Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 13. 2012 | 17:00

Viðtalið: Andri Þór Björnsson, GR, er að fara í háskólagolfið í Bandaríkjunum n.k. sunnudag

Viðtalið í kvöld er við Andra Þór Björnsson, klúbbmeistara GR 2011, sem er að fara til náms í Bandaríkjunum í Nicholls State. Þar mun hann spila í golfliði háskólans, ásamt þeim Pétri Frey Péturssyni, GR og Kristjáni Þór Einarssyni, GKJ. Hér fer viðtalið við Andra Þór:

Fullt nafn: Andri Þór Björnsson.

Klúbbur: GR.

Hvar og hvenær fæddistu?  Ég fæddist í Reykjavík 10. nóvember 1991.

Hvar ertu alinn upp?   Ég er bara Borgarbarn, alinn upp í Grafarvogi.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður?  Ég bý hjá pabba og mömmu og á 2 systur.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Ég byrjaði 6-7 ára með  pitchingwedge-ið hans pabba.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Ég prófaði golfnámskeið hjá Nolan. Ég fór 6 sinnum á sama námskeið það var svo gaman.

Hvað starfar þú?  Ég er sölumaður hjá Ásbirni Ólafssyni í afleysingum og leiðbeinandi í golfi – Svo er ég verðandi háskólanemi Nicholls State University.

Andri Þór Björnsson, GR og Nicholls State. Mynd: gsimyndir.net

Andri Þór Björnsson, GR og Nicholls State. Mynd: gsimyndir.net

Í hvaða nám ertu að fara í Louisiana?  Ég er að fara í markaðsfræði (ens.: business marketing).

Hverjar eru væntingar til námsins? Ég hef ekki kynnt mér þetta en þeir sem ég hef verið í sambandi við er nice og almennilegt fólk, þannig að þetta getur ekki verið leiðinlegt. Svo eru líka Kristján Þór  GKJ og Pétur Freyr, GR sem verða þarna í golfliðinu.

Hvort kanntu betur við skógar- eða strandvelli?  Skógarvelli- af því þeir eru þrengri jafnvel mýkri og bara það er þægilegra veður í kringum þá. Það er hrikalega gaman að spila í logni,  þegar maður spilar allt árið hér í vindi.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Það er ótrúlega gaman í holukeppni… málið er…  æ ég veit það ekki – það er bara eitthvað við höggleikinn að það sé hægt að vinna 2 högg á einni holu eða tapa, en ekki bara vera að keppast um holuna – Mér persónulega finnst mér það reyna meira á mann – holukeppnin reynir samt líka á andlegu hliðina.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi? Korpúlfsstaðir. Völlurinn svipar meira til valla í  útlöndum, með þessar löngu par- 3 brautir, eins og 13. brautina.Þegar maður fer út fyrir braut þá er það oft tapað högg og maður er kominn í vesen, þannig að völlurinn er krefjandi líka.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Af þeim sem ég hef spilað er það TPC Sawgrass – annars er það Augusta.

4. brautin á TPC Sawgrass er uppáhaldsbraut Andra Þórs. Mynd: Condé Nast

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  TPC Sawgrass – Bara að vita það að þessir karlar á PGA hafi verið í búningaherbergjunum þar sem maður var – fengið sér mat á sama stað og maður var á og verið við æfingar á æfingasvæðinu.  Það var góð tilfinning. –  4. holan á TPC Sawgrass er ein af mínum uppáhaldsholum.

Hvað ertu með í forgjöf?  1

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   -3 á Öndverðanesi 67, 69 á Urriðavelli -2 í Þýskalandi, þar sem Harder Junior Masters fór fram. Ég á nokkra hringi á  -1,-2 og -3 undir pari.

Hvert er lengsta drævið þitt?  Veit það ekki – það er styttra en hjá Axel Bóassyni.

Hefir þú farið holu í höggi?  Já, á 11. braut hjá GKG – Ég var fyrstur til að fara holu í höggi á nýja Leirdalsvellinum.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Ég er yfirleitt með eitthvað frá mömmu, hún smyr eitthvað – svo drekk ég ágætlega hollan orkudrykk – Leppin – og er með orkustykki/próteinbar. Annars þarf ég að fara að bæta mig í þessu t.d. taka fleiri banana með.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Ég var lengi vel í fótbolta; lék með Fjölni til 3. flokks.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Að verða klúbbmeistari GR í golfi 2011.

Ólafía Þórunn og Andri Þór – Klúbbmeistarar GR 2011. Mynd: grgolf.is

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?  Uppáhaldsmaturinn minn er humar, uppáhaldsdrykkurinn er Leppin; hvað tónlistina varðar þá vel ég mér lög á iPodinn og hlusta; uppáhaldskvikmyndin er Shawshank Redemtion og uppáhaldsbókin er „Betra Golf“ eftir Úlfar og Arnar Má.

Hver er uppáhaldskylfingur, nefndu 1 kven- og 1 karlkylfing?   Kvk.: Natalie Gulbis ásamt öllum íslenskum kvenkylfingum. Kk:  Tiger Woods, Alex Noren, Robert Rock – er það draumahollið? Nei, það er Tiger, ég, Teddy Sheringham og Tom Cruise.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er er uppáhaldskylfan þín?  Í pokanum hjá mér er allt Titleist og uppáhaldskylfan mín er sandwedge-inn.

Hefir þú verið hjá golfkennara?   Já, já þeir hafa verið nokkrir Derrick Moore, Ólafur Már Sigurðsson, Arnar Már Ólafsson, Brynjar Eldon Geirs.

Ertu hjátrúarfullur?  Nei.

Hvert er meginmarkmið í golfinu og hvert er meginmarkmiðið í lífinu? Í golfinu er það að komast á Evróputúrinn. Í lífinu er það að taka eitt skref í einu.

Hvað finnst þér best við golfið?  Hvað þetta er rólegt og þægilegt – maður er úti í haga að slá golfkúlu með fuglasönginn í bakgrunni.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andlegur (í keppnum)?  Andlegi þátturinn þarf að vera í lagi til til að skora vel – þetta er góður prósentuhluti hjá mér, þó ég nefni enga tölu þá þarf andlegi þátturinn þarf að vera upp á 10.

Gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?     Að mæta stundvíslega á teig.

Spurning frá fyrri kylfingi sem var í viðtali hjá Golf1, Valdísi Þóru Jónsdóttur, GL*):  Hvaða þjálfara myndir þú helst vilja fara til?

Svar Andra Þórs: Það væri hægt að segja Sean Foley en ég myndi allt eins vilja vera hjá Arnóri Inga og Binna.

Geturðu komið með spurningu fyrir næsta kylfing sem Golf1 tekur viðtal við?

Spurning Andra Þórs: Hvort myndir þú frekar vilja vinna Masters eða Opna breska?

*) Ath. viðtalið við Andra Þór er tekið fram fyrir þó nokkra aðra vegna fréttarinnar um að Íslendingum sé að bætast nýr kylfingur í bandaríska háskólagolfinu – Andri Þór Björnsson, GR – Síðasta birta viðtal á undan Andra Þór var við Eygló Myrru Óskarsdóttur og mun spurning frá henni hljóta svar frá þeim kylfingi sem rætt var við á eftir henni, þ.e. viðtali sem birtist á morgun og síðan fram haldið með röðina.