Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 9. 2012 | 17:00

Viðtalið: Coralie Cicuto frá Frakklandi

Í kvöld birtist 7. og síðasta viðtalið við erlenda kylfinga sem Golf 1 tók á Cádiz Cup, 5. maí 2011.  Viðtalið er við frábæran, franskan kylfing og sem starfar auk þess við að skrifa um golf.  Hér fer viðtalið:

Nafn: Coralie Cicuto.

Hvar fæddistu?:  Maison Laffitte 8. nóvember  1985.

Hvar ertu alin upp?  Sergy, sem er eitt úthverfa í París.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður?  Ég er einhleyp og leigi íbúð með vini.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?   Það var árið 1994, þegar ég var 9 ára.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Það var vegna pabba, en hann starfaði sem kaddý.

Hvort kanntu betur við skógar- eða strandvöll?  Ég kann betur við skógarvelli.

Hvað eru margir golfvellir í Frakklandi?  Ég veit það ekki en giska á að þeir séu svona 600-800.  (Innskot: Þetta var góð ágiskun hjá Coralie en skv. skýrslu KPMG eru golfvellir í Frakklandi 2011, 578.)

Klúbbhúsið í Morfontaine.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir í Frakklandi?  Morfountain í Paris (Innskot: Skv. www.top100golfcourses.co.uk er Morfountain golfvöllur nr. 1 í Frakklandi þ.e. sá besti! Golf Morfontain golfvöllurinn var byggður 1913 þegar hertoginn af Guiche fékk leyfi föður síns til þess að breyta gömlum pólóvelli í Valliére garðinum í 9 holu golfvöll, fyrir hertogann og vini hans. Við opnunarathöfn vallarins tíaði atvinnukylfingurinn James Braide upp ásamt frönsku meisturunum Jean Gassiat og Arnaud Massy. Í 1. heimsstyrjöldinni   opnaði hertoginn völlinn fyrir almenningi og 1927 var golfklúbbur stofnaður í kringum völlinn Golf Club Association, sem enn er starfandi – Völlurinn er 5895 metra par-70 og ekki sá lengsti í Frakklandi).

17. flötin á Morfontaine.

Hver er uppáhalds-golfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Augusta National.

Redbud - 16. braut Augusta National - uppáhaldsgolfvelli Coralie hvar sem er í heiminum.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á? San Nom La Breteche. (Inskot:  Le Golf de Saint nom la Breteche er vestur af París og 8 km í suður frá Saint-Nom La Breteche.  Komast má á heimasíðu klúbbsins HÉR: Boðið er upp á tvo 18 holu golfvelli sem hannaðir voru 1959 og 1960 af arkítektinum Fred Hawtree og jafnframt með einn 5 holu æfingavöll, sem opnaði árið 2000. Le golf de Saint-Nom La Breteche er þekkt alþjóðlega aðallega vegna þess að þar fer Trophée Lancôme fram árlega, en það er boðsmót og er völlurinn lokaður þá.

Golf de Saint Nom La Breteche - sérstæðasti golfvöllur sem Coralie Cicuto hefir spilað á.

Upplýsingar um völlinn:

  • Golf de Saint-Nom La Breteche
  • Hameau de la Tuilerie Bignon
  • 78860 Saint-Nom La Breteche
  • Sími :  01 30 80 04 40
  • Fax :  01 34 62 60 44
Hvað ertu með í forgjöf?  Ég er með  1 í forgjöf.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því? 66 á heimavellinum mínum í Sergy.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Ég æfði sund í 5 ár og svo var ég 4 ár í blaki.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkurinn þinn, uppáhaldstónlistin þín, uppáhaldskvikmyndin og uppáhaldsbókin? Uppáhaldsmaturinn minn er Paella, eins og mamma býr hana til með fiski og hvítvíni; uppáhaldsdrykkurinn minn er Champagne (kampavín); uppáhaldstónlistin mín er svört tónlist (ens.: black voices); uppáhaldskvikmyndin er  Schindlers list og uppáhaldsbókin er L´Etrange en Poet eftir Reiner Maria Rilke.

Hver er uppáhalds franski kylfingurinn þinn, nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing? Mér detta engir í hug.

Hver eru uppáhalds alþjóðlegu kylfingarnir þínir nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?  Það eru Lorena Ochoa og Tiger Woods.

Hver er uppáhaldskylfan þín? Pútterinn.

Hvað starfar þú?  Ég skrifa um golf.

Hvað finnst þér best við golfið? Hversu krefjandi það er og svo að sjá allt sem golfið hefir upp á að bjóða og að það er endalaust hægt að læra.

Tekurðu eftir auknum áhuga á golfi í Frakklandi? Þetta er íþrótt ríka mannsins – það eru ekki margir sem hafa efni á að borga €50 (kr. 8500,-) fyrir golfhring.

Að lokum hvert er meginmarkmiðið í lífinu? Að ferðast.