Ella María sigraði í 2. flokki á Meistaramóti GL 2012. Til hamingju!!!
Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 4. 2011 | 17:00

Viðtalið: Ella María Gunnarsdóttir og Helga Rún Guðmundsdóttir, GL.

Í gær birtist myndasería hér á Golf 1 frá Helenu Rubinstein kvennamóti GL, sem fram fór í sumar, nánar tiltekið 9. júlí 2011. Þær sem áttu veg og vanda á mótinu og voru í óða önn að fara yfir skor þátttakendanna 78 í mótinu, þegar Golf 1 bar að garði voru þær Ella María Gunnarsdóttir og Helga Rún Guðmundsdóttir, en auk þess að vera mágkonur eru þær í kvennanefnd GL. Þær höfðu frá mörgu skemmtilegu að segja úr kvennastarfinu á Skaganum, m.a. mótinu Leynisskvísan 2011, sem er holukeppni og nýjung sem fleiri klúbbar mættu taka upp – en alltof lítið er um holukeppni hérlendis. Hér fara nokkrar spurningar Golf 1 og svör þeirra Ellu Maríu og Helgu Rún:

Helga Rún Guðmundsdóttir, í kvennanefnd GL, að fara yfir skor þátttakenda í Helenu Rubinstein mótinu, 9. júlí 2011. Mynd: Golf 1.

Fullt nafn:  Ella María Gunnardóttir og  Helga Rún Guðmundsdóttir.

Klúbbur:  GL  (Báðar eru í kvennanefnd GL).

Hvar og hvenær fæddust þið? Báðar á Akranesi. Ella María: 11.7.1975  og Helga Rún 31.5.1970.

Hvar ólust þið upp? Báðar: Á Akranesi.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður – spilar einhver í fjölskyldunni golfi?  Ella María: Ég er sjálfstæð móðir með 2 1/2 ára dreng. Helga Rún: Ég er gift bróður Ellu og á 2 börn 8 ára stelpu og 13 ára strák. Við erum öll í golfi – strákurinn, Guðmundur Sigurbjörnsson er farinn að spila á 74 höggum!  Hann er t.d. ofarlega á Landsbankamótaröðinni.

Hvenær byrjuðuð þið í golfi?  Ella María: Ég fór á eitt námskeið á hverju vori með vinnunni, en gekk fyrst í klúbbinn (GL) 2009 fyrir 2 árum. Helga Rún: Það er aðeins lengra síðan ég byrjaði. Ég prófaði fyrst að spila með pabba 12 ára, svo spilaði ég eitthvað sem unglingur og það má segja að ég hafi byrjað aftur fyrir 6 árum eftir hlé.

Hvað varð til þess að þið byrjuðuð í golfi?  Ella María: Veit ekki – ég ætlaði alltaf en gaf mér aldrei tíma; spáði ekkert í þessu fyrr en ég var í fæðingarorlofi. Helga Rún: Ég byrjaði af því að pabbi var í golfi.

Hvað starfið þið? Ella María: Ég er verkefnastjóri í Arion banka. Helga Rún:  Ég vinn í upplýsingamiðstöð á Akranesi.

Hvort líkar ykkur betur við skógar- eða strandvelli?   Báðar: Skógarvelli.

Hvort líkar ykkur betur við holukeppni eða höggleik? Ella María: Holukeppni. Helga Rún: Bæði – Höggleikurinn er meira „challenge“ og miklu erfiðari – maður er í stríði við sjálfan sig – Í holukeppni er maður að keppa við annan aðila og getur grætt á mistökum hans.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir ykkar á Íslandi? Ella María:  Garðavöllur á Akranesi. Helga Rún: Sama hér.

Uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Ella María: Crandon Key Biscayne í Miami. Helga Rún: Magnolía í Orlandó, Flórída.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þið hafið spilað á og af hverju? Ella María:  Crandon Key út af sérstöku dýralífi m.a. eðlum. Helga Rún: Hann er á Pensacola Beach, í Flórída vegna skjaldbakanna, sem þar eru.

Hvað eruð þið með í forgjöf? Ella María: 27,9 Helga Rún: 22.

