Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 3. 2012 | 20:00

Viðtalið: Dagur Ebenezersson, GK.

Annar sigurvegara í Gamlársdagspúttmóti Golfklúbbsins Keilis, Dagur Ebenenezersson, GK, situr fyrir svörum í dag. Þátttakendur í mótinu voru um 120 og luku 113 keppni.  Dagur varð í 1.-2. sæti, með 27 pútt, en var fljótur að leiðrétta þá er þetta ritar, sagðist hafa orðið í 2. sæti, því seinni 9 hefði hann spilað á 15 púttum, en Hinrik A. Hansen, GK, sem var á sama púttafjölda, vann, fór seinni 9, á 12 púttum.

Dagur sagðist hafa byrjað á 10. holu og þrípúttað strax á 11. holu þegar hann missti 40 cm pútt. Hann einpúttaði hins vegar eftir það 10 sinnum á hringnum góða og sagði það skelfilegt að missa púttið á 11., því hefði það farið niður hefði hann staðið uppi sem sigurvegari á 26 púttum!  Í verðlaun fyrir 2. sætið hlaut Dagur 5 stóra flugelda.

Helsti styrkleikur Dags í golfinu eru púttin s.s. sést á afrekaskrá hans hjá Keili undanfarin ár, en í sama móti í fyrra, 2010, varð Dagur í 2. sæti og árið þar áður, 2009, vann hann 1. mótið á púttmótaröð Hraunkots.

Dagur spilaði á Arionbankamótaröð unglinga s.l. sumar, með góðum árangri, varð m.a. í 3. sæti á Íslandsmótinu í holukeppni í flokki 17-18 ára pilta og Íslandsmeistari með sveit GK í sveitakeppni GSÍ.

Sigurvegarar á Íslandsmótinu 2011, í holukeppni, í flokki 17-18 ára pilta. F.v.: Dagur Ebenezersson, GK 3. sæti; Björn Öder Ólason, GO, 1. sæti og Gísli Þór Þórðarson, GR, 2. sæti. Mynd: helga66.smugmug.com

Hér fer viðtalið við Dag:

Fullt nafn: Dagur Ebenezersson.

Klúbbur: GK.

Hvar og hvenær fæddistu?  Ég fæddist í Reykjavík, 1. október 1993.

Hvar ertu alinn upp? Ég er alinn upp að mestu leyti á Íslandi, en bjó í Offenbach í Þýskalandi í 9 mánuði þegar ég var 5 ára og fyrir 4 árum bjó ég í 2 1/2 ár í Upplands Väsby, í Svíþjóð.

Varstu að æfa golf í Svíþjóð? Þar kviknaði áhuginn í Väsby Club  og þar var ég að spila á lítilli mótaröð. Annars var ég byrjaður aðeins í golfi hér heima.

Hver finnst þér munurinn vera á golfi á Íslandi og í Svíþjóð? Það er miklu auðveldara að verða góður kylfingur í Svíþjóð, vegna betri aðstæðna og lengra sumars. Mér finnst samt vera meiri áhugi á golfi á Íslandi.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Ég var 8 ára.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi? Ég bjó við hliðina á Setbergsvellinum hér í Hafnarfirði og var alltaf að hlaupa inn á völlinn og spila – og allir vinir mínir þar voru þar líka og mig langaði bara til að prófa.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður – spilar einhver í fjölskyldunni golf? Ég bý hjá foreldrum mínum og á eina 9 ára systur, Jönu. Amma og afi mínn í föðurætt eru í golfi.

Ertu með eitthvað gott ráð handa þeim sem eru að æfa púttin? Það verður að eyða tíma í þetta og æfa sig.

Hvað ertu að hugsa þegar þú stendur yfir pútti? Það má ekki hugsa um strokuna, maður verður að hugsa meira um línuna, sem kúlan á að fara eftir og targetið, maður verður að staðsetja sig og ákveða hvar maður ætlar að vera.

Hvað er þér minnisstæðast í golfinu þínu frá síðasta ári? Þegar ég fór með landsliðinu til Prag. Við spiluðum í Prag City Golf Club, en gistum á hóteli í miðbænum. Það var frábært.

Nú valdi Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari þig í afrekshóp GSÍ 2012, hvernig tilfinning var það? Það var mjög gaman. Óvænt og mjög gaman – Ég var að vonast til að komast í þetta og ánægður þegar þetta kom.

Dagur Ebenezersson, einn þeirra sem varð Íslands- meistari í flokki 17-18 ára pilta í sveitakeppni GSÍ, 2011. Mynd: Ebenezer Þ. Böðvarsson.

