Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 26. 2011 | 14:00

Viðtalið: Gauti Grétarsson, NK.

Í vor tók Golf 1 viðtal við landsþekktan sjúkraþjálfara, sem er flestum íslenskum kylfingum, sérstaklega afrekskylfingunum okkar, að góðu kunnur. Hér er auðvitað átt við Gauta Grétarsson, NK, sem sjálfur spilar golf – tók m.a. þátt í 1. móti sumarsins 2011 á Eimskipsmótaröðinni upp á Skaga, 28. maí s.l. Gauti er með marga af okkar bestu kylfingum í þjálfun hjá sér og er með tæki, sem m.a. bæta púttstrokuna og æfingar fyrir axlir, hendur og mjaðmir, sem bæta sveifluna. Fyrir þá sem eru farnir að huga að jólagjöfunum og ætla t.d. að gefa kylfingi, sem á allt, gjöf, þá er margt vitlausara en að gefa viðkomandi tíma hjá Gauta! Það sama á auðvitað við um alla aðra, því Gauta er það lagið að fá það besta úr hverjum kylfingi, s.s. Rúnar Arnórsson, GK, afrekskylfingur getur borið vitni um, en hann var einmitt að koma úr tíma hjá Gauta þegar Golf 1 bara að garði í vor. Rúnar sagði um Gauta: „Mér finnst hann rosa góður, hann er fínn og hefir gert mikið fyrir mig.“

Hér fara spurningar Golf 1 og svör Gauta:

Fullt nafn:  Gauti Grétarsson.

Klúbbur: NK.

Hvar fæddistu og hvar ertu alinn upp? Ég fæddist 22.júní 1960 í Reykjavík og er alinn upp á Seltjarnarnesi og í Þrándarlögum í Noregi.

Fjölskylduaðstæður?  Konan mín heitir Hildigunnur Hilmardóttur og ég á 3 börn. Af þeim er yngsti sonurinn í golfi.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Þrítugur.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi? Ég hætti í handbolta (spilaði með Gróttu) og þurfti eitthvað annað.

Hvað starfar þú?  Ég er sjúkraþjálfari og þjálfa Gróttu.

Hvað er meira í uppáhaldi hjá þér skógar- eða strandvöllur?  Það er jafngaman á báðum – var á skógarvelli í síðustu viku og á strandvelli fyrir 3 vikum – hvorutveggja er jafnskemmtilegt (NB: viðtalið við Gauta var tekið 21. maí 2011)

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur? Holukeppni, því það er meiri keppni.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi? Vestmannaeyjar.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Vestmannaeyjar.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og hvað er sérstakt við hann? Geysisvöllur, vegna þess að hann er krefjandi og skemmtilegur – á alla kanta – Geysir er að gjósa við hliðina  – áin og kjarrið – hann endurspeglar allt sem íslensk náttúra hefir upp á að bjóða.

Þegar þú varðst fimmtugur í fyrra settir þú þér það markmið að spila 50 velli – náðir þú því? Já, ég spilaði á 53 völlum. Helmingur þeirra valla sem ég spilaði voru hér á landi og hinn helmingur úti. Meðalskorið mitt var 79,2.

Einhver völlur hér á landi sem þú átt eftir að spila og langar til að spila ?  Ég er búinn að spila megnið af golfvöllum hérlendis.

Hvað ertu með í forgjöf?  3,8

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því? 68 högg á Nesvelli, á Seltjarnarnesi.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Að vinna Björgvin Sigurbergsson, GK, í opnu móti áður en hann fór í atvinnumennskuna.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?  Ég er með brauð og banana.

Hefur þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Já, handbolta – körfubolta – frjálsum  og blaki.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhaldsmaturinn minn er hrefnukjöt, uppáhaldsdrykkur, appelsínusafi. Uppáhaldstónlist er allt með David Bowie, kvikmyndin er Sound of Music og uppáhaldsbókin mín er Góði dátinn Svejk.

Hverjir eru  uppáhaldskylfingarnir þínir nefna 1 kven- og 1 karlkylfing?  Kvk: Ólöf María Jónsdóttir, GK og Björgvin Sigurbergsson, GK.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín? Í pokanum hjá mér eru kylfur og kúlur, matur og föt og uppáhaldskylfan er pútterinn.

Hvert er meginmarkmiðið í lífinu? Að halda áfram í golfinu.

Hvað finnst þér best við golfið? Félagsskapurinn.

Nú ertu með flesta afrekskylfingana okkar í æfingum hjá þér. Er öðruvísi að þjálfa þá en hinn almenna kylfing?  Nei. Markmið mitt er alltaf það sama – ég reyni að ná því besta úr öllum.

Ert þú með eitthvert ákveðið concept í æfingum, sem þú lætur kylfinga gera hjá þér? Ég reyni bara alltaf að tileinka mér það nýjasta í fræðunum. Ég reyni að finna nýjar æfingar og beita nýrri tækni og vera ekki að gera það sama og allir hinir og svo reyni ég að gera hlutia á annan hátt.

Ertu þolinmóður?  (N.B. Spurningin var lögð fyrir Gauta að tillögu Björgvins Sigurbergssonar, GK).                          Svar Gauta: Já, ég tel mig þolinmóðan.

Hvernig á að fyrirbyggja mótsskrekk? Það verður að undirbúa sig vel og tala við sjálfan sig að maður sé vel undirbúinn – Fækka afsökunum – Leggja áherslu á rútínu í upphitun, þannig að maður sé að gera það sama – það er gott að geta farið í ákveðið vanaferli. Það verður að gera sér grein fyrir að það er hluti af keppni að vera spenntur – það þarf að upplifa spennuna á jákvæðan hátt – þeir sem eru bestir snúa spennunni við og segja við sjálfan sig að þeir séu bestir þegar mest á reynir.

 Að lokum ertu með gott ráð til kylfinga?   Já, það þarf að vera með góðan leiðbeinanda til að aðstoða sig í golfinu.