Daníel Hilmarsson, GKG. Mynd: Í einkaeigu
Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 2. 2012 | 20:30

Viðtalið: Daníel Hilmarsson, GKG

Daníel Hilmarsson, í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar er einn þeirra sem spilar bæði á Unglingamótaröð Arion banka og Eimskipsmótaröðinni, í ár, 2012.   Hér fer viðtal kvöldsins við Daníel:

Fullt nafn: Daníel Hilmarsson.

Klúbbur: GKG.

Hvar og hvenær fæddistu?  Ég fæddist í Reykjavík þann 11. Janúar árið 1994.

Hvar ertu alinn upp? Í Hafnarfirði.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf? Ég bý heima hjá foreldrum mínum sem spila bæði golf.

Daníel Hilmarsson, GKG. Mynd: Golf 1

Daníel Hilmarsson, GKG. Mynd: Golf 1

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Árið 2009.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi? Pabbi var oft í golfi þannig ég ákvað bara að skella mér með og síðan þá hef ég ekki stoppað.

Hvað starfar þú / Ertu í námi ef svo er hvaða? Ég er í námi eins og er í Tækniskólanum, og er að læra almenna hönnun.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?  Það er bara mjög misjafnt, en svona yfirleitt er ég hrifnari af skógarvöllum.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur? Ég myndi segja höggleik, ég hef aldrei komist langt í holukeppnum þannig að ég hef litla reynslu hvað það varðar.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?  Vestmannaeyjar hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér.

Vestmannaeyjavöllur er í mestu uppáhaldi hjá Daníel af íslensku golfvöllunum. Mynd: eyjafrettir.is

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum? El Valle í Murcia á Spáni.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju? El Valle, það er eyðumerkurvöllur sem Jack Nicklaus hannaði, ef maður hittir ekki braut þá er maður bara kominn í einhvern sand og rusl.

El Valle – Jack Nicklaus hannaði eyðimerkurgolfvöllurinn í Murcia á Spáni er bæði eftirlætisgolfvöllur Daníels erlendis og sá sérstæðasti, sem hann hefir spilað.

Hvað ertu með í forgjöf? 4.7.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því? Lægsta skor mitt er 70 högg (-2) á Leirunni í Keflavík. Spilaði á því skori þegar ég var að keppa þar á unglingamótaröð GSÍ 2011.

Hvert er lengsta drævið þitt? Ja, ég hef nú enga nákvæma tölu á því en það er einhvað yfir 300 metrana, kringum 320 – 330 myndi ég gíska á.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu? Að spila á 2 undir á fyrsta degi í unglingamótaröð GSÍ og vera í 2. sæti fyrir lokadaginn.

Hefir þú farið holu í höggi?  Já 1 sinni, á 8. holu á Oddi.

Hvaða nesti ertu með í pokanum? Yfirleitt bara með samlokur, banana og svona.

Daniel Hilmarsson (t.v.) ásamt holli sínu á 1. móti Eimskipsmótaraðarinnar 2012, 27. maí 2012. Mynd: Golf 1

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum? Var í sundi og handbolta.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhaldmaturinn er Lasagnað hennar mömmu, uppáhaldsdrykkur er Mix, hlusta yfirleitt á rokk en get hlustað á nánast allt, myndin: „The greatest game ever played“, ég les ekki mikið þannig ég á mér eiginlega enga uppáhaldsbók.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing? Suzann Pettersen og Tiger Woods.

Hvert er draumahollið?  Það væri gaman að spila með Tigernum, Luke Donald og Rickie Fowler.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín? Ég er með Titleist 910 D3 driver, Tileist 910 3 tré og hybrid, svo er ég með Mizuno MP-53 járn (3 járn – PW), Nike Vr fleygjárn (52°56°60°) og Oddyssey XG #9 pútter. Þegar ég er heitur á pútternum þá er hann uppáhald kylfan mín.

Daníel Hilmarsson, GKG. Mynd: Golf 1

Hefir þú verið hjá golfkennara? Já ég er að æfa núna með afrekshópi GKG undir leiðsögn Derrick Moore.

Ertu hjátrúarfullur? Ja ég er alltaf með kross á mér, og stundum þegar ég er að spila illa þá athuga ég hvort ég hafi ekki örugglega snúið honum rétt og oft er hann öfugur á mér þannig ég sný honum við og byrja oft að spila mjög vel eftir það.

Hver eru markmið þín í golfinu fyrir þetta sumar (2012)? Að standa mig vel á Unglingamótaröðin GSÍ og Eimskipsmótaröðinni. Komast í æfingahóp landsliðsins og margt fleira, maður stefnir bara hátt. 😀

Hvert er meginmarkmið þitt í golfinu almennt og í lífinu? Að komast langt sem atvinnumaður í golfi.

Hvað finnst þér best við golfið? Bara allt eiginlega. 😀

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)? Mjög há, mjög stór hluti golfhringsins spilast í hausnum á mér og þegar hann er ekki í lagi þá spila ég yfirleitt aldrei vel.

Að lokum: Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum? Að setja sér raunhæf markmið og standa við þau. Æfa og æfa þar til kylfingarnir ná þeim.