Áslaug Einarsdóttir, NK. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 8. 2013 | 20:00

Viðtalið: Áslaug Einarsdóttir, NK

Viðtalið í kvöld er við einn klúbbmeðlima í Nesklúbbnum.

Fullt nafn:   Áslaug Einarsdóttir.

Klúbbur:   NK.

Áslaug Einarsdóttir, NK. Mynd: Golf 1

Áslaug Einarsdóttir, NK. Mynd: Golf 1

Hvar og hvenær fæddistu?  Í Reykjavík, 14. júní 1963.

Hvar ertu alin upp?   Í Vogahverfinu, í Reykjavík.

Í hvaða starfi/námi ertu? Ég er verkefnastjóri í fjármáladeildar ÞG Verktaka.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?    Ég er gift golfara af lífi og sál sem heitir Gunnlaugur Jóhannsson og svo er ég með tvo krakka, strák og stelpu 21 og 18 ára,  sem báðir spila golf.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Ég byrjaði haustið 1991 svo eignaðist ég strákinn ´92 – ég er þrjóskuhundur – fyrstu árin eftir að ég átti hann fór ég svona 1 sinni í viku í golf.

Segðu mér frá fyrstu árunum í golfi sem kona.

Ég kom inn í Nesklúbbinn, sem var gamalgróinn og  svolítill karlaklúbbur. Upphaflega var þetta líka einkaklúbbur stofnaður af Pétri Björnssyni í Kók. Þetta var  á þeim árum, sem Pétur var forstjóri í Kók og var í landsliði Íslands og þekkti mektarfólk, sem þarna spilaði með honum og það má eiginlega segja að það hafi verið  glaumur og gleði í klúbbnum.  – En þetta var líka karllegt – NK var karlaklúbbur, þar sem karlar komu saman og skemmtu sér og konur var bara meðfylgjandi. Þær voru viðhengi.  Það voru þó nokkrar konur að spila t.d.  Anna Einars, sem nú er látin langt um aldur fram, Erna Sörensen ofl.  Þessar konur voru ágætir kylfingar, en  maður fann að andrúmsloftið var þannig að karlar komu og karlar spiluðu golf en konurnar voru bara að dingla sér.

Eftir að Jón Karlsson varð golfkennari í NK hringdi ég í hann til að ræða um það hvernig auka mætti þátttöku stelpna í klúbbnum. Golf hentar stelpum rosalega vel.  Þetta er ekki íþrótt þar sem bara reynir á hversu sterkur þú ert.  Spurningin var hvernig við færum að því að laða stelpur í íþrótt sem hentar þeim vel? Kannski er ráð  að láta yngstu kylfinganna bara spila 9 holur – 18 holu spil er kannski of mikið. Kannski þurfum við að laga okkur að þessum hóp í stað þess að laga hópinn að golfíþróttinni.

Finnst þér að laga þurfi einhverja hluti til þess að laða konur að golfi? Við þurfum að taka á orðræðunni í golfi. Ég man t.a.m. eitt sinn þegar ég var í golfi og heyrði föður segja við son sinn: „Af hverju slærðu svona kerlingarhögg?“  Ég stóð á teig við hliðina á þeim. (Innskot Golf 1: Ótrúlegt tillitsleysi og dónaskapur að segja svona þegar kona er í ráshóp – það verður að passa sig á hvað sagt er og það á eiginlega við alla). Áslaug: Ég man ég las í einhverju golfblaði eftir að Haraldur Franklín var orðinn Íslandsmeistari í höggleik viðtal og þar var fyrirsögnin: „Kerlingalegt að nota hálfvita.“ Ég hugsaði bara: „Er þér alvara?“ Ég veit ekki hvernig við eigum að komast út úr þessari orðræðu. Hvernig eigum við að laða konur og ungar konur að golfi ef þetta er upplifunin.

