Guðríður Vilbertsdóttir, GS
Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 8. 2014 | 20:45

Viðtalið: Guðríður Vilbertsdóttir – GS

Viðtalið í kvöld er við kylfing, sem tók þátt í 1. móti afmælismótaraðar GS s.l. helgi og stóð sig vel.

Ingvar Jónsson, GÞ; Óskar Gíslason, GÞ; Guðríður Vilbertsdóttir, GS.

Ingvar Jónsson, GÞ; Óskar Gíslason, GÞ; Guðríður Vilbertsdóttir, GS. Mynd: Golf 1

Fullt nafn: Guðríður Vilbertsdóttir.

Klúbbur:   GS.

Hvar og hvenær fæddistu?   Ég er fædd að Minni-Ólafsvöllum Skeiðahrepp, 1. september 1954.

Hvar ertu alin upp?   Hér og hvar um landið til 16 ára aldurs en þá flutti ég í Sandgerði, þar sem ég bjó í 2 ár en upp frá því hef ég búið í Reykjanesbæ.

Í hvaða starfi ertu? Ég er umsjónarmaður í Njarðvíkurskóla.

3-gudridur

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?   Það er bara ég núna. Hér áður fyrr lék barnabarnið mitt, Gabríel, golf, en hann hefur meiri áhuga á körfubolta núna.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?   Fyrir 6-7 árum.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?    Vinkona mín Harpa varð til þess að ég byrjaði í golfi. Svo á ég líka sumarbústað í Borgarfirði og Hamarsvöllur er aðeins í 10 mínútna fjarlægð frá bústaðnum.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?   Ég kann eiginlega við hvorutveggja. Á Hamarsvelli er mikið af trjám og mér líkar vel við þann völl, en svo er heimavöllurinn (Hólmsvöllur í Leiru) bestur þar sér maður vítt og breitt til allra átta.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?   Holukeppni – það er minna stress.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?    Það er heimavöllurinn – Hólmsvöllur í Leiru.

Það ætti engum að koma á óvart að heimavöllurinn, Hólmsvöllur í Leiru er uppáhaldsgolvöllur Guðríðar á Íslandi

Það ætti engum að koma á óvart að heimavöllurinn, Hólmsvöllur í Leiru er uppáhaldsgolvöllur Guðríðar á Íslandi

Hver er uppáhaldsgolfholan á Íslandi? Bergvíkin. Ég verð alltaf jafnundrandi þegar ég fer í sjóinn!

Bergvíkin er uppáhaldsgolfhola Guðríðar. Mynd: GS

Bergvíkin er uppáhaldsgolfhola Guðríðar. Mynd: GS

Hefir þú spilað alla velli á Íslandi?  Nei, en ég hef spilað alla velli á Suðurnesjum (heimavöllinn, Hólmsvöll, Kirkjubólsvöll, Húsatóftavöll og Kálfatjarnarvöll), svo hef ég spilað Hamarsvöll í Borgarnesi, Grafarholtið og Jaðarsvöll á Akureyri.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?   Mér finnst vellirnir í Flórída fallegir.

Guðríði finnst vellirnir í Flórída fallegir

Guðríði finnst vellirnir í Flórída fallegir

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju? Það er Jaðarinn á Akureyri.  Það sem mér fannst sérstakt var að  teigastæðin voru oft upphækkuð og maður sló niður á flatir eins og t.d. á par-3 4. holunni og á par-3 18. holunni.

 Hvað ertu með í forgjöf? 28,9.

Frá Jaðarsvelli. Mynd: Golf 1

Frá Jaðarsvelli. Mynd: Golf 1

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?    Það eru 104 högg á Hólmsvelli – ég stefni að því að komast undir 100 í sumar.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?   Ætli það sé ekki bara að hafa byrjað í golfinu.  Fyrir nokkrum árum kunni ég ekkert í golfi.

Hefir þú farið holu í höggi?   Já, bara 1 sinni á 3. holu á Jóelnum.

Spilar þú vetrargolf?  Já, ég hef spilað alveg síðan í janúar í Sandgerði – tók þátt í vetrarmótunum þar.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?     Smurt brauð, vatn og banana.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?     Ég hef aldrei keppt í íþróttum en hef verið mikið í hestamennsku.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Íslenskt lambakjöt; uppáhaldsdrykkurinn? íslenskt vatn; uppáhaldstónlist? íslensk dægurlög; uppáhaldskvikmynd? Stella í orlofi; uppáhaldsbók? Allt eftir Yrsu Sigurðardóttur, ég vona bara að þeir fari að búa til kvikmyndir byggðar á bókunum hennar – það eru bara engin jól ef ég fæ ekki bók eftir Yrsu!

Notarðu hanska? Já, á vinstri hendi.

Guðríður Vilbertsdóttir. Mynd: Golf 1

Guðríður Vilbertsdóttir. Mynd: Golf 1

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?    Kvk: Karen Sævars.   Kk:  Birgir Leifur.

Hvert er draumahollið?   Ég og….  Victor Dubuisson, Michelle Wie og Nick Faldo.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?    Ég var að fá nýtt Callaway-sett fyrir viku síðan, keypt í bestu golfbúð á Íslandi; Golfbúðinni í Hafnarfirði.  Nike-dræverinn minn er samt í mestu uppáhaldi.

Hefir þú verið hjá golfkennara?  Já, ég hef verið hjá Erlu Þorsteins og Rögnvaldur kom og kenndi okkur hér. Erla kom í veg fyrir að ég hætti í golfi. En svo gáfu sonur minn og tengdadóttir mér 4 tíma hjá Magnúsi Birgissyni, golfkennara og ég er að fara í tíma til hans í maí.

Ertu hjátrúarfull?     Já, ég er mjög hjátrúarfull. Ef mér gengur vel í móti passa ég upp á að mæta í sömu fötum í næsta mót.  Ég geri það sama með Njarðvíkurliðið í körfubolta. Ef þeim gengur vel mæti ég í sömu fötum á næsta mót til að hvetja þá áfram!

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu?   Að gera alltaf betur í golfinu. Í lífinu er það að vera jákvæð, að vanda mig við vinnuna mína, og njóta síðan að vera í sumarbústaðnum og spila golf.

Hvað finnst þér best við golfið?   Útiveran og hreyfingin.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?    Fremur há svona 80-90%

Að lokum: Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?   Muna eftir að vera jákvæðir úti á velli – Það skiptir öllu!