Berglind Björnsdóttir, GR. Mynd: Golf 1.
Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 17. 2012 | 22:00

Viðtalið: Berglind Björnsdóttir, GR

Hér á eftir fer viðtal við Berglindi Björnsdóttur, GR, sem sigraði svo glæsilega í kvennaflokki á 2. móti Eimskipsmótaraðarinnar, Egils Gull mótinu úti í Vestmannaeyjum nákvæmlega fyrir viku síðan. Berglind spilaði á +11 yfir pari, samtals á 221 höggi  (78 71 72); lék framúrskarandi vel og var mjög stöðug.  Fremur hvasst var í Eyjum mótsdgana, 15m/sek, en það virðist hafa haft lítil áhrif á Berglindi.

Berglind útskrifaðist úr MR 2011 og er nú við nám og spilar golf með UNCG  (skammst. fyrir: University of North Carolina, Greensboro) og það er greinilegt að á þessu eina ári í North Carolina hefir Berglind tekið miklum framförum.  Þó aðstæður séu allt aðrar til golfleiks í Bandaríkjunum, en hér á landi, virtist það hafa lítil áhrif á Berglindi. Hér er á ferðinni kylfingur, sem er í einu orði: frábær!

Þeir eru e.t.v. færri sem muna það að Berglind varð Íslandsmeistari í höggleik í unglingaflokki árið 2005…. einmitt úti í Vestmannaeyjum!  Eins hefir hún unnið marga sigra á Unglingamótaröðinni t.a.m. varð hún Íslandsmeistari í Leirunni 2004. Hún varð stigameistari unglinga 2006 og Íslandsmeistari unglinga í holukeppni á Leirdalsvelli 2007.

Hér fer viðtalið við Berglindi:

Berglind Björnsdóttir, GR. Mynd: Golf 1

Fullt nafn: Berglind Björnsdóttir

Klúbbur:  GR

Hvar og hvenær fæddistu?  Ég fæddist 29. september  1992, á Landsspítalanum í Reykjavík.

Hvar ertu alin upp?   Til 6 ára aldurs á Seltjarnarnesi og svo flutti ég 6-7 ára í Grafarvoginn og hef búið hér síðan.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?  Ég bý hjá foreldrum mínum og á 2 bræður og 1 systur. Foreldrar mínir spila golf en systkini mín ekki.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Pabbi tók mig út á völl 4 ára.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Ég fékk sjálf hugmyndina að því að halda áfram í golfi 8 ára eftir að ég tók þátt í námskeiði hjá GR. Það fór fljótt að ganga vel. Ég var fljótlega komin í afrekshóp  og 10 ára byrjaði ég að keppa í fyrstu mótunum. Að keppa undir pressu er það skemmtilegasta sem ég geri.

Hvað starfar þú eða ef þú ert námsmaður í hvaða skóla ertu?  Ég er í  University og North Carolina Greensboro (UNCG).

Berglind Björnsdóttir, GR, að keppa fyrir UNCG í Bandaríkjunum. Mynd: Spartans

Nú ertu við nám í University of North Carolina Greensboro, lýstu venjulegum skóladegi hjá þér?  Við erum tvisvar sinnum í viku í ræktinni. Klukkan 6:15 hittum við einkaþjálfarann okkar og við æfum í 1 – 1 1/2 tíma.  Það er mikið hlaupið og mikið af styrktar og jafnvægisæfingum.  Síðan fer ég í mötuleytið til að fá mér eitthvað að borða og svo byrjar skólinn kl. 8 og er ekki búinn fyrr en um hádegið, reyndar svolítið mismunandi hvenær tímarnir eru búnir, stundum erum við búnar kl. 11 stundum aðeins seinna kl. 13.  Sama hvenær ég er búin þá fer ég strax á æfingu eftir mat.  Við stelpurnar í liðinu erum ekki allar með sömu stundatöflu og það er misjafnt hvað við gerum, hver og ein æfir það sem hún þarf að taka á. Stundum erum við saman og setjum upp keppnir. Á föstudögum og/eða laugardögum spilum við .  Við erum yfirleitt búnar kl. 18-19 og svo eigum við bara kvöldið út af fyrir okkur.