Hver eru lægstu skorin ykkar í golfi og hvar/á hvaða velli náðuð þið því?  Ella María:  „I plead the 5th.“ Helga Rún:  86 á Garðavelli á Skaganum.

Hver eru helstu afrekin ykkar til dagsins í dag í golfinu?  Ella María: Ég varð  í 3. sæti í Vatnsmótinu  (hjá GL) nú í sumar og lækkaði um 4 í því móti. Helga Rún:  Það er offt bara afrek að komast í gegnum meistaramót, að vera að spila illa og halda samt áfram.

Hvaða nesti eruð þið með í pokanum?  Ella María: Appelsín og banana. Helga Rún: Flatbrauð.

Hafið þið tekið þátt í öðrum íþróttum?  Ella María: Ég æfði fót-hand og körfubolta með ÍA.  Helga Rún: Ég var í sundfélagi Akraness.

Hver er ppáhaldsmaturinn ykkar? Ella María: Nautakjöt. Helga Rún: Humar.

Hver er uppáhaldsdrykkurinn ykkar? Ella María: Moito. Helga Rún: Hvítvín.

Hver er uppáhaldstónlistin ykkar? Ella María: Flest tónlist – t.d. brasilísk tónlist og nútímatónlist. Helga Rún: Flest tónlist.

Hver er uppáhaldskvikmyndin ykkar? Ella María: Boomerang. Helga Rún: Tom Hanks var svo góður í Forest Gump.

Hver er uppáhaldsbókin ykkar? Ella María: Falsarinn eftir Björn Th. Björnsson. Helga Rún: Þúsund bjartar sólir eftir Khaled Hosseini.

Hverjir eru uppáhaldskylfingarnir ykkar – nefnið 1 kven- og 1 karlkylfing?  Ella María:  Kvk.: Valdís Þóra kk.: Seve Ballesteros, Helga Rún: Kvk. Valdís Þóra – kk.: Ian Poulter.

Hver er uppáhaldskylfan ykkar?  Ella María: Dræverinn þó að hann klúðri öllu stundum. Helga Rún: Dræverinn.

Eruð þið hjátrúafullar? Báðar: Nei.

Meginmarkmið í lífinu? Ella María:  Gleði. Helga Rún: Jákvæðni og bjartsýni.

Hvað finnst ykkur best við golfið? Ella María: Félagsskapurinn og útiveran. Helga Rún: Félagsskapurinn útiveran og þetta er svo hrikalega skemmtilegt.

Hvað er í pokanum hjá ykkur?  Ella María: Allt Taylormade, 6,5 4 járnin eru allt hálfvitar, Nike pútter, pokinn er Callaway og vatnsheld föt. Helga Rún: R9 Taylormade dræver, 24° Callaway hálviti, 5-9 Callaway járn, 52° 56° wedga, Callaway Odyssey pútter, svo er ég með allt hitt: kúlur tí, merki pokinn er frá Callaway og svo er ég líka með vatnsheld föt.

Svona að lokum: Eruð þið með skemmtilega sögu af vellinum? Ella María: Ég veit ekki, það mætti kannski nefna að ég skaut þrisvar í lengdarmælingarstaura á Garðavellinum og var alltaf að fara hægra megin út af vellinum 1 árið þegar ég var að byrja. Helga Rún: Mín saga er nú kannski óvenjuleg, mér dettur í hug þegar gæsin beit dóttur mína  á velli á Kanaríeyjum. Stelpan fékk stóran marblett … en um kvöldið vildi hún fá gæsasamloku!

Að síðustu:

Spurning frá síðasta kylfing (Ragnheiði Matthíasdóttur, gjaldkera GSS)  sem var í viðtali hjá Golf 1:

Hvað gerir þú þegar þú lendir í töf á golfvelli? Svar Ellu Maríu og Helgu Rún:  Við öndum inn um nefið og út um munninn og reynum að halda ró okkar.

Getið þið komið með spurningu fyrir næsta kylfing sem Golf 1 tekur viðtal við?   

Spurning kvennanefndar GL: Hvernig ætlar þú að fagna þegar þú ferð holu í höggi eða ef viðkomandi hefir þegar farið holu í höggi hvernig fagnaðirðu (þegar þú fórst fyrst holu í höggi)?