Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 10. 2012 | 15:00

Viðtalið: Eygló Myrra Óskarsdóttir, GO.

Viðtalið í dag er við kylfing, sem er mörgum að góðu kunn Eygló Myrru Óskarsdóttur, GO og University of San Francisco. Henni hefir gengið vel í bandaríska háskólagolfinu s.l. haust, lið hennar sigraði t.a.m. í Wolf Pack Classic mótinu, sem fram fór í Nevada í október s.l. Hér fer viðtalið:

Fullt nafn: Eygló Myrra Óskarsdóttir.

Klúbbur: GO.

Hvar og hvenær fæddistu?   Ég fæddist 15. október 1991, í Óðinsvéum, í Danmörku.

Hvar ertu alin upp?   Ég er alin upp í Garðabæ fyrir utan að ég var 2 ár í Danmörku.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?  Ég bý heima hjá pabba og mömmu og á 2 systur og það eru allir í golfi í fjölskyldunni.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Þegar ég fékk fyrstu kylfuna mína, svona 5 -6 ára.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Mamma og pabbi voru á fullu í þessu og tóku mig og systur mínar með út á völl. Við byrjuðum á að slá annað hvert högg og gerðum þetta skemmtilegt. Ég fílaði þetta alveg í botn, að vera úti allan daginn í fallegu umhverfi og skemmtilegum félagsskap. Þetta er bara svo skemmtilegt og svo getur maður spilað golf alla ævi.

Hvað starfar þú?  Ég er í háskólanámi í University of San Fransisco, í Kaliforníu og í fyrrasumar var ég sumarstarfsmaður hjá Golfklúbbnum Oddi.

Eygló Myrra á Símamóti Eimskipsmótaraðarinnar á Hvaleyrinni, 26. júní 2011. Vinkona hennar Hillary Wood fylgist með. Mynd: Golf 1.

Er munur á þjálfurunum úti og hér á landi, ef svo er hver er hann? Þjálfararnir úti í þessum skólum eru oftar fleiri en 1. Þar er „headcoach“, sem heldur utan um heilt lið og framkvæmdastjóri, sem sér um að allt skipulag sé á hreinu. Hann sér um að allt rúlli vel, kaupir miða fyrir alla, mótaskrár o.s.frv. Ég sakna svolítið íslensku þjálfarana; maður er vanur að vera með þá. Það eru góðir þjálfarar úti líka, en aðstaðan skiptir meira máli en þjálfararnir.

Hvað fer mikill tími í æfingar á dag hjá þér úti?   Það fara u.þ.b. 5-6 tímar í golfið og svo 1 1/2 tími í ræktina svo fær maður 1 dag frí. Þá fer ég með stelpunum  að leika mér. Maður reynir að brjóta þetta aðeins upp . Mér finnst  gaman í golfi en það er hollt að taka hugann aðeins frá golfi 1 sinni í viku; spila tennis, sund eða gera bara eitthvað allt annað.

Hvað ertu að læra í Bandaríkjunum fyrir utan að spila með golfliði háskólans? Ég er í fjármálafræði.

Voru mikil viðbrigði að koma til Bandaríkjanna frá Íslandi?   Já, manni leið stundum eins og litlum fisk í stóru vatni. Maður fékk ekki eins mikla athygli frá þjálfaranum. Það er litið svo á að ef maður spyr mikið og fær hjálp  þá sé maður að sýna áhuga – en maður verður að fara til þjálfaranna, þeir koma ekki til manns. Maður þarf að fara til þeirra.

Er mikill munur á völlunum í Bandaríkjunum og hér á Íslandi? Já, þeir eru miklu lengri í Bandaríkjunum-   maður  er ekki að slá með wedge inn á flatirnar og svo eru brautirnar oft þrengri.

Hvort líka þér betur við skógar- eða strandvelli?  Góð spurning. Ég veit það ekki. Bara bæði. Það er oft fallegra umhverfi í skógarvöllum. Þetta eru bara tvær mismunandi gerðir af golfi. Mér finnst gaman í golfi;  skiptir ekki máli hvar.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Bæði. Þetta eru bara tvö mismunandi leikform.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi? Vestmanneyjar.