Eru einhverjir hlutir sem konur sérstaklega þurfa að passa sig á í golfi? Já, það fer ekki vel í karlmeðspilara þegar konur hraða ekki leik sínum. Kvenkylfingar mega vanda sig meira að hraða leik sínum. Ég man alltaf eftir því sem  Óskar Friðþjófs (pabbi Hauks Óskars sem er frkv.stjóri á Nesinu) sagði við mig:„Maður gerir ekki svoleiðis” þ.e. að tefja – Ég er enn þann dag í dag endalaust að horfa fram fyrir mig og aftur fyrir mig og ætla alls ekki tefja í golfi.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?    Ég byrjaði út af manninum mínum.  Hann spilaði svo mikið golf, var m.a. í unglingalandsliðinu.  Ef ég hefði ekki farið með honum í golf hefði ég bara verið ein heima.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?   Þeir eru svo ólíkir. Mér líkar betur við strandvelli vegna þess að allt er svo vítt og yndislegt að spila niðri við sjóinn allan hringinn.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?   Holukeppni – Það er grimmara spil – það er engin vörn bara sókn.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?     Heimavöllurinn Nesið, en Hella er líka æðisleg.

Frá Nesvelli, uppáhaldsgolfvelli Áslaugar Einarsdóttur. Mynd: Golf 1

Frá Nesvelli, uppáhaldsgolfvelli Áslaugar Einarsdóttur. Mynd: Golf 1

Hefir þú spilað alla velli á Íslandi?   Nei.  Ég hef spilað bilinu 15-20 velli, kannski nær 20.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Hann er dásamlegur Furesø í Birkeröd, Danmörku.

Klúbbhús Furesø golfklúbbsins í Danmörku, uppáhaldsgolfvallar Áslaugar erlendis.

Klúbbhús Furesø golfklúbbsins í Danmörku, þar sem uppáhaldsgolfvöllur Áslaugar er, erlendis.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?   Mér finnst allir golfvellir skemmtilegir og sérstakir. Jú, kannski Geysir hann er einstakur og þar kemur Glanni líka sterkur inn því maður þarf að nota svo mikið járnin.

Flagg golfklúbbsins Glanna - eins sérstakasta vellli sem Áslaug hefir spilað

Flagg golfklúbbsins Glanna – eins sérstakasta golfvallar, sem Áslaug hefir spilað. Mynd: Golf 1

Hvað ertu með í forgjöf?  12,4

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   Lægsta skorið mitt er 81 – ég held að það hafi verið á Hellu.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu? Örn á 7. braut á Nesinu. Þetta voru 100 metrar á flugi beint ofan í holu fyrir nokkrum árum síðan í Radison-SAS mótinu.

Hefir þú farið holu í höggi?   Nei.

Spilar þú vetrargolf? Lítið.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?     Samloku eða rúnstykki með skinku og osti, banana, Prins Póló og stundum hnetur.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?     Já, ég var í handbolta, með Þrótti, Ármanni og ÍR.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?    Uppáhaldsmaturinn eru : Rjúpur;   uppáhaldsdrykkurinn er: vatn; uppáhaldstónlistin er með Baggalúti; uppáhaldskvikmynd: Engin sérstök Uppáhaldsbók:  Besta saga sem ég hef lesið eru Hávamál (það eru stórkostleg fræði)

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?    Kvk: Ungu íslensku stelpurnar okkar – get ekki dregið eina fram yfir aðra – en ef ég á að nefna einhverjar eru það Bryndís í GK – stelpurnar okkar á Nesinu Helga Krístín Gunnlaugs mín og Helga Kristín Einars Svo eigum við eina í NK Matthildi Maríu   Kk:  Matt Kuchar

Hvert er draumahollið?    Ég … Matt Kuchar, Nökkvi  og Ragga Sig.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Það er allt PING I-5. Ég er með Titleist dræver, PING pútter, svo er ég með kylfu 60° sem ég keypti á 2.490,- í  Sport Direct – ég veit ekkert hvað hún heitir en hún svínvirkar.

Hefir þú verið hjá golfkennara?  Já, Nökkva. Hann hefir gert mikið fyrir Nesklúbbinn.

Ertu hjátrúarfull?    Nei

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu?   Í golfinu: að á lægri forgjöf og í lífinu:  að vera góð við fólk.

Hvað finnst þér best við golfið?  Félagsskapurinn og útiveran – þess vegna fer maður aftur.  Eins og vinkona mín sagði maður kynnist öllum tegundum fólks í golfi ekki bara afmarkaðri fagstétt.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?     Hún er mjög há því ég er alltaf að keppa við sjálfa mig.

Að lokum: Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?  Að hafa ánægju af þessu – fyrst og fremst að finna ánægjuna í leiknum.