan Dunlop poka og blade kylfur og dræverinn minn var með skrúfum í. Ég spilaði samt ekkert af viti fyrr en 1996, þegar ég flyt til Bandaríkjanna. Strákarnir mínir voru þá 5 og 10 ára og ég og eldri strákurinn minn kenndum kylfunum ótt og títt um leik okkar, skiptum þeim út og Alexander (sá yngri) fékk alltaf afgangskylfurnar. Hann fór samt langt fram úr okkur í golfi og er alinn upp við það að labba með pabba sínum og eldri bróður frá 5 ára aldri.  Ég byrjaði sem sagt að spila með strákunum mínum.  Það eru svo margir sem segja að golf sé tímaþjófur, en það er bara lumma. Þetta eru góðar samverustundir með fjölskyldunni. Svo er golf líka mikill hluti af viðskiptalífinu í Bandaríkjunum og er mikið notað t.d. þegar verið er að kynnast nýjum viðskiptavinum. Maður varð bara að vera með annars var bara litið á mann sem eitthvað viðundur.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Þegar ég horfði út um gluggann minn í Breiðholti kringum 1980 sá ég oft stórskrítna náunga í köflóttum fötum með derhúfu vera að slá kúlum í Elliðaárstífluna. Þarna var m.a. á ferð stórkylfingurinn Sigurjón Arnarsson. Þá voru ekki svo margir í golfi, það er í raun ótrúlegt hvað margir spila í dag, þó þeir séu ekki fagmenn. Það er allt að aukast í kringum golfið.  Mér fannst þetta skrítið þarna 1980 og maður þurfti bara að fá sér sett.

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskip

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskip. Mynd: eyjan.pressan.is

Af hverju er Eimskip að styrkja golfíþróttina? Hún stendur fyrir svo margt sem okkur finnst gott. Golfið er auðveldur vettvangur til að ná viðskiptavinum saman og eiga góða stund innan sem utan vallar. Golfíþróttin hefir mörg góð og gild gildi s.s. heiðarleika og með því að stunda hana sér maður hvernig menn hegða sér í business. Við erum t.a.m. ekki mjög hrifnir af mönnum sem eru alltaf að týna kúlunum sínum út í skógi, telja höggin sín ekki rétt eða svindla. Golfleikurinn endurspeglar hvernig menn koma til með að hegða sér í viðskiptum og hann er góð leið til að kynnast tilvonandi viðskiptavinum. Svo er golf bara góð útivera. Það er oft gott að komast úr ys viðskiptalífsins og vera úti í náttúrunni.

Styrkir Eimskip aðrar íþróttir?  Já, fótbolta – vegna þess að fótboltinn ásamt golfinu eru tvær vinsælustu íþróttir á Íslandi.

Hver hafði frumkvæði að stofnun Afreksjóðsins Forskots?  Það voru GSÍ og Icelandair. En allir 5 aðilarnir sem koma að Forskoti vildu úthluta styrkjum með aðkomu fagfólks en það er landsliðsþjálfarinn sem kemur með tillögu um hver hlýtur styrki hverju sinni. Við eigum mikið af efnilegu ungu fólki sem við horfum mikið til.

Nú var úthlutað 15 milljónum í fyrra – er ætlunin að um svipaða upphæð verði að ræða í ár  eða hækkar hún?  Það er sama upphæð á hverju ári – Það er ekki endilega takmark að tæma sjóðinn hverju sinni en styrkurinn verður svipaður og áður.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?  Ég er hrifinn af sjónum og er eins og lundinn, sem þarf að sjá sjó. Ef ég kem að sjávarvelli og hann leiðir mig út að strönd þarf ég oft meiri tíma ef ég verð hrifinn af útsýninu.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Mér líkar betur við höggleik. Mér finnst ekki gaman þegar menn eru alltaf að taka upp boltana, menn verða  að gefa sér tíma í golfið.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?   Vestmannaeyjavöllurinn.

Vestmannaeyjavöllurinn er uppáhaldsvöllur Gylfa á Íslandi

Vestmannaeyjavöllurinn er uppáhaldsvöllur Gylfa á Íslandi

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?    Þeir eru margir t.d. Eastern Shores, sem eru Palmer og Nicklaus vellir í norðurhluta Virginíu. Síðan er skemmtilegur völlur á Hawaii – Kuki´o.

Frá einum uppáhaldsgolfvalla Gylfa erlendis, Kuki´o á Hawaii.

Frá einum uppáhaldsgolfvalla Gylfa erlendis, Kuki´o á Hawaii.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Guangzhou golfsvæðið í Kína er með þeim sérstæðari. Aftan á golfbílnum stóðu tveir krakkar sem voru sífellt að pússa kylfurnar og þegar maður sló út í skóg gengu fram 10 krakkar og 1 lyfti flaggi um að maður hefði slegið út af. Að spila golf þarna var sérstakt vegna mikillar þjónustu sem fékkst.

Frá Lotus Hill í Guangzhou í Kína.

Frá Lotus Hill í Guangzhou í Kína – sérstakur vegna mikillar þjónustu á vellinum.

Annars finnst mér hraunvellir líka mjög sérstakir t.d. fyrri 9 á Hvaleyrinni. Brautirnar og sérstaklega flatirnar á þeim völlum eru yfirleitt eins og dúkur eða fallegt stofuteppi og maður vill varla slá.