Frá Carsten Creek uppáhaldsgolfvelli Eyglóar Myrru erlendis.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Það er Carsten Creek gamli heimavöllurinn minn úti í Oklahoma og Biltmore golfvöllurinn í Coral Gables, Miami. Þjálfari Oklahoma fann mig þar.

Frá Biltmore golfvellinum í Coral Gables, Flórída, öðrum uppáhaldsgolfvelli Eyglóar Myrru erlendis

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Þorlákshöfn, hann er bara öðruvísi en aðrir íslenskir golfvellir. Þetta er ótrúlega skemmtilegur golfvöllur; hann er lengri en venjulegir golfvellir á Íslandi.

Hvað ertu með í forgjöf?   2,0.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   69 á Urriðavelli sem er – 2 undir pari og -2 á Hólmsvelli.

Hvert er lengsta drævið þitt?   Lengsta drævið mitt sló ég í drævkeppninni 2009 . Höggið var 303 metra langt, en það var meðvindur og brautin lá niðri í móti og boltinn skoppaði langt.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Það var þegar ég spilaði fyrst undir 70, á Urriðavelli

Hefir þú farið holu í höggi? Já, á Desert Springs golfvellinum, í Almería, á Spáni á 17. braut –  1. apríl 2006 eða 2007? …ég man ekki hvaða ár – ætli ég hafi ekki verið svona 15 ára. Ég notaði 6-járn.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Skyr, banana, möndlur og þurrkaða ávexti. Ég borða mikið þegar ég er að spila. Ég er líka oft með samloku, sem ég bý til úr grófu brauði og set á pestó, kotasælu eða eitthvað gott. Ég elska að borða.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Já, sundi og svo var ég í ballet í 9-10 ár.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?  Uppáhaldsmaturinn minn er fiskur; uppáhaldsdrykkurinn er vatn; ég er alæta á tónlist – hlusta á allt; uppáhaldskvikmyndin er The Greatest Game Ever Played og uppáhaldsbókin er  „Munkurinn, sem seldi sportbílinn sinn,“ eftir Robin S. Sharma.

Eygló Myrra Óskarsdóttir, GO. Mynd: Í einkaeigu

Eygló Myrra Óskarsdóttir, GO. Mynd: Í einkaeigu

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn, nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?   Kvk.:  Caroline Hedwall.   Kk:  Tiger Woods.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er er uppáhaldskylfan þín?   Ég er með Callaway forged kylfur, Ping i15 dræver, Muira wedga 60°, 56° og 52° og 4 rescue kylfur Maruman, 5 og 3 tré frá Maruman og svo er ég með Scotty Cameron pútter. Ég á enga uppáhaldskylfur – Þær eru allar í uppáhaldi.

Hefir þú verið hjá golfkennara?   Já, mörgum, Brynjari Eldon Geirssyni, Derrick Moore, Jóni Karlssyni, Bjögga o.fl.

Ertu hjátrúarfull? Nei.

Hvert er meginmarkmiðið í golfinu og hvert er meginmarkmiðið í lífinu? Í golfinu er það að verða betri og komast á Evróputúrinn. Í lífinu er það að njóta lífsins.

Hvað finnst þér best við golfið?  Það er svo skemmtilegt og að fá að vera úti.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andlegur (í keppnum)?  80%.

Er eitthvað gott ráð, sem þú getur gefið kylfingum?   Já, að reyna að vera eins afslappaðir og þeir geta og njóta þess að spila.

Áttu eitthvað gott ráð handa krökkunum í golfinu? Já, þeir verða að vera duglegir að æfa sig yfir veturinn og setja sér skýr markmið fyrir næsta sumar – veturinn er mjög mikilvægt undirbúningstímabil.

Spurning frá síðasta kylfingi, sem var í viðtali hjá Golf 1 (Herði Hinrik Arnarsyni, framkvæmdastjóra og golfkennara):  Hvort færðu þér að borða fyrir eða eftir hring? 

Svar Eyglóar Myrru: Bæði – þ.e.a.s. ég borða bæði fyrir og eftir hring.

Spurning Eyglóar Myrru fyrir næsta kylfing:  Myndir þú frekar vilja hafa kylfusvein eða ekki?