Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 7. 2011 | 19:00

Viðtalið: Hlynur Geir Hjartarson, GOS.

Hér á eftir fer viðtal Golf 1 við framkvæmdastjóra GOS, Hlyn Geir Hjartarson, en Golfklúbbur Selfoss fagnaði einmitt 40 ára afmæli í ár:

Fullt nafn: Hlynur Geir Hjartarson

Klúbbur: GOS

Hvar og hvenær fæddistu? Ég fæddist í Reykjavík 31. október 1976.

Hvar ertu alinn upp? Ég er alinn upp í sveit, er sveitastrákur úr Ölfusinu. Ég fluttist þangað að Akurgerði, 4 ára.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður? – Spilar einhver í fjölskyldunni golf? Ég á 3 börn Alexander Mána, 1 árs, Katrínu Emblu, 3 ára og Heiðrúnu  Önnu 10 ára. Eldri dóttir mín er mjög góð í golfi og Katrín er farin að biðja um að fara í golf á hverjum degi. Gunnhildur Katrín, konan mín, á sett og ætlar að byrja í golfi þegar sá yngsti fer í golf.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? 18 ára, sem sagt 1995

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Það var bara þannig að ég var í sumarbústaðaferð með félögum mínum í Öndverðarnesi Ég drakk ekki áfengi, fann golfsett og við spiluðum golf alla nóttina. Við fórum allir og vorum ekki mikið að djúsa þá. Við tókum það bara með trompi. Ég byrjaði hreinlega í golfi þá og eftir þess ferð var farið á fullt.

Hvað starfar þú?  Ég er framkvæmdsastjóri GOS og golfkennari. Svo er ég fararstjóri hjá Heimsferðum á Novo Sancti Petri. Síðan á ég lítið fyrirtæki sem heitir Parketþjónustan Hlynur. Það nota ég meira á veturna.

Ertu með ákveðið concept í kennslunni?  Í framtíðinni ætla ég að verða stuttaspilsgúru, það er stefnan.

Ert þú með eitthvað ráð handa kylfingum? Já, menn mættu einbeita sér að því reyna að hitta kúluna betur, allir hugsa of mikið um sveifluna – Það þarf að hitta boltann betur.

Hefir þú  sjálfur verið hjá golfkennara?   Ég er eiginlega alinn upp hjá Magnúsi Birgissyni.

Er einhver golfkennari í uppáhaldi hjá þér? Magnús Birgisson – Hann hefur gert mig að því sem ég er í golfinu og að sjálfsögðu er hann þá uppáhaldskennarinn.

Hvort kanntu betur við skógar- eða strandvöll?   Strandvöll. Það er síðan ekkert verra ef maður spilar á linksara að sagan sé á bakvið. En annars finnst mér eiginlega gaman að spila beggja blands. Mér finnst oft skemmtilegra að spila á linksurum, ég er meiri targetspilari og finnst skemmilegra að spila velli þar sem ekki er hægt að spila út um allt.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur? Holukeppni. Eftirminnilegasti hringur sem ég hef spilað var í holukeppni en það var sveitakeppninn upp á Akranesi. Ég var á -7 og -8 undir pari, spilaði gegn Kristjáni Þór Einarsssyni og þetta er hringur sem maður gleymir aldrei. Svona hringir koma aldrei í höggleik maður bara horfir á pinnann og verður að komast þangað og verður að vera betri enn hinn. Sækja á og passa sig til skiptis. Ef maður klúðrar einni holu í holuskeppni skiptir það oft engu máli.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?  Hvaleyrin.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Uppáhaldsgolfvöllurinn minn er skoskur í fyrsta lagi – en svo á ég marga uppáhaldsgolfvelli í Skotlandi:  Gleneagles, Carnoustie, Kingsbarns, St Andrews – maður getur bara ekki gert upp á milli þeirra.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju? Sérstakasti golfvöllur sem ég hef spilað það var eiginlega þegar ég tók þátt Opna skoska meistaramótinu og völlurinn hét Greginlaw. Það var ekkert að vellinum, en hann var spes fyrir mig á þessum tíma. Þetta er grjótharður linksari og öll greenin eins og öfugar súpuskálar og boltinn lak í allar áttir.

Hvað ertu með í forgjöf?  -1

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?  Lægsta skorið er 65 högg -7  á Svarfhólsvelli á Selfossi.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu? Ætli það sé ekki bara minn fyrsti sigur á mótaröðinni 2005 og Íslandsmeistarinn í holukeppni 2008.

Hversu stór hluti í prósentum talið er andlegi þátturinn hjá þér þegar þú ert að keppa?  Hjá mér er andlegi þáttur svona 80%

Hvaða nesti ertu með í pokanum?  Ég drekk mikið vatn – sódavatn – og reyni að hafa alltaf banana og einhvers konar brauð  og epli.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Ég var í fótbolta með KR og Selfoss varð Íslandsmeistari og bikarmeistari með þeim.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn; uppáhaldsdrykkur; uppáhaldstónlist; uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhaldsmaturinn minn er lambalærið hjá mömmu – erlendis leita ég alltaf upp einhvern góðan kínverskan eða indverskan; uppáhaldsdrykkurinn er kók; uppáhaldstónlistin mín er með U2; uppáhaldskvikmyndin er Forest Gump – fólk á að lifa þannig – persónan sem Hanks lék var jákvæður og lét ekkert bögga sig; uppáhaldsbókin mín er:  Golf is not a game of perfect

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn, nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?  Kk:  Tiger Woods (kemur bara sterkur inn – hann lendir í lægðum eins og allir i lifinu – held upp á hann vegna þess hvernig honum hefir tekist að höndla sitt uppeldi) Kvk: Oh, ég fylgist svo lítið með kvenkylfingum, segi bara Natalie Gulbis af því hún er svo falleg.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Í pokanum er allt TaylorMade og uppáhaldskylfan mín er hvíti  R11 dræverinn minn.

Ertu hjátrúarfullur?  Já, ég var skelfilega hjátrúafullur. Ég  þurfti alltaf að vera í sömu sokkunum og með sömu rútínuna.  Fyrir keppnir sló ég alltaf sama fjölda bolta og púttaði sama fjölda pútta.

Hvað er meginmarkmiðið í lífinu? Þetta er rosa stór spurning. Ætli það sé ekki að lifa daginn og njóta hans eins og maður getur.

Hvað finnst þér best við golfið?  Það besta við golfið er pottþétt það að maður er endalaust að challenga sjálfan sig 4 1/2 – 5 tíma að spila golf og alltaf að lenda í óvissu það er eitthvað sem mér finnst gaman – um leið og manni finnst það leiðinlegt – þá er andlegi þátturinn orðinn þannig að maður performar ekki lengur.

Að síðustu:

Spurning frá síðusta kylfing (Unni Ósk Valdimarsdóttur, GSG)  sem var í viðtali hjá Golf 1:

Hvernig finnst þér að vera í golfi – hefur þú ánægju af golfi?   Svar  Hlyn Geirs:  Yfirleitt – Aðalvandamálið, sem ég er að berjast í núna er tímaleysi, þar sem allur tíminn fer í framkvæmdastjórann og að kenna  24/7 – Að fara út á völl og njóta þess að spila er stóra markmiðið – Vonandi að ég missi það ekki.

Getur þú komið með spurningu fyrir næsta kylfing sem Golf 1 tekur viðtal við?   

Spurning Hlyn Geirs:  Hefur þú komið á Selfoss og spilað golf?