Hvað kom þér mest á óvart við Bandaríkin? Hvað þetta var virkilega draumurinn að rætast. Hvað allt heppnaðist vel.  Það er svo magt sem getur farið úrskeiðis. Þjálfarinn minn, ég dýrka hana. Hún heitir Emily Marron og var í Penn State á sínum háskólaárum. Ég er líka heppin með herbergisfélaga, heppin með liðið mitt, ég fæ að keppa í öllum mótum, það er bara allt fullkomið.

Hvað er verst við Bandaríkin? Hvað það er endalaust úrval af girnilegum mat… sem mér dettur ekki í hug að snerta.

En hvað er best við Bandaríkin? Golflega séð er það tækifærið að vera með góða æfingaaðstöðu í mun lengri tíma en hér heima. Við erum að spila úti á grænu grasi fram í nóvember og síðan erum við komin aftur á grasið í mars. Það er ótrúlegur munur að geta æft á grasi. Maður getur æft mikið og þarf ekki að taka 6 mánaða frí. Að geta spilað svona mikið lengur hefur mikil áhrif og svo er mikil reynsla að keppa alltaf á nýjum og nýjum völlum

Hver er munurinn á  golfvöllunum í Bandaríkjunum og á Íslandi? Flatirnar úti eru mýkri (grasið úti er eins og þeir kalla það í Bandaríkjunum meira „spongy“). Hér er grasið harðara og boltinn skoppar og rúllar meira hér. Á flötunum úti stoppar boltinn strax.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?  Skógarvelli.  Þetta eru mjög ólíkir vellir, en ég laðast meira að skógarvöllum. Þeir eru svo fallegir með há tré og  vötn.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Þetta eru ólík leikform. Ég hef alltaf verið hrifnari af holukeppnum. Þar gildir allt annað hugarfar. Maður má láta vaða án þess að taka miklum afleiðingum. Holukeppnin er hins vegar harðari keppni – meiri keppni.  Það sést bara á orðunum, holukeppni/höggleikur –  mér finnst gaman að keppa.

Korpan er annar uppáhaldsgolfvalla Berglindar á Íslandi. Mynd: Golf 1

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?   Korpan og Vestmannaeyjavöllur.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  TPC Sawgras. Ég  hef spilað Old Course á St. Andrews, þar er það sagan og það að vera komin í upphaf golfsins, sem heillar.  Ég á góðar minningar þaðan því ég fékk fugl á 9. holu.  Pinehurst no. 6 er líka alveg ótrúlega fallegur völlur – hver einasta hola er með sitt sérkenni og ekki ein einasta uppfyllingahola.

Frá „vöggu golfíþróttarinnar“ St. Andrews

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Geysisvöllur vegna fegurðarinnar. Þetta er svo fallegur völlur. Það er ekki séns að finna boltann ef hann fer út í kargann – boltinn er týndur að eilífu. Þar verður að spila staðsetningargolf. Völlurinn er yfirleitt í frábæru standi og þar er ekki mikið af fólki. Það eina slæma við hann er hvað hann er langt í burtu.

Frá Geysisvelli í Haukadal. Mynd: Golf 1.

Hvað ertu með í forgjöf?  1,2

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   72 högg á Kiawah Island, Cougar Point og 71 högg á Vestmannaeyjavelli úti í Eyjum á Eimskipsmótaröðinni.

