Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 1. 2013 | 10:45

Viðtal við landsliðsþjálfarann eftir Finnish International Junior Open

Á föstudag lauk Finnish International Junior Championship, sem fram fór í Vierumäki í Finnlandi. Þetta er í annað sinn sem mótið fer fram með alþjóðlegum keppendum og hafa Íslendingar átt þátttakendur í bæði skipin. Í fyrra fóru fimm keppendur en tólf sóttu mótið í ár. Mótið er fyrir stúlkur og drengi í flokkum 15-16 ára og 14 ára og yngri og telur Úlfar Jónsson landsliðsþjálfari þetta mót henta vel fyrir okkar fremstu unglinga í þessum aldursflokkum.

Gísli Sveinbergsson, GK. í Vierumäki

Gísli Sveinbergsson, GK. í Vierumäki

Gísli Sveinbergsson úr Golfklúbbnum Keili náði frábærum árangri og hafnaði í öðru sæti eftir bráðabana um sigurinn við Finnann Sami Valimaki. Að sögn Úlfars var keppnin gríðarlega spennandi allan tímann. Gísli var með forystuna þegar 9 holur voru eftir en púttin kræktu á næstu holum hjá Gísla og Finninn hafði eins höggs forystu þegar 4 holur voru eftir. Þá setti Gísli niður um 10 metra pútt á 15. og staðan jöfn. Enn var jafnt þegar þeir komu á 17. sem er par 3, og sló Gísli frábært högg um 3 metra frá holu. Valimaki gerði enn  betur og kúlan rann yfir holubrúnina og endaði innan við fet frá holu. Pressan var því á Gísla sem setti púttið í miðja holu. Á 18. sem er par 5 voru þeir báðir við flöt í tveimur höggum. Eftir vippin átti Valimaki 3 metra pútt fyrir fugli sem hann setti í holu. Gísli var með rúman metra, sem hann var ekki í  vandræðum með að setja í holu. Sama hola var leikin í bráðabana og lenti Gísli í vandræðum eftir annað höggið, en bolti hans hafnaði í glompu um 90 metra frá holu. Þaðan átti hann gott högg en boltinn flaug aðeins of langt og hafnaði utan flatar. Valimaki átti mjög gott vipp inn á flöt um einn og hálfan metra frá holu. Þegar púttið fyrir pari geigaði hjá Gísla var sigurinn öruggur hjá Finnanum.

Gísli Sveinbergsson, GK

Gísli Sveinbergsson, GK

„Það er grátlegt að komast svona nálægt sigri og vonbrigðin mikil fyrir Gísla. En hann getur verið mjög stoltur af sinni spilamennsku og hvernig hann lék seinustu holurnar þegar allt var undir. Það er mjög gaman að fylgjast með Gísla hvernig hann nálgast leikinn af mikilli yfirvegun og þroska. Hann er gríðarlega mikið efni og ég yrði ekki hissa þó hann tryggði sér sæti í karlalandsliðinu á næsta ári“ sagði Úlfar. „Svona spilamennska og árangur hjá Gísla er mikil hvatning fyrir aðra unga kylfinga. Þau sjá hvað hægt er að gera. Það er mikil samkeppni í flokki 15-16 ára drengja og ég held að við höfum ekki átt jafn breiðan og öflugan hóp í þeim aldursflokki áður. Við höfum séð skor uppá 61 högg hjá Fannari Inga á Hellu og síðan 65 í Vestmannaeyjum í kjölfarið. Þetta eflir allan hópinn og aðra kylfinga stúlkur og stráka allt í kring, að sjá hvað hægt er að gera með miklum metnaði og dugnaði“ sagði Úlfar að lokum.

Vinningshafarnir í flokki 15-16 ára í Vierumäki. Gísli Sveinbergs er lengst til hægri á mynd.

Vinningshafarnir í flokki 15-16 ára í Vierumäki. Gísli Sveinbergs er lengst til hægri á mynd.

Árangur íslensku keppendurna má sjá með því að  SMELLA HÉR: 

http://www.golfbox.dk/livescoring/leaderboard.asp?tour=5F8DB2EC-1258-4D44-93ED-0EAD84C000B7&grp=1&clubOnly=1&lang=2057

Gísli Sveinbergs, GK, slær inn á flöt

Gísli Sveinbergs, GK, slær inn á flöt

Heimild og myndir: GSÍ