Yfir í annað: Hvort kanntu betur við þig á skógar- eða strandvöllum og af hverju?   Skógarvöllum, vegna þess að það er gaman að búa til mismunandi boltaflug framhjá trjánum og oftast er minni vindur á skógarvöllum.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Höggleikur … af því að þá er maður að hugsa um að fá lægsta skorið á hverja holu, fremur en að spá í það hvað hinn er að gera.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi? Grafarholtið og Oddurinn, það er alveg ótrúlega skemmtilegt og gaman að spila þann síðarnefnda.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Prag City í Tékklandi.  Völlurinn var svo fullkominn, það var ekki 1 skemmd – hann var svo nýr, bara 2 ára.

Hvað ertu með í forgjöf?  2,5.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?  69 á Hvaleyrinni – 70 á Hólmsvelli – hvorutveggja er -2 undir pari.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Það er að verða Íslandsmeistari í sveitakeppni GSÍ tvö ár í röð með Keili nú síðast á Þorlákshöfn í flokki 17-18 ára og á Suðurnesjum 2010, líka.

Hvaða nesti ertu yfirleitt með í pokanum?  Banana, flatkökur (nóg af þeim) og vatn.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Ég hef prófað eiginlega allt sem hægt er að prófa með FH, handbolta, fótbolta, frjálsar. Svo var ég í badminton bæði í Hafnarfirði og Svíþjóð.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhaldsmaturinn minn er indverskur, uppáhaldsdrykkurinn er jólaöl; ég get ekki svarað hver sé uppáhaldstónlistin, það eru svo margt og ég þyrfti að telja upp svo marga; uppáhaldskvikmyndin er Goodfellas og uppáhaldsbókin er „Golf is not a game of perfect“ eftir Bob Rotella.

Dagur Ebenezersson, GK, á Íslandsmótinu í höggleik 2009. Mynd: helga66.smugmug.com

Hverjir eru uppáhaldskylfingar nefndu a.m.k. 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?    Kk:  Nick Watney, Jason Day (ekki bara út af nafninu 🙂 )og Rory McIlroy.   Kvk: Paula Creamer.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín? Í pokanum hjá mér eru:  Titleist 910 F dræver D-3, 9,5°, Titleist 910 F 3-tré 15°, Titleist 909 hybrid 19°, Titleist 910 NB járnakylfur 3-PW, wedge Titleist Vokey Oilcan 50°, 54° og 58° (wedge-arnir eru brúnir, þegar maður spilar með þeim þá ryðga þeir (þeir eiga að gera það og það kemur gamall fílingur í þá) og pútterinn Odyssey black series tour #9.Uppáhaldskylfan mín er pútterinn.

Hefir þú verið hjá golfkennara? Já, hjá Bjögga, Sigga Palla og Auðunn.

Ertu hjátrúarfullur?  Nei, alls ekki.

Hver eru meginmarkmiðin í golfinu og í lífinu? Aðalmarkmiðið í golfinu er að verða atvinnukylfingur þannig að ég geti lifað á því  og draumurinn er að spila annarri hvorri stóru mótaraðanna; það skiptir ekki máli á hvorri mótaröðinni þ.e. Evróputúrnum eða bandaríska PGA. Meginmarkmiðið í lífinu er að keppa meðal þeirra bestu í golfi, njóta lífsins og geta spilað golf lengi.

Hvað finnst þér best við golfið?  Að keppa. – Ég hef mikið keppnisskap, þannig að mér finnst það best við golfið.

Að síðustu:

Spurning frá fyrri kylfingi, sem var í viðtali hjá Golf1.is (Ólafi Þór Ágústssyni, framkvæmdastjóra GK):*)

Hvernig ætlar þú að bæta þig í golfi á næsta ári?

Svar Dags: Ég ætla að æfa sláttinn meira og vera skipulagðari, með leikplan.

Geturðu komið með spurningu fyrir næsta kylfing sem kemur í viðtal hjá Golf1.is?

Spurning Dags:  Ef þú fengir frí vallargjöld á 1 velli til æviloka, hvaða völl myndir þú velja?

*) Ath.: Síðasti kylfingur sem viðtal var tekið var Stefán Teitur Þórðarson, GL. Viðtal við þann kylfing, sem tekið var á eftir honum birtist á morgun, 4. janúar 2012 – Viðtalið við Dag Ebenezersson, GK, var skotið inn í vegna sigursætis hans nú nýlega á Gamlársdags- púttmóti Keilis, þ. 31. desember 2011 – en á morgun verður fram haldið með upphaflegu röðina.