Ágústa Sveinsdóttir sigraði bæði í höggleiks- og punktakeppninni
Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 26. 2011 | 14:00

Viðtalið: Ágústa Sveinsdóttir, GK

Viðtalið í dag er við Ágústu Sveinsdóttur, GK, sem í sumar var ræsir á Hvaleyrinni. Hún er ein af þessum sterku kvenkylfingum í Golfklúbbnum Keili. Hér fer viðtalið:

Fullt nafn:   Ágústa Sveinsdóttir.

Klúbbur: GK.

Hvar og hvenær fæddistu?    Ég fæddist í Hafnarfirði, nánar tiltekið Sólvangi þann 8. desember 1954.

Hvar ertu alin upp?  Ég er alin upp í Hafnarfirði – ég átti heima í Rvík í 3 ár, annars hef ég alltaf verið í Hafnarfirði.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður – er einhver í fjölskyldunni í golfi?  Ég er gift og á 2 dætur og 5 barnabörn. Tengdasynir mínir hafa verið í golf, en dætur mínar hafa ekki komið sér í þetta og barnabörn Maðurinn minn, Örn Bragason, er í golfi.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Það var 1998 eða 1999.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Örn keypti handa mér golfsett sem var í 10 ár í geymslu – ég ætlaði aldrei að eyða mínum fína frítíma í golf heldur gera eitthvað skemmtilegt.

Hvað starfar þú?  Ég er ræsir hjá GK.

Hvort líka þér betur skógar- eða strandvellir?    Báðir eru skemmtilegir – það er gaman að spila hvorttveggja, ég geri engan greinarmun á því.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Ég spila oftar höggleik en holukeppni – en þær eru meira spennandi.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?  Hvaleyrin – það er alltaf gaman að spila hana.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?   Hann er í Danmörku; ég man ekki hvað hann heitir. Þetta er völlur, sem er rétt hjá þar sem  dóttir min býr. Þetta er frábær völlur, byggður ofan á sandgryfjum.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Hann er mjög sérstakur völlurinn úti á Spáni, sem er með fornminjar á einni brautinni  (Alicante Golf) og svo eru vellir í Flórída í Bandaríkjunum, sem eru með ávaxtaplöntum út um allan völl, þ.e. mandarínur og appelsínur eru út um allan völl, þannig að þeir geta oft verið mjög litaglaðir.

Hvað ertu með í forgjöf?  18.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?  87 á Hvaleyrinni, 14. júlí 2011.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?   Að hafa komið mér í golfið vegna þess að ég er anti-sportisti.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?  Ég er með Corny-Kex og eina samloku.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?   Nei, ég antisportistinn?

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Mér finnst margt svo gott – mér finnst gott innanlæri þegar það er búið að vera að marinerast  í 1 viku, það er kjöt, sem bráðnar upp í manni; uppáhaldsdrykkurinn er Margaríta; ég er alæta á tónlist, en ekki mikið fyrir pönk, mér finnst t.d. nýja platan hans Helga Björns góð. Ég fer svo sjaldan í bíó og man ekki eftir neinni sérstakri. Það rennur bara í gegn… ja, annars finnst mér James Bond myndir skemmtilegar; Loks er uppáhaldsbókin golfreglurnar... a.m.k. er það sú sem ég fletti mest í, í dag.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn, nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?  Phil Mickelson tekur sénsa og er skemmtilegur af karlmönnunum. Maður hefir horft svo lítið á kvennagolfið , en þær eru flottar margar hér (í GK) t.d. Ólöf María Jónsdóttir.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Í pokanum hjá mér er Cobra drævinn minn og þessi hefðbundnu tré og járn. Ég fann t.d. 4 járn um daginn og svo hálfvita, sem ég nota aldrei. Það má koma fram að það er virkilega erfitt að fá kylfur fyrir örvhenta… það er því ekki hlaupið að því fyrir mig að fá kylfur og pútter. Uppáhaldskylfan? Ætli það sé ekki 5 tréð.

Hefir þú verið hjá golfkennara? Nei, ekki í mörg ár – Guð það er svo langt síðan ég hef farið til golfkennara. Það eru a.m.k. 7-8 ár síðan. Ég fer aldrei á æfingasvæði, ég fer bara út á völl til að spila golf í góðum félagsskap og njóta dagsins.

Ertu hjátrúarfull?  Nei.

Hver meginmarkmið í golfinu og í lífinu? Í golfinu er það að spila Hvaleyrina undir 85 höggum. Í lífinu er það að njóta lífsins – njóta hvers dags.

Hvað finnst þér best við golfið?  Þessi tilfinning þegar þú gengur út á golfvöll, kyrrðin í góðum félagsskap, umhverfið er svo yndislegt og þessi vellíðan, sem kemur yfir mann, maður hvílist og það kemur yfir mann værð og þakklæti fyrir að fá að vera til í þessu umhverfi.

Er eitthvað gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?   Að taka leikinn ekki of alvarlega, njóta hans og þakka fyrir að fá að vera með.

Að síðustu:

Getur þú komið með spurningu fyrir næsta kylfing?   

Spurning Ágústu: Hvað ertu að hugsa þegar þú tekur æfingasveifluna?