Ragnheiður Jónsdóttir | október. 8. 2011 | 18:00

Viðtalið: Andrea Ásgrímsdóttir, GO.

Um miðjan maí, þegar allt var að vakna til lífsins þetta herrans ár 2011 fór Golf 1 af stað með að taka viðtöl við íslenska kylfinga, þ.e. leggja fyrir þá á fjórða tug staðlaðra spurninga, með örlitlum frávikum í hvert sinn.  Hér fer eitt af fyrstu viðtölunum, en viðmælandi er Andrea Ásgrímsdóttir. Andrea er klúbbmeistari GA í kvennaflokki 1990, 1994, 1997 og 1999-2001, Norðurlandsmeistari í kvennaflokki 1994, 1999-2000, Íslandsmeistari 35+, árið 2010, kylfingur ársins hjá GA 2010 og nú á síðustu árum golfkennari í Golfklúbbnum Oddi í Garðabæ. Andrea er ættuð er frá Akureyri, en býr í Frakklandi. Hér eru spurningarnar og svör Andreu:

Nafn: Andrea Ásgrímsdóttir.

Fæðingardagur:  10. janúar 1974.

Hvar fæddistu? Á Akureyri.

Hvar ertu alin upp? Að mestu á Akureyri.

Fjölskylduaðstæður? Er einhver í fjölskyldunni sem spilar golf?  Ég er í sambúð og á stelpu og strák, 6 og 7 ára.  Af fjölskyldunni er það helst pabbi, sem spilar golf og svo auðvitað mágur minn, Sigurpáll Sveinsson, golfkennari hjá GK, sem er kvæntur systur minni.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Ætli það hafi ekki verið um 10 ára aldurinn.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi? Ég var að skottast með pabba, sem var byrjandi líka og ég fékk 1 kylfu til að byrja með.

Hvað starfar þú?  Ég hef verið að sinna barnauppeldinu, en tók golfkennarann með og nú hef ég verið að kenna í Oddi og svolítið líka í Frakklandi, þar sem ég bý.

Af hverju fluttist þú til Frakklands? Maðurinn minn fór að vinna þar og ævintýraþráin leiddi okkur þangað.

Hvort finnst þér skemmtilegra að spila á skógar- eða strandvelli?    Eg verð eiginlega að  segja á skógarvelli en allt í bland er audvitað skemmtilegast.

Hvort leikfyrirkomulagið finnst þér skemmtilegra holukeppni eða höggleikur?  Klárlega holukeppni 🙂

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi og í Frakklandi? Uppáhaldsgolfvöllurinn er golfvöllurinn „minn“ í Frakklandi: Golf des Pins, í Hardelot. Á Íslandi:  Svolítið erfitt að svara því en mér finnst alltaf skemmtilegt að spila á Akureyri, þar sem maður var öllum stundum og lærði að spila golf.

Golf des Pines - Hardelot, Frakklandi

(Innskot: Með því að smella hér fyrir neðan má sjá myndskeið af vellinum hennar Andreu, Golf des Pins í Hardelot, Frakklandi):

GOLF DES PINS – HARDELOT

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum? Eg er nú ekki mikið fyrir svona uppáhalds þetta og hitt, svo lengi sem maður er í góðum félagsskap er alltaf gaman í golfi 🙂

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju? Mér fannst rosalega gaman ad spila á Sawgrass en minnisstæðasti völlurinn er Royal st. Georges. Rosalega erfiður og vindurinn auðvitað mikill og völlurinn allt öðruvísi en skógarvellirnir í Frakklandi. Ég var mjög sátt við að þurfa ekki ad skila skorkortinu mínu inn eftir þann hring…

 Hvað ertu með í forgjöf? 4,6

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því? Hef spilað Jaðar á pari og svo paraði ég einu sinni le Pins.

Hefur þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Hér áður fyrr var ég  í mjög mörgum íþróttum t.d. badminton og handbolta (KA) og var líka mikið á skíðum. Svo er ég nýbyrjuð í tennis, sem er íþrótt sem ég vildi að ég hefði byrjað fyrr að stunda…

Uppáhaldsmatur? Gott sushi gæti ég haft í öll mál.

Uppáhaldsdrykkur?  Það jafnast fátt á við gott rauðvín.

Uppáhaldstónlist? Úff, það fer nú eftir stemningunni en ég kemst reyndar alltaf í stemningu með hit lögum dagsins með David Guetta, Rihanna o.fl.-  svona eins og hinir unglingarnir 😉

Uppáhaldskvikmynd? Man ekki neinni sérstakri, þær eru svo margar.

Uppáhaldsbók? Það sama. Þetta er erfitt. Uppáhaldsbókin er sú sem ég les hverju sinni og núna er ég að lesa Rokland.

Uppáhaldskylfingur kvenkyns og karlkyns? Get ekki gert upp á milli vinkvenna minna sem eru klárlega mínir uppáhaldskylfingar og það er svo skemmtilegt að það er alltaf að bætast í hópinn, það er af sem áður var þegar maður var eina stelpan sem spilaði golf! Svo finnst mér t.d. Rory Mcllroy skemmtilegur kylfingur.

Hver er uppáhaldskylfan þín? Dræverinn kemur alltaf sterkur inn.

Hvernig lítur draumahollið þitt út? Úff fleiri svona uppáhalds- og draumaspurningar 🙂 það er enginn sérstakur draumur að spila með einhverjum frægum svo draumahollið samanstendur bara af hinum ofurskemmtilegu golfvinum og vinkonum mínum á Íslandi. „Júllurnar“ verða nú reyndar að teljast til draumaholls en það er sko alltaf fjör hjá okkur 🙂

Hversu stór hluti af golfinu (þegar þú ert að keppa) telur þú að sé andlegur? MJÖG stór hluti.

Hefir þú farið holu í höggi? Já.

Hvaða nesti hefir þú með þér út á völl? Alltaf vatn og svo oftast samloku og ávöxt.

Hvað finnst þér best við golfið? Það er erfitt að segja eitthvað eitt þar sem það er af mörgu að taka. Félagsskapurinn klárlega, útiveran og svo er gaman að það er hægt að búa til spennandi keppni á milli  allra þó getan sé mismunandi.

Nú starfar þú sem golfkennari – af hverju valdir þú það starf? Eru launin góð? Já, aðallega út af laununum 😉 nei nei, mér finnst þetta bara skemmtilegt. Golfvöllurinn er líka svona „happy place“ þar sem allir eru glaðir og það er alltaf gaman að vera í þannig umhverfi.

Hvaða golfkennara erlendan/innlendan dáist þú mest að og af hverju? Nú fórstu alveg með mig – (Hlægjandi) – Ég verð að segja Maggi Birgis og Philip –  þeir eru góðir golfkennarar klárlega – get ekki farið að svíkja lit með það að nefna einhvern annan.

Hefir þú ákveðið concept í golfkennslu þinni?  Nei ekkert svona sem ég get sagt – Það er misjafnt miðað við á hvaða stigi nemandinn er.

Hvert er besta ráð sem þú getur gefið kylfingum? Treysta sveiflunni sinni.

Hvað er í pokanum hjá þér?  Mizuno kylfur – Ping pútter – Ping trékylfur – G5 Ping dræver.

Meginmarkmið í lífinu?   Hafa gaman!