Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 8. 2011 | 20:00

Viðtalið: Guðmundur Einarsson, GSG.

Það kannast allir kylfingar, sem á annað borð spila á Kirkjubólsvelli í Sandgerði við Guðmund Einarsson, framkvæmdastjóra klúbbsins. GSG fagnaði einmitt 25 ára afmæli sínu í ár, en klúbburinn var stofnaður 1986.  Það er alltaf jafnhuggulegt að koma á Kirkjubólsvöll, sérstaklega á haust- og vetrarmótunum þegar heitar vöfflur og sælkersúpur bíða að leik loknum hjá þeim Guðmundi og Öldu. Nú á laugardaginn, 10. desember 2011, fer fram „Skötumótið“ sem er orðinn árviss viðburður hjá klúbbnum, en þar er göldruð fram einhver sú kæstasta skata sunnan Vestfjarða. Hér fer viðtalið við Guðmund:

Fullt nafn: Guðmundur Einarsson.

Klúbbur: GSG.

Hvar og hvernær fæddistu?  Í Reykjavík, 16. júlí 1951.

Hvar ertu alinn upp? Fyrstu árunum eyddi ég í sænsk-íslenska frystihúsinu. Þar bjuggu foreldrar mínar í 2 herbergjum, sem sneru út að sjónum – Dægradvölin mín að telja skip og bíla, þar sem Seðlabankinn er nún. Þegar ég var  6 ára fluttumst við að Grundargerði 18, sem er gata sem liggur eins og Grensásvegur beint fyrir ofan Hagkaup í Skeifunni. Þar átti ég heima til ársins 1975 en þá byrjaði ég að vinna í Sandgerði og kynntist konunni minni 1979-1980. Við settumst að í  Sandgerði.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður – Er einhver í fjölskyldunni, sem spilar golf?  Ég er kvæntur Öldu Elíasdóttur og á 2 börn, Elías og Ása. Konan mín var í golfi en er eiginlega hætt. Ása  hótar syninum því að um leið og hann nái tökum á skapinu þá byrji hún í golfinu.  Ég á  5 barnabörn (Óskar Marinó er  í golfi  og sá yngsti Theódór, 4 ára, yngsti klúbbmeðlimur í Sandgerði var skírður í klúbbhúsinu.)

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Árið 1985 í Sandgerði.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi? Það er nú það, Menn fengu hérna bakteríuna og fóru að stelast í matartímanum – fannst þetta ekkert sérstakt en bakterían ágerðist smávegis og hefur verið stanslaus síðan.  Á tímabili  var ég í báðum klúbbunum  þ.e. ég var í Leirunni í 1-2 ár.

Hvað starfar þú? Ég er framkvæmdastjóri GSG.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvöll?  Ég geri ekki upp á milli þeirra – báðir hafa sinn sjarma.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleik?  Holukeppni er óskaplega skemmtileg en aftur á móti finnst mér punktakeppni skemmtilegri en höggleikur því hægt er að taka upp kúluna ef illa gengur en það er ekki hægt í höggleik – þetta er allt jafnskemmtilegt… ef maður er með góðu og skemmtilegu fólki.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi? Fyrir utan Kirkjubólsvöll er það Lundsvöllur í Fnjóskadal – ég er mikið skotinn í honum.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Vilamoura I í Portúgal.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Pinecliff í Portúgal er sá sérstæðasti, vegna þess að maður slær yfir gilið á síðustu brautinni. Það var flott, ég fékk í magann þegar ég sló af teig því ég var svo hræddur við að fara ofan í gilið.

Hvað ertu með í forgjöf?  13,9 (Hún fylgist að forgjöfin, aldurinn og þyngdin – allt á uppleið, aldurinn svolítið afstæður spilaði með einum 70 ára í meistaramótinu og honum fannst hann ekkert vera svo gamall.)

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?  75 á gamla Kirkjubólsvellinum.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Jesús Kristur, það má Guð almáttugur vita – Að koma upp þessum blessaða 18 holu velli. Ég hef ekki gert neinar rósir í golfinu – en samt er nú alltaf eitthvað – ég er búinn að fá birdie á allar holur og fékk eagle á báðar par-5 brautirnar og 8. sem er 11. núna (setti niður 120 metra högg).

Hvaða nesti ertu með í pokanum?  Vatn eða Poweraide stundum sting ég niður flatkökum með hangikjöti.

Hefur þú tekið þátt í öðrum íþróttum? Í gamladaga, sem gutti var ég í handbolta og fótbolta, með Víking (smáíbúðarhverfinu).

Hver er ppáhaldsmatur, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbókin þín ? Steiktur fiskur er minn uppáhaldsmatur, uppáhaldsdrykkurinn? Mér finst Cognac voða gott; uppáhaldstónlist? Ég er alæta og alveg sama á hvað ég hlusta; uppáhaldkvikmynd: Einhver af Bond-myndunum, ég er voða hrifinn af þeim og uppáhaldsbókin? Ég les voðalega lítið – síðasta bókin sem ég las og skemmti mér mikið yfir var bókin Golfaragrín.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn, nefndu 1 kven- og 1 karlkylfing? Kvk.:  Ragnhildur Sigurðardóttir  og  Kk.: Phil Mickelson.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  K15 PING dræver, G15 3-tré, 5 tréð mitt, PING g15 járnasett  u-wedge -4 60° járn eitthvað sem ég sem ég fékk á útsölu. Uppáhaldskylfan mín er  5-tréð. Það er 20 ára gömul kylfa Pro Simon Jumbo 747. Ég er rosalega hrifinn af henni . Ef allt annað klikkar tek ég hana upp. Ég átti sett dræver og 3-tré en lét þær í skiptum fyrir eitthvað drasl og sé mikið eftir því. – Þetta er mjög góðar kylfur.

Ertu hjátrúarfullur?  Nei, tja nema ég legg  kerruna/settið  alltaf eins frá mér þegar ég er að slá.

Meginmarkmið í lífinu? Æ, ég veit það ekki – Ætli það sé ekki að verða ekki leiðinlegt gamalmenni.

Hvað finnst þér best við golfið? Útiveran og félagsskapurinn – þó félagsskapurinn sé stundum misjafn.

Að síðustu:

Spurning frá síðasta kylfingi (Hlyni Geir Hjartarsyni, framkvæmdastjóra GOS),  sem var í viðtali hjá Golf 1:

Hefur þú komið á Selfoss og spilað golf?  Svar Guðmundar:  Já,ég hef spilað Svarfhólsvöll og mér líkaði mjög vel við hann áður en þeir breyttu honum þ.e. áður en að 2.-3.braut var breytt. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með breytingarnar. Annars líkar mér mjög vel við hann. En ég hef ekki spilað hann í 1-2 ár.

Getur þú komið með spurningu fyrir næsta kylfing sem Golf 1 tekur viðtal við?   

Spurning Guðmundar:  Hefur þú spilað á Kirkjubólsvelli og ef þú hefur spilað hann hvernig líkar þér hann?