Gunnhildur Kristjánsdóttir, GKG. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 28. 2012 | 21:30

Viðtalið: Gunnhildur Kristjánsdóttir, GKG

Meðal keppendanna 26 í kvennaflokki á Örninn golfverslun 1. móti Eimskipsmótaraðarinnar var Gunnhildur Kristjánsdóttir, GKG og var hún næstyngst kvennanna, sem þátt tóku eða 15 ára.

Um síðustu helgi sigraði Gunnhildur í sínum aldursflokki 15-16 ára á Unglingamótaröð Arion banka á Garðavelli upp á Akranesi. Hér er því á ferðinni ungur og efnilegur kylfingur. Hér fer viðtalið:

Gunnhildur slær af 1. teig í Leirunni á fyrri keppnisdegi á Örninn Golfverslun, 1. móti Eimskipsmótaraðarinnar, 26. maí 2012. Mynd: Golf 1

Fullt nafn: Gunnhildur Kristjánsdóttir.

Klúbbur: GKG.

Hvar og hvenær fæddistu? Ég fæddist í Reykjavík, 9. nóvember 1996.

Hvar ertu alin upp?  Ég er alin upp í Kópavogi.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf? Ég bý með foreldrum mínum og eldri bróður mínum. Við erum öll í golfi.

Gunnhildur (t.v.) ásamt hollinu sínu, Maríu Málfríði Guðnadóttur, GKG, (f.m.) og Jódísi Bóasdóttur, GK, (t.h.) í Leirunni, seinni keppnisdag, 27. maí 2012, á Örninn Golfverslun, 1. móti Eimskipsmótaraðarinnar 2012 Mynd: Golf 1

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Ég byrjaði að fara á sumarnámskeið þegar ég var 8 ára og fór fljótlega eftir það í GKG.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi? Öll fjölskyldan var í golfi.

Í hvaða skóla ertu? Ég er að útskrifast úr Hörðuvallaskóla.

Er þetta í fyrsta skipti sem þú sigrar á golfmóti?: Þetta er í fyrsta skipti sem ég sigra á Arion bankamótaröðinni en ég hef áður unnið önnur golfmót.

Lýstu tilfinningunni þegar ljóst var að þú hefðir unnið? Frábær tilfinning.

Hollið sem Gunnhildur var í upp á Skaga á Unglingamótaröð Arion banka. F.v. : Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, Gunnhildur og Stefanía Elsa Jónsdóttir, GA. Mynd: Golf 1

Hver eru markmiðin fyrir sumarið – ætlar þú ekki að keppa áfram í Unglingamótaröð Arion banka? Jú ég ætla að keppa á unglingamótaröðinni í sumar og markmiðið er að standa mig vel þar og lækka mig í forgjöf.

Hvað æfir þú mikið á dag? Yfir sumartímann reyni ég að vera sem mest úti á golfvelli og æfi flesta daga 3-6 tíma. Ég reyni svo líka að spila mikið. Á veturnar æfi ég 3-6 tíma á viku.

Kanntu einhverja skemmtilega golfsögu af þér af golfvellinum? Ég var fyrir nokkrum árum að keyra golfbíl á Spáni og var nýkomin yfir brú þegar ég steig bensínið í botn, tók u-beygju og keyrði ofan í skurð. Sem betur fer slasaðist enginn.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli? Strandavelli.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Holukeppni hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér, en mér finnst höggleikur líka mjög skemmtilegur.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi? Leiran er í miklu uppáhaldi.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum? Ég á engan uppáhaldsgolfvöll í heiminum, heldur finnst mér gaman að spila nýja velli.

Hvað ertu með í forgjöf? 8,3

Vinkonurnar Gunnhildur Kristjánsdóttir (t.v.) og Særós Eva Óskarsdóttir (t.h.), báðar í GKG, á Opna Páskamóti Hellishóla, 7. apríl s.l. Mynd: Golf 1

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því? 79 högg, á Hvaleyrinni og í Leirunni.

Hvert er lengsta drævið þitt? Ég veit það ekki, hef bara aldrei mælt þannig.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu? Líklega er það sigurinn í mínum flokki á Arionbankamótaröðinni á Akranesi í vor, svo hef ég nokkrum sinnum unnið minn flokk í meistaramótinu í klúbbnum mínum.

Hefir þú farið holu í höggi?  Nei, ég bíð enn eftir því.

Hvaða nesti ertu með í pokanum? Ég er  yfirleitt með nokkra ávexti, skyr, seasamstöng, brauð og vatn.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum? Já, ég hef æft margar íþróttir en lengst var ég í fótbolta.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhalds maturinn minn er humar og nautalund, uppáhaldsdrykkurinn minn er vatn, ég hlusta mest á Kanye West, en ég á hvorki uppáhalds kvikmynd né bók.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing? Rory McIlroy og Michelle Wie.

Gunnhildur Kristjánsdóttir, GKG, á Opna Icelandair Golfers mótinu, 12. maí 2012. Hér á 9. flöt Hvaleyrarinnar. Gunnhildur varð í 4. sæti í punktakeppninni og 30. sæti í höggleiknum af 142 keppendum. Mynd: Golf 1

Hvert er draumahollið? Ég, Tiger Woods, Rory McIlroy og Michael Jordan.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín? Í pokanum er ég með Mizuno járnasett, Titleist 52°, 56° og 60°, Cobra 5-tré, Taylormade driver og Odyessey pútter.

Hefir þú verið hjá golfkennara/hver er þjálfarinn þinn? Já, ég hef haft marga góða golfkennara í gegnum tíðina, þjálfararnir mínir eru Derrick Moore og Hlynur Þór.

Ertu hjátrúarfull? Nei.

Hvert er meginmarkmiðið í golfinu og í lífinu? Markmiðið mitt í golfinu er að komast í háskóla í Bandaríkjunum. Markmiðið í lífinu er að vera hamingjusöm og njóta hverrar mínútu.

Hvað finnst þér best við golfið? Útiveran og félagsskapurinn.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?  Ég veit það ekki, en hún er mjög há.

Að lokum: Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum? Ekki gefast upp þó að það gangi illa, maður getur alltaf dottið í gírinn.