Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 30. 2011 | 15:00

Viðtalið: Anna Einarsdóttir, GA.

Hér á eftir fer viðtal við Önnu Einarsdóttur, GA, en golfárið er aldeilis búið að vera gott hjá henni. Anna sigraði m.a. á Opna kvennamóti GSS, 2. júlí í sumar, fékk 42 punkta og heilmikla forgjafarlækkun, en myndasería frá mótinu birtist hér á Golf 1 síðar í dag. Eins er Anna móðir fv. Akureyrarmeistara og nýkrýnds holukeppnismeistara GA, Tuma Kúld og er hún búin að vera dugleg að draga fyrir soninn á mótum sumarsins, m.a. á Arionbankamótaröð unglinga.  Hér fara spurningar Golf 1 og svör Önnu.

Fullt nafn: Anna Einarsdóttir.

Klúbbur: Golfklúbbur Akureyrar (GA).

Hvar fæddistu? Ég fæddist á Akureyri, 30. september 1964.

Hvar ertu alin upp? Á Eyrinni á Akureyri.

Fjölskylduaðstæður? Er einhver í fjölskyldunni sem spilar golf?  Ég er gift Arinbirni Kúld og á 3 börn og 1 barnabarn. Við Ari og Tumi, yngsta barnið okkar, erum í golfi. Tumi sagði í viðtali nú fyrr í sumar að sér hefði í upphafi þótt golf hundleiðinleg íþrótt. Hann hafi látið sig hafa það að spila,  annars hefði hann verið vanrækt barn. Það má til sanns vegar færa því við Ari vorum í golfi flestöllum stundum. Tumi sagði að hann hefði pínt sig í heilt sumar,  en svo hafi þetta verið gaman.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Árið 2006 , þá var mér gefið golfsett í jólagjöf.

Hvað starfar þú?  Ég er þroskaþjálfi  – Forstöðumaður fyrir skammtímavistun og skólavistun fatlaðra barna á Akureyri.

Hvort kanntu betur við skógar- eða strandvöll?   Skógarvöll.

Hvort líkar þér betur við holukeppni eða höggleik? Holukeppni.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi? Hlíðarendinn á Sauðárkróki. Hamarsvöllur á Dalvík er líka rosalega skemmtilegur.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum? Pebble Beach –  Mér finnst það flottur völlur.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju? Hólmsvöllur í Keflavík út af Bergvíkinni og Hamarsvöllur í Borgarnesi  vegna eyjunnar á 16. braut. Ég dýrka ögranir í golfi.

Hvað ertu með í forgjöf?  Ég veit það ekki. Ég var með 24,8 fyrir mótið (Opna kvennamót GSS), en fékk 42 pkt.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því? 94 högg á Hlíðarendavelli á Sauðárkróki.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Það er ekkert sérstakt markmið að afreka neitt ég er  bara í golfi til að hafa gaman að þvi.

Hvaða nesti ertu með í pokanum? Corny, rúnstykki smurt með osti og vatn.

Hefur þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Ég var í handbolta og fótbolta í Þór á Akrueyri, svo var ég á skíðum, í júdó (í Júdófélagi Akureyrar) og svo siglingum (í Siglingaklúbb Akureyrar).

Hver er uppáhaldsmatur, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhaldsmaturinn minn er lambalæri, uppáhaldsdrykkur: vatn, uppáhaldstónlist: eitthvað rólegt, sem ég get slakað á við; uppáhaldskvikmynd: Rainman og uppáhaldsbók: „Litli prinsinn“ eftir Antoine de Saint-Exupéry.

Uppáhaldskylfingur kvenkyns og karlkyns?  Kvk.: Annika Sörenstam.  Kk.: Jim Furyk (út af sveiflunni – gaman að horfa á hann).

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Í pokanum hjá mér er eftirfarandi: Ping Rhapsody járn og 5-tré og dræver 24° Ping Rapture Odyssey pútter með klauf, 60° Callaway kylfa. Uppáhaldskylfan er 5-tréð af því ég hitti alltaf svo vel með því.

Meginmarkmið í lífinu?  Njóta þess að vera til.

Hvað finnst þér best við golfið? Samveran við fjölskylduna. Við getum verið fleiri, fleiri tíma saman úti í góðu veðri – eigum sama áhugamál, sem ekki er sjálfgefið. Þetta er æði.

Ertu hjátrúarfull? Ekki í golfinu, nema ég spila alltaf með nýja kúlu í mótum. en annars að sumu leyti fer t.d. ekki undir stiga.

Spurning frá síðasta kylfing (Unni Halldórsdóttur, GB) sem var í viðtali hjá Golf 1:

Hvaða kylfu finnst þér best að nota á 70 metra par-3 braut? Svar Önnu: Ég myndi nota 9-járnið.

Getur þú komið með spurningu fyrir næsta kylfing sem Golf 1 tekur viðtal við? 

Spurning Önnu: Notar þú einhvern tímann pútter þegar þú ert fyrir utan flöt?