Hvað ertu með í forgjöf?  15,1.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   78 högg á Honey Bee golfvellinum á Virginia Beach.

Frá golfvelli Rees Jones, Honey Bee á Virginia Beach, þar sem Gylfi hlaut lægsta skor sitt 78 högg

Frá Honey Bee á Virginia Beach, golfvelli hönnuðum af Rees Jones, þar sem Gylfi náði lægsta skor sínu – 78 höggum

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Það er örninn sem ég fékk á par-4 3. holuna á Vestmannaeyjavelli.

Hvert er lengsta drævið þitt? Það eru 230 yardar í góðu rennsli niður í móti.

Hefir þú farið holu í höggi?  Nei. En mér finnst alltof magir hafa farið holu í höggi í kringum mig, sem er óþolandi.  Ég hef nokkrum sinnum verið nálægt því.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Það tekur breytingum. Ég er yfirleitt með samlokur, heilsubita. Það er gríðarlega mikilvægt að vera með eitthvað til að narta í t.d. orkustangir og svo er ég líka annaðhvort með vatn eða sódavatn.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?   Já, já, ég var mikið í íþróttum sem strákur og formaður íþróttafélagsins í MH. Ég var mest í fótbolta en var líka   fínn í borðtennis og snóker og billiard, svo var ég eitthvað í körfunni og handboltanum.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Fyrst verð ég að segja að ég er ekki týpa sem á mér átrúnaðargoð eða uppáhalds þetta eða hitt – Ég reyni bara alltaf að tileinka mér það besta, sem ég sé hjá öðrum. En hvað matinn snertir þá er  góð Rib Eye, medium rare nautasteik með bernaise sósu í uppáhaldi; uppáhaldsdrykkurinn er diet kók; uppáhaldstónslist: ég er ekki mikið fyrir rapp og heavy rokk en er nánast alæta á annað og finnst gaman að fylgjast með því nýjasta hverju sinni og svo er Presley í uppáhaldi ; uppáhaldskvikmynd: Það eru Being There og The Intouchables (sjá trailer af uppáhaldsmynd Gylfa með því að SMELLA HÉR:). Loks er eftirminnilegasta bókin sem ég hef lesið „Ég lifi“ eftir Martin Gray.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?  Kk.: Strákarnir mínir og Bubba Watson. Kvk.: Michelle Wie. Við Alexander fylgdumst eitt sinn með henni á LPGA-móti og hún áritaði hattinn hans.

Eimskip, mikill styrktaraðili golfs á Íslandi. Mynd: Golf 1.

Eimskip, mikill styrktaraðili golfs á Íslandi. Mynd: Golf 1.

Hvert er draumahollið?   Ég og…  strákarnir mínir og Mickelson.  Konan mín er auðvitað með.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?   Í settinu mínu eru TaylorMade kylfur og Odyssey pútter, sem er ágætur en strákurinn minn gaf mér Scotty Cameron. Uppáhaldskylfan mín er 5-tréð mitt.

Hefir þú verið hjá golfkennara?  Já og þeir segja alltaf að ég sé með símaklefasveiflu. Ég hef a.m.k. aldrei skaðað á mér bakið í baksveiflunni.

Ertu hjátrúarfullur?   Já,  ég stíg t.d. ekki á línur í gangtétt og fer með ákveðnum hætti í hanskann og stundum er ekki gott að vera fyrstur á teig og fleira í þeim dúr.

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu?  Í golfinu er það að gera mitt besta og gera betur í dag en í gær og það fer saman við markmiðið í lífinu.

Hvað finnst þér best við golfið?   Það er keppnin við sjálfan mig – að gera alltaf betur, útiveran, gangan sem maður fær alltof lítið af og samveran við mismunandi fólk. Ég hef gaman af golfi, æfi nánast aldrei, en vind mér í golfið 1 sinni í viku á sumrin. Þetta eru dýrmætar stundir með fjölskyldunni. Maður hefir ekki alltaf þann munað að vera með strákunum sínum og konu – unglingana hefir maður e.t.v. aðeins hjá sér í 15 mínútur, en úti á golfvelli erum við 4 í 4 1/2 tíma.  Svo er gaman við golf að það geta verið 3 kynslóðir að spila saman, ólíkt öðrum íþróttum.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?   Það er lítið sem truflar mig andlega í golfi. Ætli andlegi hlutinn sé ekki í kringum 30%.  Hitt kemur sjálfkrafa. Ég er þessi leiðinlegi, stöðugi, beini, ég er ekki að koma einn daginn og spila út og suður. Ég klára völlinn á bogey-inu mínu og er aldrei að spá í þann sem ég er að keppa við og truflast ekki af öðrum við hliðina á mér.

Að lokum: Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum? Já, að taka þessu ekki allt of alvarlega og hafa gaman af þessu og láta ekki suma meðspilara fara í taugarnar á sér. Það er alltof mikið um það. Það er best að horfa á sjálfan sig sem útvarpsstöð og tjúna sig inn á meðspilarana í hvert sinn. Besta ráðið er að hafa gaman af því sem maður er að gera og gera sitt besta.

Að síðustu: Hvað finnst þér um konur og golf?   Mér finnst frábært að konur séu í aukum mæli að koma í golfið.