Hefir þú farið holu í höggi?  Nei, en ég hef svo oft verið nálægt því.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Í pokanum hjá mér eru heimagerðar samlokur með káli, osti, spægipylsu, kalkún og gúrku. Stundum er ég með flatkökur með hangikjöti. Stundum banana og ég drekk yfirleitt vatn eða gatorade.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?   Ég var í ballet í 2 ár, og líka í fimleikum og fótbolta. Ég var lengi í badminton (TBR samhliða golfi) og svo var ég að læra á píanó. Þegar kom að því að ég  þurfti að velja, þ.e. þegar ég var komin í unglingalandsliðið í golfinu,  valdi ég golfið.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?    Uppáhaldsmatur: Nautalundir með bernaise; drykkur: íslenska vatnið; tónslist: út um allt í tónlist rokk; uppáhaldskvikmynd: þær eru nokkrar t.d.  Forest Gump og Greatest Game Ever Played; Uppáhaldsbók: Of Mice and Men eftir Steinbeck og uppáhalds golfbókin er: Golf is not a Game of Perfect, eftir  Bob Rotella. Svo hef ég alltaf haft gaman af Hunger Games eftir Suzanne Collins.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?   Annika Sörenstam er alltaf í uppahaldi þó hún sé hætt.  Phil Mickelson er líka í uppáhaldi hann spilar svolítið villt golf en finnur sér alltaf leið svo er hann flottur karakter. Maður lítur upp til hans.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Mér finnst afrek að vera komin út í háskóla í keppnislið.  Eftir að við komum nýjar höfum við hækkað okkur um 60 sæti á stöðulistanum. Vorum í  124. sæti en erum komnar upp í 64. sætið.  Og síðan var það  fyrsti sigurinn á Eimskipsmótaröðinni, það var smá þröskuldur sem þurfti að yfirstíga.

Það hefir áður birtst viðtal hér á Golf 1 við þig eftir sigurinn á Eimskipsmótaröðinni úti í Vestmannaeyjum fyrir viku en segðu okkur aftur hvað var það sem var að ganga upp og varð til þess að þú vannst?  Það var einfaldlega hugarfarið, að halda öllu einföldu, ég fór ekki fram úr mér, var í núinu að gera það sem mér finnst skemmtilegast, að keppa.“

Berglind Björnsdóttir, GR, í Vestmannaeyjum á Egils Gull mótinu 9. júní 2012. Mynd: Golf 1

Hvert er draumahollið?  Það eru Jack Nicklaus, Luke Donald og Tiger.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Ég er með Nike Method pútter, Titleist Vokey wedge-a, Titleist AP2 járn,  PingI15 hálfvita og 5-tré, 3-tré:TaylorMade Rocket Ballz, Driver: Titleist D2.  Ég hef aldrei gert upp á milli kylfnanna minna.

Hefir þú verið hjá golfkennara?  Derrick Moore, David Barnwell, Brynjar Eldon, Árni Páll Hansson  o.fl. o.fl.

Ertu hjátrúarfull?   Ég var það áður fyrr en er það eiginlega ekki lengur.

Hvert er meginmarkmiðið í golfinu og í lífinu? Draumurinn er atvinnumennskan, en ætla fyrst að sjá í háskólagolfinu hversu góð ég get orðið við bestu aðstæður.

Hvað finnst þér best við golfið?   Það er það að geta framkvæmt það sem þú hefir nákvæmlega ímyndað þér. Fá að sjá það nákvæmlega eins og þú ímyndar þér. Og sjá það að æfingar skili sér. Tilfinningin að hitta fullkomið högg, nákvæmlega eins og þú ímyndaðir þér.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?  Mér finnst einbeiting við æfingar skipta mestu. Sumir segja að æfingamagnið skipti mestu en það er hægt að æfa endalaust og fá ekkert út úr því.  Það verður að vera einbeittur.  Með því að æfa fer maður með meira sjálfstraust í leikinn.  Ætli andlegi þátturinn hjá mér í keppnum sé ekki svona um  60%

Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?   Leggið mestu áherslu á stutta spilið,  því það er það sem skiptir mestu.